0708. tbl. 108. árg. 2022

Ritstjórnargrein

Urtagarðurinn í Nesi. Lilja Sigrún Jónsdóttir

Lilja Sigrún Jónsdóttir| heimilislæknir |klínískur dósent við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins| í ritstjórn Læknablaðsins

doi 10.17992/lbl.2022.0708.698

Í Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi liggja rætur opinberrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi, frá árinu 1763. Nesstofa hýsti fyrsta landlækninn, Bjarna Pálsson, og Björn Jónsson, fyrsta lyfjafræðinginn og apótekarann. Þeir nýttu þekkingu þess tíma úr náttúruvísindum og sóttu virk efni til lækninga í náttúruna, þar sem þeirra var von. Björn kom upp garði sunnan við Nesstofu til ræktunar lækningajurta í samræmi við kröfur lagðar á hann eins og aðra lyfsala með fyrstu lyfjaskránni sem kom út í Danmörku, Pharmacopoea Danica 1772. Birni bar að eiga jurtir til að framleiða 640 lyf, flest úr jurtum eða jurtaafurðum. Hann stóð fyrir ræktunartilraunum, meðal annars á korni og trjám, brautryðjandi á því sviði hér á landi. Á upphafsárum Bjarna Pálssonar í starfi sem landlæknir var meginverkefnið að forða skortsjúkdómum með leiðsögn um neyslu ferskmetis og hvatningu til nytja á ýmsum jurtum.

Árið 2010 var stofnað til Urtagarðsins í Nesi til minningar um Bjarna, Björn og Hans Georg Schierbeck landlækni. Það var vegna þeirra tímamóta að 250 ár voru þá liðin frá skipan Bjarna Pálssonar í embætti landlæknis og 125 ár frá því Hans Georg Schierbeck stóð að stofnun Garðyrkjufélags Íslands. Samstarfsaðilar um garðinn voru upphaflega Garðyrkjufélag Íslands, Embætti landlæknis, Læknafélag Íslands, Lyfjafræðifélag Íslands, Lækningaminjasafnið, Lyfjafræðisafnið og Seltjarnarnesbær. Þegar Lækningaminjasafnið var lagt niður tók Þjóðminjasafnið við sem samstarfsaðili. Urtagarðurinn í Nesi hefur alla tíð notið stuðnings frá Lyfja-fræðisafninu, enda hefur þar verið reglubundin starfsemi og margir gestir fengið leiðsögn í Urtagarðinn þaðan á starfstímanum.

Haustið 2021 var afhjúpaður minnisvarði um Björn Jónsson lyfsala og apótekara í Urtagarðinum í Nesi. Tímasetningin tengdist lokaprófi Björns í lyfjafræði frá Kaupmannahafnarháskóla í desember 1771 og að þann 18. mars 2022 voru 250 ár liðin frá skipun hans í embætti lyfsala í Nesi. Verkið er bautasteinn úr grágrýti sem sóttur var í Seltjarnarnesvör og Guðrún Indriðadóttir lyfjafræðingur sá um hönnun og útfærslu.

Plöntusýningin í Urtagarðinum hefur þróast í tímans rás. Fyrst var svokölluð tilgátusýning á 128 plöntum sem talið var líklegt að Björn Jónsson hefði ræktað, út frá þekkingu þess tíma. Síðar var fléttuð við hana sýning á klausturjurtum sem heimildir fundust um ræktun á, við rannsóknir á klaustrum hér á landi. Stór hluti þeirra var þegar í plöntusýningunni.1 Þriðja viðbót var byggð á sagnfræðirannsóknum um ræktun Björns sem byggðu bæði á rannsóknum í skjalasöfnum í Kaupmannahöfn og rýni á bréfaskiptum Björns við Hannes Finnsson biskup.2

Þeim sem heimsækja garðinn í sumar gefst færi á að sjá tvær sérlega fágætar plöntur. Annars vegar villiepli, ræktað af fræi fengnu frá Þrándheimi sem er eins skylt og næst komist verður því sem fannst á Skriðuklaustri við fornleifauppgröft. Hins vegar Vossahvönn, sem er sérstakt yrki hvannar með þykkveggja eða jafnvel gegnheilum stilk sem gerði hana áður fyrr eftirsóknarverða sem matjurt. Hún er viðkvæm í ræktun en er viðhaldið í dag í Voss á Hörðalandi í Noregi. Einnig gefst tækifæri til að spreyta sig á plöntugreiningu á átta plöntum í sýningarreit. Þær eru ekki merktar með nafni heldur er fólk hvatt til að finna sambærilegar plöntur annars staðar í garðinum og þar má finna nöfnin. Tilvalið verkefni fyrir grasafræðinga framtíðarinnar.

Áherslur í Urtagarðinum í dag hafa beinst að sögulegum heimildum og tímamótum í starfi frumkvöðla sem þar voru á ferð, en samstarf þvert á fræðisvið skapar tækifæri til umræðu um náttúruna, vísindalega vinnu og þróun þekkingar.

Það er við hæfi að beina sjónum að sögu samstarfs lækna og lyfjafræðinga hér á landi, nú að loknu átaki vegna kórónaveirufaraldursins. Þróun þekkingar hefur verið mikil en enn eru þó í notkun lyfin Digitalis (úr Fingurbjargarblóminu), Colchicine (úr Haustlilju) og lyf unnin úr ópíum (úr Valmúa) sem þekkt voru fyrir 250 árum og eru öll í garðinum. Urtagarðurinn í Nesi er mikilvæg tenging lækna við sögulegan stað og við getum hugsað til þeirra félaga þegar við heimsækjum Nesið og Urtagarðinn í sumar.

Heimildir

 

1. Kristjánsdóttir S, Larsson I, Åsen PA. Icelandic Medieval
 
Monastic Garden - Did it Exist? Scand J History 2014; 39: 560-79.
https://doi.org/10.1080/03468755.2014.946534
 
2. Guðmundsdóttir JÞ. Viðreisn garðræktar á síðari hluta 18. aldar. Saga 2014; 52: 9-41.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica