06. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Að vera sein í partíið og félagsgjöld til Læknafélags Íslands. Þórdís Þorkelsdóttir
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.
Höfundur er ein af þeim sem tekst á einhvern óskiljanlegan hátt alltaf að vera sein í partí. Það er sama hvort það er fyrirpartí, afmæli, fjölskylduboð eða partí heima hjá mér, ég er nánast undantekningarlaust seinni á ferðinni en ég ætlaði mér. Þegar þetta er skrifað er einnig hægt að færa rök fyrir því að höfundur sé seinn í einhvers konar teiti, því það er maí 2022 og ég er (blessunarlega) að ganga í gegnum COVID-veikindi í fyrsta sinn. Það er samt eitt partí sem undirrituð og stjórn LÍ ætla ekki að vera sein í, það er umræða og tillögur um félagsgjöld til LÍ.
Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi félagsins samkvæmt lögum LÍ. Hefð er fyrir því að félagsgjöld félagsmanna séu föst fjárhæð, ekki hlutfall af heildarlaunum eins og algengast er hjá stéttarfélögum. Á árunum 2019-2021 var félagsgjald til LÍ 120.000 kr. Á aðalfundi 2021 var lagt til og samþykkt að árgjaldið yrði 137.000 kr. Einnig var samþykkt að veita nokkrum afmörkuðum hópum aukaaðild að félaginu en árgjald aukaaðildar þarf að ákvarða.
Breyting hefur orðið á samsetningu félagsins síðastliðin ár. Félagsmönnum FAL hefur til að mynda fjölgað um tæp 40%, eða um 132, á árunum 2018-2021.1 Ástæðan fyrir þessari fjölgun er tvíþætt, annars vegar útskrifast fleiri læknar (um 80-85 á ári) og margir þeirra sem stunda nám erlendis kjósa að koma heim að námi loknu. Einnig hefur aukið framboð á sérnámi á Íslandi haft það í för með sér að félagsmenn FAL staldra lengur við og klára jafnvel sérnám hér á landi. Hefð er fyrir því veita 50% afslátt af félagsgjöldunum fyrstu 2,5 árin eftir útskrift. Greitt er 25% gjald útskriftarárið (gert er ráð fyrir útskrift í júní) og 50% næstu tvö árin. Að þessum tíma loknum greiðir viðkomandi heilt gjald sem í ár er 137.000 kr. Samkvæmt tölum sem hagfræðingur LÍ tók saman er það um 1,1% af meðalheildarlaunum almenns læknis miðað við um 0,6% hjá sérfræðilækni. 36% af tekjum félagsins koma frá félagsmönnum FAL sem greiða heilt árgjald.2 Þetta getur vart talist sanngjarnt fyrirkomulag og því er stjórn LÍ að hefja vinnu við tillögu að breytingum á fyrirkomulagi félagsgjalda.
En hverjir eru möguleikarnir? Höfundur er þeirrar skoðunar að ekki sé þörf á að finna upp hjólið í hvert skipti sem ráðgert er að fá hlut til að rúlla. Því er tilvalið að skoða hvernig þessum málum er háttað á þeim stöðum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við: Norðurlöndin. Það er nokkuð breytilegt hvernig þessum málum er háttað þar. Í grófum dráttum:
• Norska læknafélagið: fast gjald, nokkrir hópar geta fengið afslátt af gjöldunum, meðal annars læknar í þrjú ár eftir útskrift, læknanemar, læknar sem búa erlendis og félagsmenn 75 ára og eldri.
• Sænska læknafélagið: flókið fyrirkomulag með miklum fjölda mismunandi félagsgjalda. Bilið spannar 2.400-66.680 ISK fyrir 2022.
• Finnska læknafélagið: fast gjald, ekkert gjald er innheimt fyrsta árið eftir útskrift, 50% afsláttur næstu tvö árin. Hægt að sækja um afslátt vegna sérstakra aðstæðna. Eftirlaunaþegar greiða lægra gjald og félagsmenn 70 ára og eldri eru undanþegnir félagsgjaldi.
• Danska læknafélagið: fast gjald, mismunandi eftir aðildarfélögum. Lægsta árgjaldið er fyrir Félag yngri lækna, hæsta árgjaldið er fyrir Félag sjálfstætt starfandi lækna.
Einnig má nefna það að meðaltal félagsgjalda til stéttarfélaga á Íslandi eru 0,9% af heildarlaunum.
Það eru margir möguleikar í stöðunni. Það er viðfangsefni stjórnar að finna hvaða lausn er skynsamleg fyrir LÍ og mun stjórn fara í þetta verkefni á næstu misserum og kynna fyrir félagsmönnum fyrir aðalfund 2022. Nú er því um að gera að staldra við, vera ekki sein í partíið og huga að félagsgjöldunum með sanngirni að leiðarljósi. Því eins og forveri minn, Árni Johnsen, benti réttilega á í sínum pistli fyrr á þessu ári (2. tbl. Læknablað 2022) er staðhæfingin „svona hefur þetta alltaf verið“ ekkert sérstaklega góð rök fyrir því að sniðganga breytingar til hins betra.
Heimildir
1. Ársskýrsla stjórnar Læknafélag Íslands 2020-2021 fyrir Aðalfund Læknafélags Íslands 2021. lis.is/static/files/Adalfundir/adalf21/2021-sky-rsla-stjornar-birt-2021.10.15-final.pdf - maí 2022. | ||||
2. Ingvarsson IL. Greining á félagsgjöldum LÍ, kynning á stjórnarfundi LÍ 02.05.2022. | ||||