0708. tbl. 108. árg. 2022

Fræðigrein

Munnkvillar aldraðra algengir á hjúkrunarheimilum, þörf fyrir breytingar á heilbrigðisþjónustu

Oral health problems in nursing homes, revision of oral health care delivery is needed

doi 10.17992/lbl.2022.0708.700

Ágrip

TILGANGUR
Erlendar rannsóknir benda til þess að munnheilsa íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum sé slæm, munnkvillar séu algengir og að íbúar þurfi á tannlækningum að halda. Markmið rannsóknarinnar var að kanna ástand munnheilsu íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila hér á landi og skoða tengsl hennar við líðan og lífsgæði þeirra.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Íbúum (N=82) á tveimur dvalar- og hjúkrunarheimilum í Reykjavík var boðin þátttaka í þessari lýsandi þversniðsrannsókn. Munnheilsa íbúa var skoðuð á vettvangi og þátttakendur svöruðu spurningalista sem mat neikvæð áhrif slæmrar munnheilsu á lífsgæði.

NIÐURSTÖÐUR
Alls luku 89% (N=73) rannsókninni, meðalaldur var 86,8 ár (sf=5,7, spönn 73-100 ár). Þriðjungur íbúa var með eigin tennur og sambærilegur fjöldi var með tennur og lausa parta, en 41,5% íbúa voru alfarið tannlausir. Klínísk skoðun á munnheilsu sýndi að hátt hlutfall íbúa (67%) var með ómeðhöndlaða munnkvilla. Íbúar með verstu munnheilsuna upplifðu að hún hefði marktækt neikvæðari áhrif á lífsgæði (p=0,014), færniskerðingu (p=0,002) og líkamleg óþægindi (p=0,000) en þeir sem voru betur tenntir í þessari rannsókn. Helstu vandamál vegna slæmrar munnheilsu tengdust tyggingargetu og erfiðleikum við að matast sem hafði áhrif á fæðuval og getur leitt til ófullnægjandi mataræðis.

ÁLYKTANIR
Endurskoða þarf þjónustuúrræði á hjúkrunarheimilum og tryggja að starfsfólk hafi sértæka þekkingu á vandamálum tengdum munnheilsu, sem kunna að hrjá íbúa. Samstillt átak opinberra aðila og heilbrigðisstarfsfólks þarf til að tryggja úrræði við hæfi á hjúkrunarheimilum þegar kemur að því að viðhalda einstaklingsbundinni munnheilsu íbúa og tengdum lífsgæðum ævina á enda.

Greinin barst til blaðsins 22. febrúar 2022, samþykkt til birtingar 10. júní 2022.

Inngangur

Lífaldur íslensku þjóðarinnar hefur hækkað og eru meðallífslíkur Íslendinga með því hæsta sem gerist í heiminum (82,5 ár). Í aldurshópnum 70 ára og eldri eru 8,3% íbúar í hjúkrunar- og dvalarrýmum samkvæmt Hagstofu Íslands, þessi hópur er fjölveikur og lifir við langvinna sjúkdóma, skerta færni og hefur takmarkaða sjálfsbjörg.1,2 Meðalaldur íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum hefur farið hækkandi síðustu ár og er um 84,7 ár,3 samhliða hefur heilsufar þeirra versnað og eins árs lifun nýfluttra lækkað úr 73,4% í 66,5%.4 Meirihluti íbúa er með heilabilunarsjúkdóma (39%) eða Alzheimer (29%)5 en heilabilaðir eru útsettari fyrir verri munnheilsu en heilsuhraustari íbúar. 6

Minnisglöp, sjónskerðing og skert hreyfigeta geta valdið öldruðum vandkvæðum við venjubundin verk eins og daglega munn- og tannhirðu.2 Öldrun getur aukið hættu á munnkvillum og stefnt munnheilbrigði í voða,7,8 en sjúkdómsbyrði munnkvilla er tengd við slæmt heilsufar að mati aldraðra, verri andlega líðan og aukna dánartíðni.1 Því er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk á hjúkrunarheimilum sé vel meðvitað um mikilvægi góðrar munnheilsu.

Munnurinn er fyrsta stig meltingar, með góðri tann- og munnheilsu og eðlilegum styrk í munni er hægt að nærast betur. Mikilvægt er að kynging sé virk í fæðuinntöku auk þess sem tennur, tunga, gómar og varir eru mikilvægir þættir til tjáningar. Með hækkandi aldri minnkar munnvatnsframleiðsla af náttúrulegum völdum,9 og auk þess getur lyfjameðferð vegna langvarandi sjúkdóma eða samverkun lyfja einnig orsakað munnþurrk,7,10 sem er slæmt fyrir tannheilsu og næringarástand.11,12

Hägglund og félagar sýndu fram á að kyngingarörðugleikar og slæm munnheilsa eru óháðir áhættuþættir sem tengjast dauðsföllum meðal aldraðra sem bíða eftir varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili. Samkvæmt niðurstöðum þeirra er mælt með því að meta reglulega munnheilsu og kyngingu í allri umönnun.13

Erlendar rannsóknir sýna að sterk fylgni er á milli umönnunarþarfar íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum og versnandi tann- og munnheilsu.10 Fjölveikir búa oft við lélega munnheilsu14 og takmarkað aðgengi að tannlæknisþjónustu8 eða eiga erfitt með að sækja slíka þjónustu utan heimilis vegna hrumleika.2 Munnhirðu íbúa er oft ábótavant, ekki eingöngu vegna minni sjálfsbjargar,2,7 heldur er munnheilsuvernd ekki forgangsraðað í skipulagðri umönnun.10 Munnhirðu er ekki sinnt sem skyldi15 eða jafnvel sleppt vegna manneklu16 og tímaskorts.17

Þróun tannsjúkdóma má fyrst og fremst rekja til mataræðis11 og ónógrar munnhirðu. Langvarandi sýkingar í munni geta valdið vannæringu,18 haft áhrif á þróun hjarta- og æðasjúkdóma, leitt til skammtíma blóðsmits eða ásvelgslungnabólgu ef bakteríur berast í öndunarfærin.19,20

Til að hægja á versnandi tann- og munnheilsu og stighækkandi umönnunarþörf síðustu æviárin er mikilvægt að skipuleggja einstaklingsbundna munnheilsuvernd út frá þekkingu á forvörnum svo hægt sé að bæta eða viðhalda núverandi munnheilsu til æviloka.8 Þetta er fyrsta rannsókn hérlendis sem metur klíníska munnheilsu íbúa á hjúkrunarheimilum og því grunnur að lausnamiðuðum breytingum í þjónustu til að viðhalda eða bæta munnheilsu aldraðra.

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var megindleg þversniðsrannsókn, þátttakendur (N= 82) voru valdir með þægindaúrtaki úr hópi íbúa (67 ára og eldri) sem bjuggu á tveimur af fjórum stærstu (n=471) dvalar- og hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu. Tvö heimili vildu ekki taka þátt í rannsókninni. Heimilin sem tóku þátt voru rekin af sama rekstraraðila og buðu upp á sambærilegan aðbúnað og þjónustu fyrir íbúana. Ekki var boðið upp á þjónustu tannlækna á þessum heimilum.

Rannsóknin fékk leyfi Vísindasiðanefndar og var tilkynnt til Persónunefndar.

Úrtak

Fyrirhuguð rannsókn var kynnt á vettvangi fyrir starfsfólki og íbúum og bréfleiðis fyrir aðstandendum. Mögulegir þátttakendur í rannsókninni voru íbúar með fasta búsetu á hjúkrunarheimilinu sem gátu gefið upplýst samþykki, höfðu áhuga, færni og heilsu til þess að taka þátt án þess að þurfa aðstoð starfsfólks til þess. Undanskildir voru íbúar með heilabilun og rúmbundnir. Endanlegt úrtak samanstóð af íbúum sem yfirhjúkrunarfræðingar mátu að uppfylltu þátttökuskilyrði rannsóknarinnar.

Aðferðir

Tannlæknir framkvæmdi klíníska skoðun og skráði niðurstöður á eyðublaðið Oral Health Survey (OHS-listinn) ásamt klínískum tannsmið sem sá síðar um gagnasöfnun (viðtal) meðal þátttakenda með lífsgæðakvarðanum Oral Health Impact Profile (OHIP-49) hjá þeim sem óskuðu eftir því. Að öðrum kosti fylltu þátttakendur sjálfir út lífsgæðakvarðann á eigin vegum og skiluðu til rannsakenda þegar þeir voru skoðaðir af tannlækni.

OHS-listinn er notaður á alþjóðavísu til að fylgjast með breytingum á alvarleika tannsjúkdóma, faraldsfræðilegri þróun tann- og munnsjúkdóma eða þörf fyrir forvarnir eða aðgerðir til að viðhalda góðri munnheilsu.

Skoðun á munnheilsu

Á heimili A var sett upp skoðunarherbergi með stillanlegum stól fyrir þátttakendur og íbúar á heimili B voru skoðaðir í herbergjum sínum í stillanlegu rafmagnsrúmi. Notuð voru skoðunargleraugu með (2,8 x) stækkun og ljósi (ExamVisionTM), fjölnota munnspeglar (KERR TM ), einnota penslar (3M ESPE TM), persónuhlífar, plastglös og pappírsbakkar, spritt og sótthreinsiefni (Micro 10+ TM Unident). Ef þátttakandi var með tannátu var borið flúorlakk 22600 ppm (Duraphat TM) á meðferðarsvæðið.

Lífsgæðakvarði

Notaður var þýddur, staðfærður og forprófaður lífsgæðakvarði OHIP 4921 sem byggir á þeirri hugmyndafræði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að flokka afleiðingar sjúkdóma stighækkandi, eftir því hversu alvarleg áhrif þeir hafa á einstaklinginn. Með því að nota hann samhliða faraldsfræðilegum rannsóknum á munn- og tannsjúkdómum getur kvarðinn veitt upplýsingar um sjúkdómsbyrði í þýði og hversu skilvirk heilbrigðisþjónusta er að draga úr sjúkdómsbyrðinni.

Kvarðinn inniheldur 49 spurningar og mælist innra réttmæti hátt (Cronbachs Alpha 0,936), hann spannar 7 svið með 5-9 spurningum: 1) Færniskerðing, 2) Líkamleg óþægindi, 3) Sálræn óþægindi, 4) Líkamlegar hömlur, 5) Sálrænar hömlur, 6) Félagsleg skerðing og 7) Höft eða fötlun.21 Til viðbótar voru spurningar um bakgrunn þátttakenda (kyn, aldur, menntun, búsetutíma á heimili, nýtingu tannlæknisþjónustu og fleira).

Munnheilsa, tanngervi og lífsgæði

Tannátustuðull var skráður sem Decayed, Missed and Filled Teeth (DMFT) á OHS-listanum og er mæling á fjölda skemmdra, fylltra eða tapaðra tanna hjá einstaklingi. Skráðar voru upplýsingar um 28 tannsæti, talningu fjögurra endajaxla var sleppt, þar sem ekki var hægt að staðfesta uppkomu þeirra eða hvort þeir hefðu tapast af öðrum orsökum. Tannátustuðull 0 þýðir að einstaklingurinn hafi allar 28 skimaðar tennurnar til staðar og að þær séu heilar, en DMFT 14 þýðir að jafnmargar tennur séu heilar og þær sem eru skemmdar, fylltar eða tapaðar.

Klínískar breytur voru kóðaðar til að skoða hvort tengsl væru á milli tannheilsu og lífsgæða eftir: A) tegund tanngerva (1=tennur, 2=tennur og partar, 3=heilgómar, B) þörf fyrir meðferð hjá tannlækni (1=já, 2=nei) og C) lengd búsetu íbúa á hjúkrunarheimilinu (1=<1 ár, 2= ≥1 ár).

Breytur í lífsgæðakvarða eru mældar á 5 bila Likert-kvarða (0=aldrei, 1=mjög sjaldan, 2=stundum, 3=oft, 4=mjög oft). Heildarsumma á skalanum getur verið frá 0-196 stig,21 sá sem fær 0 stig upplifir engin neikvæð áhrif eigin munnheilsu á lífsgæði en þeir sem hærra skora upplifa skert lífsgæði. 21

Tölfræðileg úrvinnsla

Reiknuð var lýsandi og greinandi tölfræði með forritinu IBM SPSS Statistics, útgáfa 27.0. Reiknað var summuskor fyrir lífsgæðakvarðann í heild sinni og fyrir hvern undirkvarða. Meðalskor voru borin saman milli tveggja óháðra hópa og reiknað t-próf (jafnbilabreytur), kí-kvaðrat próf (raðbreytur) og miðað var við marktæknimörk p=0,05 í öllum útreikningum. Í aðhvarfsgreiningu við samanburð á meðaltölum milli óháðra hópa í var leiðrétt fyrir aldri og kyni þátttakanda. Ef gildi vantaði í spurningalistum var þeim sleppt í útreikningum. Skýribreyta rannsóknar er klínísk tannheilsa þátttakenda, skráð samkvæmt OHS (fjöldi tanna og ástand tanna, tegund tanngerva, ástand slímhúðar). Útkoma er mæld með OHIP-49-lífsgæðakvarðanum sem mælir neikvæð áhrif munnkvilla á félagslega, sálræna og líkamlega virkni einstaklingsins og lífsgæði.

Niðurstöður

Þátttakendur og bakgrunnur

Alls gáfu 82 íbúar tveggja hjúkrunarheimila (heimili A og heimili B) kost á sér í rannsóknina, af þeim luku rúmlega 89% (N=73) báðum hlutum rannsóknar, sem var að láta skoða munnheilsu og ljúka við að svara spurningalista. Fjórir hættu þátttöku (4,9%) á meðan rannsóknin stóð yfir og 5 íbúar (6,1%) mættu ekki í klíníska skoðun. Þátttakendur voru á aldrinum 73 til 100 ára og var meðalaldur þeirra 86,8 ár (± 5,7). Aldur íbúa á heimili A var örlítið lægri (85,5 ára, ± 5,6 ár) heldur en íbúa á heimili B (88,2 ára, ± 5,8 ár) og fleiri konur (61,6%) en karlar tóku þátt í rannsókninni, sjá töflu I.


Niðurstaða skimunar á munnheilsu

DMFT-stuðull allra þátttakenda, sem lýsir fjölda skemmdra, tapaðra eða fylltra tanna, var á bilinu 12-28, einn einstaklingur skar sig úr með bestu tannheilsuna, eða 16 heilar tennur. Meðaltals DMFT var 25,7 (± 3,3) sem telst vera hátt og bendir til þess að útbreiðsla munnkvilla sé algeng í þessum hópi (karlar 25,5 ± 3,9, n=28; konur 25,8 ± 2,9, n=45). Meirihluti tanna hafði tapast en 32,5% tanna var til staðar hjá þátttakendum (karlar 30,1%; konur 33,4%), af tönnunum voru 9,4% heilar en aðrar voru viðgerðar (20,7%) eða með tannskemmd (2,4%). Að meðaltali voru um 9 tennur til staðar í munni þátttakenda (karlar 8,7 ± 9,9 tennur; konur 9,4 ± 9,2 tennur).

Algengast var að íbúar væru með heilgóm í efri kjálka (60,3%; n= 44), tennur og föst tanngervi (31,5%; n=23) og parta (8,2%; n=6). Tafla V í viðauka sýnir fjölda tanna og algengustu tanngervi í báðum kjálkum meðal þátttakenda.

Skoðun tannlæknis á ástandi munnheilsu sýndi að meirihluti allra þátttakenda (67,1%; n=49) þurfti á tannlæknisþjónustu að halda (tannhreinsun, skemmdir, brotnar tennur, tannhalds- eða tannholdsbólga, þarf tanngervi, tannsteinn, aðrir munnkvillar). Í sjálfsmati íbúa (n=70) á eigin tannheilsu reyndist meirihluti (88,6%, n=62), það er jafn margir, meta tannheilsu sína góða (44,3%) eða hvorki góða né slæma, en fáir íbúar (11,4%) mátu eigin tannheilsu slæma.

Munnheilsa og lífsgæði

Samband milli munnheilsu og lífsgæða (meðalskor) var skoðað hjá þeim sem gáfu upplýsingar um hversu lengi þeir hefðu búið á heimilinu (N=60). Í töflu II sést að þeir íbúar sem höfðu búið skemur en eitt ár á heimilinu voru með betri munnheilsutengd lífsgæði heldur en þeir sem höfðu búið þar lengur á öllum kvörðum, nema kvarðanum sem metur Sálrænar hömlur (svo sem kvíða, áhyggjur eða vanlíðan tengt tannheilsu).

Í töflu II sést að íbúar sem búið höfðu lengur en eitt ár á hjúkrunarheimili voru marktækt oftar útsettir (78,8%) fyrir ómeðhöndluðum munnkvillum og höfðu þörf fyrir tannlæknisþjónustu heldur en íbúar sem búið höfðu innan við 12 mánuði á hjúkr-unarheimili (51,9%).

Niðurstöður í töflu III sýna að marktækur munur var á milli þeirra sem höfðu hæsta tannátustuðulinn (DMFT 28) á undirkvörðunum Færniskerðing og Líkamlegar hömlur, auk þess var meðaltal á kvarðanum Líkamleg óþægindi (kjálkaverkir, höfuðverkur, tannkul eða hitaóþol, tannpína, sár í munni) nærri martæknimörkum, það er í samanburði við þá sem voru betur settir (tafla III).

Samkvæmt niðurstöðunum upplifa einstaklingar með hæsta tannátustuðulinn marktækt verri lífsgæði í tengslum við tyggingargetu en aðrir hópar. Vandamálin lýsa sér helst í því að íbúinn þarf að hætta að borða í miðjum matartímum, hann getur ekki borðað hvaða mat sem er (epli, gulrætur, kjöt og fleira) og metur ástandið þannig að eigin melting og mataræði sé ófullnægjandi vegna munnheilsunnar.

Kannað var hvort marktækur munur væri á meðaltalsskori á lífsgæðakvörðunum með tilliti til tannheilsu og tanngerva. Tafla IV sýnir að notendur heilgóma (gervitanna) í báðum gómum upplifa marktækt verri lífsgæði á kvörðunum Færniskerðing, Líkamlegar hömlur og Höft eða fötlun (til dæmis verri heilsa, fjárhagsleg byrði, minni lífsánægja eða vera ófær um venjubundin störf) í samanburði við tennta íbúa án eða með föst tanngervi eða tannstudda parta. Síðarnefndi hópurinn upplifði marktækt oftar Sálræn óþægindi (til dæmis uppnám, depurð, einbeitingarskort, svefntruflanir) en tannlausir.


Umræða

Þátttakendur

Meðalaldur þátttakenda (N=73) í rannsókninni var 86,8 ár (± 5,7), fleiri konur (62%) en karlar tóku þátt, sem er í samræmi við aðrar rannsóknir.22 Samsetning íbúa á báðum heimilum var sambærileg að flestu leyti, en hlutfallslega fleiri íbúar í aldurshópnum 90 ára og eldri bjuggu á heimili B.

 

Munnheilsa íbúa á hjúkrunarheimilum

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þó tannleysi sé meðhöndlað með sérsmíðuðum tanngervum eins og heilgómasetti, komi slíkt ekki í staðinn fyrir eigin tennur. Notendur heilgóma upplifa sömu vandamálin og þeir sem eru með hæsta tannátustuðulinn (samanber tafla III) sem er skert tyggingarfærni, verri melting og ófullnægjandi mataræði. Tannlausir upplifa marktækt oftar að munnheilsan valdi þeim erfiðleikum við tyggingu og tal, óþægindum við að matast, versnandi heilsufari og minni lífsánægju en þeir íbúar sem hafa tennur, í þessari rannsókn.

Í Heilbrigðisáætlun til 2030 er lítið talað um tannheilsu aldraðra,23 en árið 2010 var stefnt á að yfir 50% fólks 65 ára og eldra hefði að minnsta kosti 20 tennur í samanbiti sem er talið vera ásættanlegt til að tyggja og tjá sig.24 Þessi markmið hafa ekki náðst í þessum hópi þar sem meðalfjöldi tanna eru 9 á hvern íbúa. Tannleysi hjá 80 ára og eldri var 76%25 um aldamótin en hefur lækkað í 41% í þessari rannsókn.

Það er mikilvægt að þekkja tengsl milli tannheilsu og almennrar heilsu ásamt tengslum tann- og munnheilsu við fæðuval og næringarástand aldraðra.12 Vannæring er algeng hjá eldra fólki, ástandið hefur áhrif á andlega og líkamlega færni einstaklingsins.12

Heilsuvernd, munnhirða og aðgengi að þjónustu

Öldrunarteymi heilbrigðisstofnana er ráðgefandi aðili um greiningu og meðferð aldraðra til starfsmanna sem sinna heilsuvernd. Hérlendis mæla öldrunar- og lyflæknar með að til viðbótar við heilsufarsskráningar í RAI-matstækið á hjúkrunarheimilum sé sérstaklega fylgst með tannheilsu, sjón og beinheilsu í heilsuverndarskyni.26 Taka verður undir þessar ábendingar því fjöldi ómeðhöndlaðra munnkvilla (67%) er áhyggjuefni og sýnir þörfina á forvörnum og því að fylgst sé reglulega með munnheilsu íbúa, ekki síst þar sem þeir eru ólíklegir til að gera sér grein fyrir alvarleika ástandsins sjálfir.20,26

Erlendar rannsóknir sýna að starfsfólk hjúkrunarheimila skortir formlega menntun og þjálfun16,27,28 til að takast á við verkefnið og að þessum þætti sé sleppt í daglegri umönnun15 af ýmsum orsökum, svo sem tímaskorti.

Sjúkratryggingar Íslands taka fullan þátt í niðurgreiðslu vegna tannlækninga aldraðra og er þjónustan íbúum á hjúkrunarheimilum að kostnaðarlausu29 samkvæmt gildandi gjaldskrá ríkisins. Því ættu þjónustugjöld tannlækna ekki að íþyngja íbúum, aðstandendum eða hjúkrunarheimilinu. 24

Æskilegt er að sett verði stefna um munnheilsuvernd í heilbrigðisþjónustu íbúa og aðgengi þeirra að tannlæknisþjónustu verði tryggt. Munnhirða þarf að vera regluleg og við hæfi og þjálfun og þekking starfsfólks tryggð í samræmi við gæðastaðla í heilbrigðisþjónustu.30

Niðurstöður rannsóknarinnar eru gagnlegar og birta fyrstu upplýsingar um munnheilsu íbúa á hjúkrunarheimilum og áhrif munnkvilla á lífsgæði þeirra. Einnig kom í ljós að fjöldi skemmdra, fylltra og tapaðra tanna, tannleysi og tanngervi skipta máli í þessu sambandi. Mælt er með frekari rannsóknum á munnheilsuvernd íbúa á hjúkrunarheimilum og skimunartækjum sem starfsfólki, öðru en tannheilsumenntuðu, stendur til boða.

Styrkleikar og veikleikar

Eiginleikar þverfræðilegra rannsókna eru þess eðlis að ekki er hægt að greina á milli orsaka og afleiðinga. Úrtakið var valið af hentugleika og þátttaka íbúanna takmarkaðist við áhuga og heilsufar þeirra til að taka þátt. Mismunandi vinnuaðstæður við klíníska skoðun gætu hafa komið í veg fyrir að munnkvillar greindust á heimili B. Hluti úrtaksins (n=13) svaraði ekki spurningu um hversu lengi þeir höfðu búið á heimilinu sem getur bjagað samanburð eftir búsetu í svo litlu úrtaki og verið vísbending um minnisglöp en þekkt er að hérlendis er meðaldvalartími heilabilaðra á hjúkrunarheimilum lengri en annarra íbúa.4

Rannsóknin gefur mynd af munnheilsu íbúa tveggja hjúkrunarheimila sem rekin eru af sömu rekstraraðilum. Niðurstöður hefðu hugsanlega orðið aðrar ef fleiri heimili hefðu gefið kost á sér í rannsóknina.

Styrkleikar rannsóknarinnar felast í því að nota þekkta alþjóðlega mælikvarða um munnheilsu OHS og tannheilsutengd lífsgæði OHIP-49.

Ályktun

Breytingar á tannheilsu aldraðra kalla á endurskoðun á þjónustuúrræðum á hjúkrunarheimilum og sýnir fram á þörf fyrir haldgóða þekkingu starfsfólks á sértækum munn-, tann- og tanngervatengdum vandamálum sem búast má við að finnist hjá íbúum.

Samstillt átak opinberra aðila og heilbrigðisstarfsfólks þarf til að tryggja úrræði við hæfi á hjúkrunarheimilum þegar kemur að því að viðhalda tannheilsu íbúa svo hægt verði að tryggja að munnheilsutengdum lífsgæðum sé viðhaldið ævina á enda.

Þakkir

Lýðheilsusjóður og Rannsóknarsjóður Hrafnistu fá þakkir fyrir styrki vegna rannsóknar, starfsfólk fyrir aðstoð á vettvangi og þátttakendur fyrir framlag sitt til rannsóknar.

Heimildir

1. Lindroos EK, Saarela RKT, Suominen MH, et al. Burden of Oral Symptoms and Its Associations With Nutrition, Well-Being, and Survival Among Nursing Home Residents. J Am Med Dir Assoc 2019; 20: 537-43.
https://doi.org/10.1016/j.jamda.2018.10.025
PMid:30541688
 
2. Niesten D, Witter DJ, Bronkhorst EM, et al. Oral health care behavior and frailty-related factors in a care-dependent older population. J Dent 2017; 61: 39-47.
https://doi.org/10.1016/j.jdent.2017.04.002
PMid:28380347
 
3. Greining á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila. Heilbrigðisráðuneytið 2021.
 
4. Hjaltadóttir I, Ólafsson K, Sigurðardóttir ÁK, et al. Heilsa og lifun íbúa fyrir og eftir setningu strangari skilyrða fyrir flutningi á hjúkrunarheimili 2007. Læknablaðið 2019; 105: 435-41.
https://doi.org/10.17992/lbl.2019.10.251
PMid:31571606
 
5. Gunnarsdóttir SH, Hjaltadóttir I. Hegðunarvandamál á hjúkrunarheimilum og tengsl við heilsufar, virkni og fjötranotkun. Tímarit hjúkrunarfræðinga 2020; 96: 71-9.
 
6. Delwel S, Binnekade TT, Perez RSGM, et al. Oral hygiene and oral health in older people with dementia: a comprehensive review with focus on oral soft tissues. Clin Oral Invest 2018; 22: 93-108.
https://doi.org/10.1007/s00784-017-2264-2
PMid:29143189 PMCid:PMC5748411
 
7. Van der Putten G-J, De Baat C, De Visschere L, et al. Poor oral health, a potential new geriatric syndrome. Gerodontology 2014; 31: 17-24.
https://doi.org/10.1111/ger.12086
PMid:24446975
 
8. Pretty IA. The life course, care pathways and elements of vulnerability. A picture of health needs in a vulnerable population. Gerodontology 2014; 31: 1-8.
https://doi.org/10.1111/ger.12092
PMid:24446973
 
9. Ólafsdóttir G. Mikilvægi góðrar næringar hjá öldruðum. Tímarit hjúkrunarfræðinga 2016; 92: 27-9.
 
10. Klotz AL, Zajac M, Ehret J, et al. Short-Term Effects of a Deterioration of General Health on the Oral Health of Nursing-Home Residents. Clin Interv Aging 2020; 15: 29-38.
https://doi.org/10.2147/CIA.S234938
PMid:32021130 PMCid:PMC6957004
 
11. Kossioni AE, Hajto-Bryk J, Janssens B, et al. Practical Guidelines for Physicians in Promoting Oral Health in Frail Older Adults. J Am Med Dir Assoc 2018; 19: 1039-46.
https://doi.org/10.1016/j.jamda.2018.10.007
PMid:30471798
 
12. Hjaltadóttir I, Ásgeirsdóttir AE, Árnadóttir B, et al. Matstæki til greiningar á vannæringu aldraðra. Tímarit hjúkrunarfræðinga 2007; 83: 48-56.
 
13. Hägglund P, Koistinen S, Olai L, et al. Older people with swallowing dysfunction and poor oral health are at greater risk of early death. Community Dent Oral Epidemiol 2019; 47: 494-501.
https://doi.org/10.1111/cdoe.12491
PMid:31407829 PMCid:PMC6899490
 
14. Ruiz-Roca JA, Dora Martín F, Gómez García FJ, et al. Oral status of older people in medium to long-stay health and social care setting: a systematic review. BMC Geriatrics 2021; 21: 363.
https://doi.org/10.1186/s12877-021-02302-x
PMid:34126942 PMCid:PMC8204561
 
15. Bragadottir H, Kalisch BJ. Comparison of reports of missed nursing care: Registered Nurses vs. practical nurses in hospitals. Scand J Caring Sci 2018; 32: 1227-36.
https://doi.org/10.1111/scs.12570
PMid:29603312
 
16. Sigurdardottir AS, Geirsdottir OG, Ramel A, et al. Cross-sectional study of oral health care service, oral health beliefs and oral health care education of caregivers in nursing homes. Geriatr Nurs 2022; 43: 138-45.
https://doi.org/10.1016/j.gerinurse.2021.11.010
PMid:34890954
 
17. Weening-Verbree LF, Schuller AA, Cheung SL, et al. Barriers and facilitators of oral health care experienced by nursing home staff. Geriatr Nurs 2021; 42: 799-805.
https://doi.org/10.1016/j.gerinurse.2021.04.012
PMid:34090223
 
18. Azzolino D, Passarelli PC, De Angelis P, et al. Poor Oral Health as a Determinant of Malnutrition and Sarcopenia. Nutrients 2019; 11: 2898.
https://doi.org/10.3390/nu11122898
PMid:31795351 PMCid:PMC6950386
 
19. Bartlett D, Carter N, de Baat C, et al. White Paper on Optimal Care and Maintenance of Full Dentures for Oral and General Health. Oral Health Foundation 2018.
 
20. Maille G, Saliba-Serre B, Ferrandez AM, et al. Objective and perceived oral health status of elderly nursing home residents: a local survey in southern France. Clin Interv Aging 2019; 14: 1141-51.
https://doi.org/10.2147/CIA.S204533
PMid:31308640 PMCid:PMC6612966
 
21. Slade GD. The Oral Health Impact Profile. In: Slade GD, ed. Measuring Oral Health and Quality of Life. University of North Carolina 1997: 94-104.
 
22. Eiríksdóttir JÓ, Bragadóttir H, Hjaltadóttir I. Samanburður á heilsufari, færni, einkennum og meðferðarmarkmiðum íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum eftir áætluðum lífslíkum. Tímarit hjúkrunarfræðinga 2017; 93: 79-85.
 
23. Stefna fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. Heilbrigðisráðuneytið 2019.
 
24. Guðmundsdóttir H, Guðlaugsson JÓ. Fleiri halda eigin tönnum lengur. Talnabrunnur - Fréttabréf landlæknis um heilbrigðisupplýsingar 2018; 12: 1-2.
 
25. Axelsson G, Helgadóttir S. Breytingar á tannheilsu Íslendinga 1985-2000, 4. áfangi: Tann-heilsa 65 ára og eldri Íslendinga árið 2000. Tannlækningastofnun 2005.
 
26. Hansdóttir H, Jónsson JE. Verksvið læknis á hjúkrunarheimili. Læknablaðið 2009; 95: 187-92.
 
27. Hiltunen K, Fogelholm N, Saarela RKT, et al. Survey of health care personnel's attitudes toward oral hygiene in long-term care facilities in Finland. Spec Care Dentist 2019; 39: 557-63.
https://doi.org/10.1111/scd.12424
PMid:31633206
 
28. Göstemeyer G, Baker SR, Schwendicke F. Barriers and facilitators for provision of oral health care in dependent older people: a systematic review. Clin Oral Investig 2019; 23: 979-93.
https://doi.org/10.1007/s00784-019-02812-4
PMid:30707299
 
29. Ekornrud T, Skjøstad O, Rødseth SC. Quality indicators in oral health care: A Nordic project. Proceedings in 2012-2018. 2019.
 
30. Charadram N, Maniewicz S, Maggi S, et al. Development of a European consensus from dentists, dental hygienists and physicians on a standard for oral health care in care-dependent older people: An e-Delphi study. Gerodontology 2021; 38: 41-56.
https://doi.org/10.1111/ger.12501
PMid:33073408
 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica