09. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Biðin lengdist þótt færri kæmu á bráðamóttökuna segir Jón Magnús Kristjánsson

30 færri komu hvern dag í júní og júlí á bráðamóttöku Landspítala.
Spítalinn ætlar að takmarka fjölda þeirra sem liggja á göngunum við 15.
Óvissa í kortunum í vetur

900 færri komu á bráðamóttöku Landspítala bæði í júní og í júlí miðað við maí í ár og sumarmánuðina í fyrra. Þetta segir Jón Magnús Kristjánsson sem leiðir viðbragðsteymi bráðaþjónustunnar sem heilbrigðisráðherra skipaði í júní. Ekki sjáist merki þess að aðsókn hafi aukist annars staðar í kerfinu á sama tíma. Eitt af úrræðum sumarsins hafi verið að ráða 6 erlenda lækna til starfa, tvo til lengri tíma.

„Þrátt fyrir minni aðsókn sjáum við að bið eftir þjónustu lengist, fleiri liggja á göngunum og bíða lengur eftir innlögn á aðrar deildir,“ segir hann. Biðin sé nú orðin sambærileg við það sem var fyrir COVID. „Meðalbiðtími þeirra sem lögðust inn á aðra deild var 23,5 klukkustundir í júlí.“ Samkvæmt tölum spítalans var hún 21 klukkutími í júní, rétt eins og fyrir COVID.

Jón segir rót vandans á bráðamóttökunni enn vera fráflæði sjúklinga á aðrar deildir. Tvær meginleiðir séu til að bæta úr stöðunni: Að fjölga fullnægjandi úrræðum fyrir einstaklinga með færniskerðingu utan Landspítala. Að ákvarða hámarkstíma sem einstaklingar megi vera á bráðamóttökunni. Lausn sem leiði til aukins álags á öðrum deildum.

„Reynt verður að fara báðar þessar leiðir,“ segir Jón, og að stefnt verði á að 100 meðferðarrými utan Landspítala verði opnuð á haustmánuðum. Framkvæmdastjórn spítalans hafi tekið þá ákvörðun að setja hámark á fjölda þeirra sem liggi á bráðamóttökunni á hverjum tíma. Már Kristjánsson, forstöðumaður lyflækninga- og bráðaþjónustu Landspítala, segir að miðað sé við að um 15 liggi inni hverju sinni. Sú tala verði 10 þegar meðferðarrýmin opni.

Jón segir að minni ásókn hafi verið ákveðinn sigur í þungri stöðu bráðamóttökunnar en hlutverk viðbragðsteymisins var að tryggja bráðaþjónustu spítalans í sumar. „Ég tel að fjölmiðlaumfjöllun um stöðuna hafi hjálpað þar til.“ Helsta áskorun bráðamóttökunnar nú er skortur á hjúkrunarfræðingum. Uppsagnarfresti þeirra sem sögðu upp í vor er að ljúka.

„Það verður mikil áskorun fyrir Landspítala að reka deildina þegar vantar um það bil þriðjung hjúkrunarfræðinganna sem ættu að vinna þar,“ segir hann. En þó sé jákvætt að 23 hjúkrunarfræðinemar hafi ráðið sig á deildina í sumar.

Már segir að búast megi við fimmtu COVID--bylgjunni og erfiðri inflúensu miðað við reynsluna á suðurhveli jarðar. Þá séu miklar breytingar í innra skipulagi og mönnunin óvissuþáttur. „Ef við vegum þetta saman má segja að horfurnar einkennist af óvissu.“

Móta hlutverk bráðadeilda

Ein megináhersla viðbragðsteymis um bráðaþjónustu er að búa til stefnu og staðla fyrir bráðamóttökurnar í Reykjavík, Keflavík, á Akureyri og Selfossi.

„Núna þegar kreppir að heilbrigðiskerfinu með vaxandi skorti á starfsfólki er afar mikilvægt að hafa heildaryfirsýn svo nýta megið takmarkað féð sem best,“ segir Jón Magnús Kristjánsson forsvarsmaður teymisins. Hann var yfirlæknir bráðamóttökunnar og sat í átakshópi heilbrigðisráðherra um vanda hennar 2020.

„Ég upplifi að nú séu úrræði sett í framkvæmd,“ segir hann. „Hér er fullur vilji til að gera allt sem hægt er til að leysa vandann.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica