05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Liprir pennar. „Aldrei nema kona”. Rún Halldórsdóttir

Nýverið las ég bók Sveinbjargar Sveinbjörnsdóttur Aldrei nema kona (Sæmundur, 2020). Þetta er vel skrifuð heimildaskáldsaga um formæður Sveinbjargar, þrjá ættliði kvenna í Skagafirði á 18. og 19. öld. Um leið og ég mæli með lestri þeirrar bókar langar mig í þessum pistli, sem settur er knappur rammi, að minnast kvenna sem ég er komin af í beinan kvenlegg.


Langamma

Móðuramma móður minnar var Una Guðrún Einarsdóttir, fædd 20. ágúst 1872 í Ármótaseli, Hofteigssókn, N-Múlasýslu. Látin 18. september 1909. Um hana stendur í Íslendingabók: „Húsfreyja í Hraunfelli, Hofssókn, N-Múl. 1901. Húsfreyja á Gnýstöðum og Hraunfelli, „myndarkona” segir Einar prófastur”. Hún missti fyrri eiginmann sinn, Guðmund Árnason, 31 árs, 1898, frá tveimur ungum börnum.

Mér var sagt að Guðmundur hefði í banalegunni beðið Guðjón bróður sinn að annast konu sína og börn eftir hans dag. Það gerði hann. Þau héldu áfram búskap og urðu síðar hjón. Guðjón Árnason, fæddur 23. mars 1866 á Síreksstöðum, Hofssókn í Vopnafirði, var langafi minn. Þau eignuðust saman 5 börn. Yngsta barnið var fætt 17. september 1909, degi fyrir dánardægur langömmu. Hún hefur því dáið frá barni sínu dagsgömlu. Líklegast finnst mér að henni hafi blætt út eftir fæðinguna. Nú til dags deyr ein kona af barnsförum á rúmlega 5 ára fresti hér á landi (samkvæmt Fæðingarskráningu 2018, skýrslu á síðu Embættis landlæknis frá 2020). Tæpum 6 árum síðar dó langafi úr lungnabólgu, 49 ára.

Amma

Móðuramma mín, Kristrún Árný Guðjónsdóttir, fædd 9. mars 1908, var sjötta barn móður sinnar. Hún varð ung munaðarlaus og var fóstruð hjá vandalausum. Fór snemma að vinna fyrir sér sem vinnukona á bæjum í Vopnafirði og vann um árabil við saumaskap hjá klæðskera í Neskaupsstað.

Móðurafi minn, Björn Ólafur Ingvarsson, fæddur 7. apríl 1898 í Nesi í Norðfirði, var sjómaður og útgerðarmaður. Fyrri kona hans, Helga Jenný Steindórsdóttir, fædd 22. október 1907, dó 25 ára gömul, 7. mars 1933, eftir gallaðgerð á sjúkrahúsi í Reykjavík. Hún hafði þá fætt þriðja barn sitt rúmu hálfu ári áður. „Hún ofkældist á skurðarborðinu,” segir elsta móðursystir mín, sem enn er á lífi í hárri elli. Líklegast finnst mér að hún hafi dáið af afleiðingum gallblöðrubólgu, orðið septísk og síðan ekki þolað svæfingu og stóran holskurð sem þá tíðkaðist, með mögulegum blæðingum. Penicillín var ekki komið til sögunnar þótt stutt væri í það. Nokkuð algengt er að konur á frjósemisskeiði fái gallsteina og stundum gallblöðrubólgu, gjarnan á fyrstu mánuðum eftir barneign, og þurfi að fara í aðgerð vegna þess. Gripið er til sýklalyfjameðferðar í æð ef um gallblöðrubólgu er að ræða. Nú á tímum eru gallsteinar fjarlægðir í kviðsjáraðgerð sem tekur oft innan við klukkustund og konan fer heim nokkrum klukkustundum síðar.

Helga Jenný var jörðuð í Reykjavík án þess að afi kæmist suður og legstaður hennar er ekki þekktur.

25 ára gömul gerðist amma Kristrún ráðskona afa og gekk börnum hans í móðurstað. Fjölskyldunni var ekki tvístrað, sambúð afa og ráðskonunnar varð svo smám saman náin og þau eignuðust dóttur, Birnu móður mína, 1935.

Amma fékk meðgöngueitrun (preeclampsiu) þegar hún gekk með mömmu og krampaði í eða eftir fæðinguna (eclampsia). Henni var ekki hugað líf um tíma en náði heilsu og eignaðist til viðbótar þrjú börn. Hún kom því 7 börnum til manns og lést í hárri elli 1995.

Mamma

Sem barn fékk ég þá mynd af æsku mömmu að hún hefði verið hamingjusöm en áttaði mig á því seinna meir að yfir heimilinu lá sorg og harmur sem aldrei var unnið úr. Bæði var æska ömmu erfið og sömuleiðis sú lífsreynsla afa að hafa misst kornunga konu sína. Hjónabandið hlýtur að hafa verið hagkvæmnishjónaband eftir að mamma varð til en mögulega besta lausnin á þeim árum úr því sem komið var.

Þrátt fyrir góðan námsárangur á landsprófi leyfði efnahagur foreldranna ekki að mamma kæmist áfram í menntaskóla og langskólanám. Það tregaði hún alla tíð þótt hún bætti við skólagöngu sína síðar meir. Menntun mín og bræðra minna þriggja var henni því mikilvæg og öryggi æskuára minna hjá ástríkum foreldrum í traustu hjónabandi, hvatning og góð ráð hennar fylgja mér ævina út. Hún lést sextug úr brjóstakrabbameini.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica