09. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Þyrftum 30 fleiri nýja lækna á ári, - formaður LÍ og forseti læknadeildar sammála um það

Um 30 fleiri þyrftu að bætast í hóp útskrifaðra lækna hér á landi á ári ef halda ætti í við fólksfjölgun, samkvæmt tölum Læknafélags Íslands. Skoða þarf að fleiri komi að klínískri kennslu lækna

„Ég hef ekki aðeins áhyggjur af þessari stöðu, ég óttast hana. Við glímum þegar við mikla manneklu og horfurnar eru dökkar,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins.

Steinunn Þórðardóttir, formaður LÍ. Þórarinn Guðjónsson, forseti læknadeildar HÍ.

Læknafélagið telur að eftir þrjú ár, árið 2025, vanti tæplega 90 lækna hér á landi miðað við hlutfallslega meiri eftirspurn eldra fólks eftir heilbrigðisþjónustu. Nærri 130 lækna vanti árið 2030 og yfir 250 árið 2040, verði ekki gripið inn í. „Um 30 útskrifast erlendis ár hvert og gerum við ráð fyrir þeim í þessu mati,“ segir Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Læknafélagsins.

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, sagði í fréttum RÚV, þann 17. ágúst, að mannekla spítalans hafi aldrei verið meiri en þetta sumar. Starfsfólk vanti á öllum vígvöllum. Ef ekki verði brugðist við sem fyrst fari spítalinn í þrot. „Við þurfum að mennta fleiri með einhverjum hætti og tryggja að fólk haldist í starfi,“ sagði hann við RÚV.

Steinunn tekur undir orð Runólfs. „Hann talar tæpitungulaust og við verðum að hlusta og bregðast við.“ Hún telur mikilvægt að spítalarnir utan höfuðborgarsvæðisins fái aukin tækifæri til að sinna klínískri kennslu læknanema. „En þessir spítalar eru sveltir eins og Landspítali. Til að þeir geti tekið við læknanemum þarf að styrkja þá.“

Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri segir í viðtali við Vísi að sjúkrahúsið geti tekið á móti fleiri læknanemum í grunnnámi gegn ákveðnum breytingum.

Steinunn segir einnig mikilvægt, ætli íslensk yfirvöld áfram að stóla á að fólk fari utan í læknanám, að þau greiði götu þess. „Þau sem fara utan sitja ekki við sama borð og þau sem læra heima. Ef við þurfum að treysta á erlenda læknaskóla, þurfum við að finna kerfi sem jafnar stöðu þeirra sem læra þar.“

Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir í viðtali í þessu blaði vera sóknarfæri í að sjálfstætt starfandi læknar kenni læknanemum. Þórarinn Guðjónsson, forseti læknadeildar, fagnar nýjum hugmyndum og segir vert að ræða. „Ég veit að bæði læknadeild og spítalanum er umhugað um að taka á vandanum. Nú horfum við til þess að stórefla hermikennslu,“ segir hann og segist hafa átt fund með Runólfi um þá leið. Þórarinn segir ekkert gerast nema nýjar hugmyndir séu settar á borðið og ræddar.

„Klíníska kennslan hefur verið flöskuhálsinn fyrir fjölgun nema í læknisfræði. Auðveldara er að fjölga í grunngreinunum enda fer stór hluti þess náms fram í fyrirlestrum og í verklegum æfingum. Ég fagna því svona hugmyndum og nauðsynlegt er að ræða þær innan deildarinnar,“ segir hann.

Samkvæmt nýjustu tölum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, dregur Ísland meðaltal ríkjanna niður þegar kemur að útskrift lækna. Meðaltalið árið 2019 er 13,2 á hverja 100.000 íbúa en hér á landi útskrifuðust 11,4, áþekkt því sem er í Noregi. Til samanburðar útskrifuðust árlega nærri 25 írskir læknar og 23 danskir, en í þessum löndum er staðan best.

Hér má sjá mannaflaspá starfandi lækna á Íslandi 2020-2040. Graf/Læknafélagið

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica