04. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Síðustu tilfellin af miltisbrandi – fyrri hluti. Davíð Gíslason

Vorið 1964 hafði ég lokið fyrsta hluta læknanámsins og þá hófust fyrstu kynni mín af heilbrigðiskerfinu, en í miðhluta var gert ráð fyrir því að við læknanemarnir værum fjóra mánuði á spítala. Ég hafði lokið því um mitt sumar 1965 og fór þá í stúdentaskipti til Skotlands. Þar sá ég ýmsa sjaldgæfa sjúkdóma, en líklega var sjaldgæfasta tilfellið miltisbrandur hjá miðaldra konu. Hún var með svart drep í sári yfir hægra viðbeini og gríðarmikinn bjúg, sem náði upp að kjálkanum og eyranu hægra megin. Hún hafði smitast við að bera poka með stórgripabeinum á öxlinni, sem flutt voru inn frá Argentínu. Mér var sagt að þetta væri fjórða tilfellið af þessum sjúkdómi í Skotlandi frá stríðslokum, og var skipað að setjast inn á bókasafn spítalans og lesa allt sem ég gæti fundið um þennan sjúkdóm.

Tvær tölvugerðar myndir frá Shutterstock sem sýna A: dæmigert sár af völdum miltisbrands og B: byggingu bakteríunnar sem getur geymst von úr viti. Hún hefur komið við sögu í stríðsrekstri heimsins, njósnum af ískyggilegasta toga og þróun bráðdrepandi hergagna. – Í kvikmynd Jane Campion The Power of the Dog (2021), sem fékk Óskarsverðlaunin fyrir bestu leikstjórn, leikur bakterían lykilhlutverk.

Héraðslækninn í Hveragerði vantaði nú afleysingamann til að komast sjálfur í sumarfrí. Það var ekki óalgengt að læknanemar í síðasta hluta færu út í hérað í afleysingastörf til að afla sér tekna. Þá var reglan sú að héraðslæknirinn fengi leyfi landlæknis fyrir afleysingalækninum. Þannig fengu læknanemar lækningaleyfi til bráðabirgða. Það heyrði þó alveg til undantekninga að læknanemi í miðhluta færi út í hérað. Ég var kominn með fjölskyldu og afar auralítill eftir Skotlandsferðina, og lét því til leiðast að ráða mig í þetta starf í 10 daga. Ég átti að mæta á hádegi 20. september sem var mánudagur. Ég hafði tvisvar áður komið yfir Hellisheiði, þekkti engan, var bíllaus og þá voru engir farsímar. Símstöðin sem tengdi Hveragerði við umheiminn lokaði kl. 17 alla daga.

Davíð Gíslason

Þegar ég kom á heilsugæsluna mætti ég Sigurgeiri Kjartanssyni, læknanema í síðasta hluta, sem hafði verið við afleysingar á undan mér. Við hittumst smástund og hann setti mig inn í starfið. Héraðslækninn hitti ég ekki fyrr en síðasta daginn. Móttakan var ekki opin daginn sem ég kom, og þegar Sigurgeir var farinn rölti ég um húsið og skoðaði aðstæður. Fyrir utan viðtalsherbergið og biðstofuna voru þarna apótek og stofa. Mér sýndist öll aðstaða vera afar fátækleg.

Héraðslæknir í 30 mínútur

Ég var búinn að vera héraðslæknir í rúma hálfa klukkustund og var að máta mig í stól læknisins, með kvíðahnút í maganum, þegar síminn hringdi. „Héraðslæknirinn,“ sagði ég hálfhikandi, og kannaðist varla við mína eigin rödd. Ég heyrði undrunarhljóm í röddinni sem svaraði og sagðist heita Jón Guðbrandsson dýralæknir á Selfossi. Þegar ég hafði sannfært hann um að ég væri ekki að gera símaat sagðist hann vilja láta mig vita að hann hefði verið að kryfja tvær kýr á bæ í héraðinu, sem hefðu drepist þrem dögum áður. Sýni, sem send voru að Keldum, hefðu leitt í ljós að þær hefðu drepist úr miltisbrandi. Hann var búinn að kynna sér sögu þessa bæjar og 1906 hafði komið upp dýraveiki á bænum sem talin var miltisbrandur. Þá hefðu hræ af kúm verið grafin í túninu, en núna um haustið hefði jarðýta verið fengin til að ryðja upp vegi, og þá hefðu grafirnar líklega komið upp.

Eitthvað ræddum við dýralæknirinn um þetta, en þegar samtalinu var lokið taldi ég rétt að hringja strax í landlækni, sem var Sigurður Sigurðsson. Hann varð nú ekki minna hissa en dýralæknirinn þegar ég kynnti mig sem settan héraðslækni. Það hafði sem sé alveg gleymst að fá leyfi landlæknis fyrir veru minni í Hveragerði. Auðvitað hefði ég átt að kveðja kóng og prest og halda aftur í bæinn, en í stað þess spurði ég landlækni hvað mér bæri nú að gera. Hann hafði engin svör við því, að svo stöddu, en sagðist mundu kynna sér málið og hafa svo samband við mig síðar.

