04. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Tímamót. Guðný Bjarnadóttir

Það er skondin tilviljun að í sama mánuði og ég er að ljúka störfum á Landspítala vegna aldurs, bjóðist mér að skrifa eigin hugleiðingar í Læknablaðið. Ný tækifæri bjóðast því enn þó ég teljist ekki gjaldgeng lengur sem ríkisstarfsmaður eftir 70 ára afmælið.

Guðný Bjarnadóttir á fjarlægum slóðum í heitu löndunum. Jón Eiríksson tók myndirnar.

Hvenær er eiginlega rétti tíminn til að hætta að vinna? Það er kúnst að vita það, ekki of snemma og ekki of seint. Ég hef verið spurð að þessu í mörg ár. Hvenær ætlar þú að hætta að vinna? Ég vildi ekki hætta of snemma, svo hér er ég enn þangað til mér verður hent út! Kannski of seint? Ég held samt ekki. Á meðan maður hefur ánægju af vinnunni hlýtur þetta að vera í lagi. Það eina sem í raun ætti að stoppa góðan lækni af, er heilsan og löngunin til að vinna.

Ellin er ekkert lamb að leik sér við

Það eru rúm 30 ár síðan ég hóf störf á öldrunardeild Landspítala og hefur margt breyst til batnaðar á þeim tíma. En betur má ef duga skal og enn vantar töluvert upp á félagslegu þjónustuna sem gerir útskriftir hrumra aldraðra enn sem áður vandasamar. Heimaþjónustuna þarf að efla mikið ef spítalinn á ekki að sprengja utan af sér! Hér áður fyrr var viðhorfið að öldrunarlæknar ættu einungis að sinna sjúklingum sem voru búnir í meðferð. Endurhæfing og greining á sérhæfðum vandamálum aldraðra var ekki hátt skrifuð. Nú hefur þetta breyst. Verkefnin hafa mikið til flust frá sérstökum öldrunardeildum, sem oft voru langlegudeildir, yfir á bráðadeildir, bráðamóttöku og yfir í öflugt göngudeildarstarf sem jafnframt er forvarnarstarf. Nú sinnum við flóknum, fjölveikum sjúklingum bæði utan spítalans og innan og reynum að bæta færni þeirra eins og kostur er. Öldrun er ekki sjúkdómur en við þurfum að greina hvaða áhrif aldurstengdar breytingar hafa á einstaklinginn. Það vita allir að með hækkandi aldri fylgja breytingar sem eru ígildi sjúkdóma. Við verðum stirðari, þrekminni, viðkvæmari fyrir sýkingum, efnum og lyfjum, svo fátt eitt sé nefnt. Ofan á það leggjast svo ýmsir sjúkdómar sem verða algengari með aldrinum.

Þetta hefur verið lærdómsríkur ferill

Maður hefur þurft að hafa sig allan við að fylgjast með framþróun. Starfið spannar yfir mikla breidd og í gegnum tíðina hef ég einstaka sinnum spurt mig af hverju ég valdi ekki þrengra svið. Maður á að kunna skil á öllu frá heila niður í stórutá! Aldursbilið sem við sinnum er breitt, til dæmis er 25 ára aldursmunur á elsta og yngsta sjúklingnum sem ég sinni núna. Líffræðilegur aldur er svo mismunandi eftir einstaklingum. Manneskjan er þó alltaf söm. Viðbrögð við sorg og gleði eru þau sömu. Erfiðir aðstandendur hafa alltaf verið til. Þeir elskulegu og þakklátu eru þó fleiri og eftirminnilegri. Mér finnst gamalt fólk spennandi. Þau hafa frá svo mörgu að segja, um löngu liðna atburði, um lífsreynslu sína og hvað þau hafa lært á langri ævi. Það hefur verið þess virði að gefa sér tíma að hlusta. Æðruleysið og róin sem fylgir mörgu öldruðu fólki hefur oft vakið mig til umhugsunar. Þannig vil ég líka verða nú þegar ég sjálf er að fylla þennan hóp. Hvað tekur nú við?

Draumurinn um eilífa æsku er jafn fjarlægur nú og áður. Yngingarpillan sem á að leysa öldrunarlækna af hólmi hefur ekki verið fundin upp enn. Eftir stendur að eina meðalið sem virkar gegn öldrun er að halda áfram að takast á við áskoranir sem lífið hefur uppá að bjóða. Þess vegna hef ég keypt mér farmiða eins langt í burt og ég kemst. Nefnilega til Namibíu. Lífið er núna!

P.S. Og hvernig var svo Namibía? Í stuttu máli: Ég skildi eftir hluta af hjarta mínu þegar ég fór þaðan. Og nú er ég farin að sjást aftur á göngum Landspítala. Er ég þá afturganga?

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica