05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Síðustu tilfellin af miltisbrandi – seinni hluti. Davíð Gíslason

Framhald frá síðasta tölublaði

Klukkan var orðin fimm og síminn lokaður. Þar sem ég hélt á tólinu í hendinni og vissi ekki hvað ég ætti að taka til bragðs, heyrði ég yndislega rödd símastúlkunnar á línunni. „Ég heyrði samtalið við landlækni“, sagði rödd, „og nú ert þú aldeilis í slæmri klípu. Ég skal halda símanum opnum þar til landlæknir hringir aftur,“ sagði hún. Ég bað hana að hringja fyrir mig í manninn, sem tók við sýnunum í Kaupfélaginu. Ég vissi ekki hvað hann hét en lýsti honum fyrir henni.

Konurnar á símstöðinni í Vestmannaeyjum við símaskiptiborðið. Símameyjar gegndu lykilhlutverki: læknar, lögfræðingar, prestar, smiðir, kóngar, kennarar, og fleira. Myndina tók Bragi Guðmundsson ljósmyndari á Vísi í september 1963. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Meðan ég beið hringdi dyrabjallan. Þegar ég fór til dyra stóð gamall skólafélagi minn frá Núpi utan við dyrnar. Hann sagðist eiga heima í Hveragerði og hafði frétt að ég væri kominn í plássið. Ég vísaði honum inn í stofuna og sagðist ekki hafa tíma til að tala við hann eins og á stæði. Nú hringdi síminn og þar var kominn maðurinn úr Kaupfélaginu. Hann sagði mér að hann hefði skilað pökkunum til bílstjórans austan úr sveitum og gaf mér upp símanúmer þessa manns. Sá svaraði um hæl og sagðist hafa skilað pökkunum á bílastöðina í Reykjavík og gaf mér upp símanúmerið þar. Sá sem hafði verið á vaktinni, þegar pakkarnir komu var í fríi, en ég fékk símanúmerið heima hjá honum og hann svaraði um hæl. Hann mundi vel eftir þessum pökkum og gaf mér símanúmer sendilsins sem hafði farið með þá á pósthúsið. Einnig hann svaraði um hæl og kvaðst hafa farið með pakkana á pósthúsið. Lengra yrði ekki komist þessa leiðina.

Arinbjörn svarar í símann

Nú verð ég að hringja í Arinbjörn hugsaði ég. Ég fann símanúmerið heima hjá honum og nú hringdi síminn lengi. Ég hélt tólinu í sveittum lófa og tautaði í huganum: „Arinbjörn svaraðu, Arinbjörn svaraðu.“ Loksins heyrðist karlmannsrödd í símanum. Þetta var Arinbjörn. „Mikið er ég þakklátur að þú skyldir svara“, sagði ég, og sagði honum svo alla sólarsöguna. „Við hjónin vorum að fara í afmælisveislu“, sagði hann, „og ég var kominn út fyrir húshornið þegar ég heyrði símann hringja, því glugginn var opinn.“ „Ég skal nú gera það fyrir þig að fara upp á Barónsstíg og líta á sýnin.“ Ég andaði léttar og fór að hugsa um lánið sem var yfir mér, að allir þessir menn skyldu svara í símann þegar mér lá svona mikið á.


Arinbjörn Kolbeinsson                 Sigurður Sigurðsson

Klukkan var sex. Síminn hringdi og símastúlkan sagði: „Nú eru tveir menn í símanum, annar heitir Sigurður og hinn Arinbjörn, við hvorn viltu tala á undan.“ Svarið var einfalt. Arinbjörn var inni á rannsóknarstofunni og búinn að skoða öll sýnin fjögur. Ég þakkaði honum kærlega fyrir og talaði svo við landlækni, sem áreiðanlega var feginn að málið var úr sögunni. „Jæja, nú er þér líklega létt,“ sagði stúlkan í símanum. Ég þakkaði henni eins innilega og ég gat gegnum símann, lagðist svo fram á skrifborðið, dró djúpt andann og blés frá mér spennunni sem hlaðist hafði upp síðustu klukkustundina.

Framliðnir hjálpa til

Allt í einu mundi ég eftir gestinum inni í stofunni. Ég þaut inn til hans og baðst afsökunar á þessari löngu bið. Hann hafði setið þarna yfir klukkutíma og var hinn rólegasti og sagðist vita að ég hefði verið í vanda staddur. „Hér inni hefur verið fullt af framliðnu fólki,“ sagði hann, „sem hefur verið að hjálpa þér við að kalla á menn í símann.“ Hann lýsti þar einni konu, sem ég átti að þekkja og lýsing hans kom kunnuglega fyrir. Ég varð afar hissa. Þessi bekkjarfélagi minn hafði verið á Núpi fyrri veturinn minn þar. Hann virtist eiga dálítið erfitt uppdráttar í skólanum og jafnvel verða fyrir einelti. Ég hafði samúð með honum og fór nokkrum sinnum í gönguferðir með honum, þar sem við ræddum um lífið og tilveruna. Hann kom ekki í skólann eftir áramótin. Nú sagði hann mér að hann hefði verið farinn að heyra raddir og sjá sýnir og talið að hann væri að verða geðveikur. Þess vegna hefði hann verið svona dapur. Seinna hefði hann gert sér grein fyrir því að hann væri skyggn. Við sátum og töluðum saman nokkra stund.

Miltisbrandur á Landspítala?

Samkvæmt minni þekkingu á miltisbrandi hefðu mennirnir tveir, sem veiktust, átt að verða hitalausir á tveim dögum en nú voru komnir þrír dagar og þeir enn með nokkuð háan hita þótt þeir væru ekki mikið veikir. Ég taldi því öruggast að leggja þá inn á sjúkrahús. Ég hringdi á Landspítala og var svo heppinn að Jón Þorsteinsson gigtarlæknir var á vakt á lyfjadeild. Þegar ég, hálfkvíðinn, bað hann að taka við tveimur mönnum með miltisbrand og átti von á mótbárum, varð hann upprifinn og spenntur og bað mig að senda sjúklingana sem fyrst því hann hefði aldrei séð miltisbrand áður. Ég var honum afar þakklátur að þurfa ekki að vera í harki við að fá þessi pláss. Þegar ég kom í bæinn viku seinna vildi ég frétta af mönnunum. Þá kom upp úr dúrnum að hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum höfðu alveg neitað að taka við þeim. Þeir komu því ekki inn á Landspítala en enduðu í einangrun upp á Heilsuverndarstöð og náðu þar fullum bata.

Svona leit Hveragerði út í ágúst 1960. Gunnar Rúnar Ólafsson tók myndina. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Það sem eftir var dvalar minnar í Hveragerði var tíðindalítið. Ég reyndi að þumbast við þegar sjúklingar vildu fá róandi lyf og var því áreiðanlega ekki vinsæll meðal þeirra sem komu á stofuna þessa daga. Verst var þó að hinir og þessir slúbbertar úr Reykjavík gerðu sér ferðir austur til að fá ávanabindandi lyf, sem ég harðneitaði að láta þá hafa. Allt slapp þetta vel, og einu sinni hafði ég heppnina með mér. Þá komu tveir fremur ungir menn og bönkuðu upp á. Þeir heimtuðu að fá lyf og þegar ég neitaði, og ætlaði að loka á þá, gerðust þeir líklegir til að ráðast inn í apótekið. Þetta skapaði dálítinn hávaða, og nú vildi svo vel til að skólabróðir minn, Auðunn Sveinbjörnsson, var í heimsókn. Hann var stór og stæðilegur og þandi nú út brjóstkassann þegar hann kom fram í dyrnar. „Gengur hér eitthvað á?“ spurði hann valdsmannslega. Þetta nægði og mennirnir hunskuðust burtu.

Lexían í Hveragerði

Landlækni hitti ég einu sinni eða tvisvar í síðasta hluta námsins, en þá var ég ráðningastjóri læknanema, og þá minntist hann ekkert á dvöl mína í Hveragerði. Mörgum árum síðar var ég á fundi um heilbrigðismál í Súlnasal á Hótel Sögu. Eftir fundinn var kvöldverður í salnum og þá hittist þannig á að ég sat andspænis Sigurði, sem nú var löngu hættur störfum sem landlæknir. Menn ræddu um hitt og þetta við borðið, en ég hafði kynnt mig fyrir honum án þess að ræða nokkuð við hann að öðru leyti. Í lok máltíðarinnar sneri hann sér að mér og sagði brosandi: „Þetta fór nú allt saman vel að lokum, þarna fyrir austan í Hveragerði.“ Ég þakkaði honum glaður fyrir þennan vitnisburð, en var hissa að hann skyldi muna eftir þessu atviki.

Þessir 10 dagar í Hveragerði er einhver minnisstæðasti tími á öllum starfsferli mínum, þótt hann væri í rauninni ekki enn þá byrjaður. Líf manna er varðað tilviljunum. Var það ekki gráglettni örlaganna að ég, þessi óreyndi stráklingur, skyldi vera eini maðurinn á landinu sem hafði séð miltisbrand þegar þessi tvö tilfelli bárust upp í hendurnar á mér eftir minna en tvo tíma í embætti?


 Þetta vefsvæði byggir á Eplica