Ég var rétt búinn að róa mig niður þegar síminn hringdi í annað sinn. Nú var dálítið æst kvenmannsrödd í símanum, sem bað mig að koma í vitjun til tveggja mikið veikra manna. Það fylgdi sögunni að þeir hefðu verið að kryfja tvær kýr þremur dögum áður. Ég bað konuna að senda bíl eftir mér. Ég hefði auðvitað viljað ná góðum sýnum frá mönnunum, en þegar ég svipaðist um á stofunni fann ég aðeins trépinna og vafði bómull upp á endana og setti þetta í pott og sauð með nokkrum tómu meðalaglösum. Þetta varð að duga, og með það fór ég í vitjunina.

Einkenni miltisbrands og sýnataka

Þannig atvikaðist það að fyrstu sjúklingarnir mínir voru með miltisbrand. Þeir höfðu verið berhentir að róta í innyflum kúnna. Einkenni mannanna voru mjög svipuð. Þeir höfðu veikst daginn áður með höfuðverk og háan hita, voru báðir með sogæðabólgur á framhandleggjum og bólgna eitla í holhöndum og nokkur þurr sár á fingrum með svörtum brúnum og minni bjúg en ég hafði búist við. Það reyndist því erfitt að ná einhverjum vökva úr sárunum í ræktun, og ég var með óþjála þvottakonuhanska á höndunum. Sýklarnir höfðu ekki komið í snertingu við sýklalyf og áttu því að vera vel næmir. Ég gaf því mönnunum stóra skammta af penisillíni.

Hvað átti ég nú að gera við sýnin? Mér var ekið aftur á stofuna og ég pakkaði þeim vandlega inn og merkti sýkladeild Landspítala. Umbúðirnar, sem ég fann í lyfjabúrinu, voru of litlar til að koma öllum sýnunum fyrir þannig að ég varð að pakka einu sýni sérstaklega. Síðan gekk ég niður í Kaupfélagið og hitti þar mann, sem sá um sendingar til Reykjavíkur. Hann sagði mér að bílstjóri austan úr sveitum kæmi seinna um daginn og myndi taka pakkana og fara með þá á bifreiðastöð í Reykjavík. Þaðan yrði farið með þá á pósthúsið. Ég var nú nokkuð ánægður með mig og svaf rótt næstu nótt.

Skýrsla til landlæknis

Ég hafði auðvitað opna stofu á virkum dögum nema daginn sem ég kom. Starf mitt á stofunni snerist mest um endurnýjun lyfseðla. Dagurinn leið tíðindalaus að kvöldi, að því undanskildu að landlæknir hringdi í mig, og ég gaf honum skýrslu um hvað ég hafði afrekað daginn áður. Hann taldi að ekki þyrfti að gera meira í bili, en sagði að það væri búið að fá vörubíl sem væri að bera þykkt lag af ofaníburði ofan á veginn og kringum útihúsin á bænum þar sem miltisbrandurinn kom upp. Fréttin um miltisbrandinn var nú komin bæði í útvarpið og blöðin. Ekki hafði þó náðst í héraðslækninn til að afla frétta af veikindum mannanna.

Á fimmtudag hringdi ég í Arinbjörn Kolbeinsson á sýkladeildinni. Hann sagði mér að ekkert hefði ræktast úr þremur sýnum, en hann hafði ekki séð fjórða sýnið. Líklega myndi nú ekkert ræktast úr þessum sýnum þar sem áhöld til sýnatökunnar voru ófullnægjandi. Rétt eftir klukkan fjögur um daginn var ég búinn að afgreiða alla sjúklinga af biðstofunni og var farinn að horfa nokkuð björtum augum á framhald veru minnar í Hveragerði.

Landlæknir hringir

Um fimmleytið hringdi síminn. Það var landlæknir. Hann var forvitinn að frétta af sýnunum. Ég sagði að þrjú sýnin væru alveg neikvæð, en Arinbjörn hefði ekki séð eitt sýnið. Landlækni, þessum yfirvegaða manni, var greinilega brugðið. „Hvað segið þér, hefur eitt sýnið ekki komið fram? Þér verið þegar í stað að tala við sýslumanninn á Selfossi, og láta rannsaka hvað hefur orðið af sýninu.“ Það hafði ekki flogið að mér að eitt sýnið kynni að vera týnt, en auðvitað væri það alvarlegt mál ef pakki með miltisbrandssýklum væri einhvers staðar í reiðileysi. Mér var virkilega illa brugðið og ég sá fyrir mér þröngan klefa í kjallara Lögreglustöðvarinnar á Selfossi, þar sem ég ætti eftir að rotna næstu árin. Ég reyndi samt að vinna tíma og spurði hvort ég mætti ekki kanna þetta sjálfur. Landlæknir var staðfastur, en sagði þó að ef þetta væri ekki komið á hreint klukkan sex yrði ég að tala við sýslumanninn.

Framhald í næsta blaði.

Þeim sem vilja fræðast um miltisbrand og sögu hans á Íslandi er bent á grein Haraldar Briem á vísindavef háskólans: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=95

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica