0708. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Hugleiðingar um heilbrigðismál. Gizur Gottskálksson

Fyrir síðustu alþingiskosningar bar öllum flokkum sem buðu fram saman um að heilbrigðismálin væru efst á blaði. Skoðanakannarnir síðustu árin hafa leitt í ljós að almenningur í landinu setti þau í fyrsta sæti.

Ekki minnkaði áherslan á þau mál í COVID-faraldrinum og afleiðingum hans. Um þetta var meðal annars kosið. En hvað svo? Nýr heilbrigðisráðherra var skipaður og öllum bar saman um að þar færi hinn mætasti maður. Hann þótti líka fara vel af stað. Fljótlega kvað hann upp úr með að styrkja þyrfti allar stoðir heilbrigðiskerfisins, jafnt hið opinbera sem einkarekna. Var það í góðu samræmi við áherslur hans flokks sem gekk vel í kosningunum.

Þar var ekki síst tekið fram að efla þyrfti heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Gizur Gottskálksson

hjartalæknir

 

Ég held að flestum hafi þótt þetta mjög skynsamleg nálgun og bundu vonir við að nú yrði stefnubreyting.

En hvað hefur síðan breyst? Ekki mikið enn sem komið er. Vandi Landspítala hefur verið í stöðugri umræðu og að sjálfsögðu tekið mikinn tíma og orku.

En heilbrigðisþjónustan verður ekki löguð eingöngu á Landspítala þótt hann gegni mikilvægu hlutverki í kerfinu. Nýta þarf allar stoðir heilbrigðiskerfisins eins og reyndar hinn nýi ráðherra nefndi í upphafi.

En á hverju stendur?

Af einhverjum ástæðum hefur ekki verið samið við sjálfstætt starfandi sérfræðinga í fjögur ár.

Viðræður samninganefndar þeirra við Sjúkratryggingar Íslands hafa verið málamyndaviðræður og lítill samningsvilji komið fram. Samningsleysið heldur því áfram og er farið að skaða starfsemina. Nýliðun er afar lítil og að óbreyttu mun þessi þjónusta dragast saman.

Getur það verið stefna heilbrigðisyfirvalda?

Til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna eru um 500.000 komur á ári. Hvert eiga þessir sjúklingar að leita? Auka vanda Landspítala sem er ærinn fyrir? Að einhverju marki að leita til heilsugæslunnar?

Heilsugæslan virðist ekki aflögufær. Víðast tekur daga og vikur að fá tíma þar. Sérfræðiþjónusta á landsbyggðinni er svo annar kapítuli. Hana þyrfti að bæta og auka.

Setja þarf markmið um hvaða þjónustu skal veita í heimabyggð. Síðan að fjármagna og byggja upp. Hingað til hefur verið nánast handahófskennt hvaða þjónusta er veitt og hefur byggst á einstaklingsframtaki frekar en opinberri stefnu. Það hefur ríkt skömmtunarkerfi til heilbrigðisstofnana og þegar leitað hefur verið eftir auknu fjármagni á rökstuddan hátt hefur því oftast verið synjað. Betra hefur þótt að senda sjúklinga til Reykjavíkur en að sinna því sem hægt er í heimabyggð. Nú er spurningin: Hver ræður? Ráðherra heilbrigðismála eða einhver í kerfinu? Þessi atriði sem ég hef hér nefnt eru í góðu samræmi við stefnu hans.

Er ekki best að byrja að hrinda henni í framkvæmd?

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica