04. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Dagur í lífi framkvæmdastjóra lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Sigurður Einar Sigurðsson

05:00 Vaknaður á undan klukkunni að venju. Klæði mig og svo göngutúr með Ými (10 ára Labrador). Þessa dagana eru göngutúrarnir í styttra lagi þar sem Ýmir er nýbúinn í aðgerð. Gef honum síðan að borða og fæ mér kaffisopa.

05:50 Mæti í ræktina. Þar hitti ég besta æfingafélagann og við tökum hefðbundna mánudagsæfingu. Á eftir er það heitur pottur, svo kaldur pottur (6 mínútur) og svo nokkrar mínútur í heita aftur. Spjall við pottverja.

Hér er SES sjálfur í sinni stjórnstöð og út um gluggann sést eyrin á Akureyri teygja makindalega úr sér.
– Mynd/Unnur Ingibjörg Gísladóttir

07:30 Mættur í vinnuna. Þar sem ég er formaður viðbragðsstjórnar SAk byrja ég á að skoða stöðuna á sjúkrahúsinu með tilliti til fjölda sjúklinga og hversu margir eru inniliggjandi með COVID-19. Helgin hefur greinilega verið annasöm og aldrei fleiri inniliggjandi með COVID. Sendi póst til sóttvarnalæknis og landlæknis með nýjustu tölum. Fer síðan yfir tölvupósta og svara erindum. Á stutt spjall við Hildi-gunni Svavarsdóttur forstjóra um stöðuna og einnig varðandi vinnu við rekstraráætlun sjúkrahússins.

09:00 Fundur með forstöðulækni bæklunarskurðlækninga um stöðu á gerviliðaaðgerðum og hvernig við sjáum vinnast úr málum varðandi biðlista þegar COVID--19 áhrifin á starfsemina fara að dvína.

10:00 Átti fund með forstöðumanni sem boðar forföll vegna veikinda. Nota tímann til að svara tölvupóstum, samþykkja reikninga og undirrita ráðningarsamninga.

11:00 Viðbragðsstjórnarfundur. Farið er yfir stöðuna á sjúkrahúsinu með viðbragðsstjórninni og forstöðumönnum eininga sem mest mæðir á. Í framhaldi er gefin út tilkynning frá viðbragðsstjórn sem sett er á vefsíður SAk.

11:45-12:00 Stutt matarhlé. Maturinn á sjúkrahúsinu finnst mér frábær og sést best á því að eftir 20 ár er ég ekki orðinn leiður á matnum. Sést líka á mér.

12:00 Held áfram að vinna við að svara tölvupóstum og undirbúa mig fyrir framkvæmda-stjórnarfund.

13:00-15:00 Framkvæmdastjórnarfundur. Fjölþætt dagskrá að venju en mesta púðrið fer í að forgangsraða fjármunum í tækja- og búnaðarkaup á árinu. Eins og svo oft er ekki hægt að verða við öllum óskum en þarf að vega og meta út frá rökstuðningi forstöðumanna og ramma fjárlaga. Í lok fundar liggur fyrir áætlun í samræmi við fjárveitingu. Nota pásu á fundi til að fara í útvarpsviðtal.

15:20-16:00 Frágangur eftir fund. Samtal við framkvæmdastjóra lyflækningasviðs vegna rekstraráætlunar.

16:20 Kominn heim. Við hjónin spjöllum um daginn og veginn en einnig hvaða ráðleggingar við fengum frá dýralækninum varðandi Ými. Erum líka að skipuleggja helgarferð til London seinna í mánuðinum. Hringi síðan í vin sem er veikur heima með COVID-19. Síðan hef ég samband við systkini mín varðandi afmæliskvöldverð fyrir föður okkar. Lít yfir fréttamiðla.

19:00 Eiginkonan er á Zonta-fundi í kvöld þannig að ég fæ mér léttan kvöldverð. Kem mér svo vel fyrir og horfi á fótboltaleik í sjónvarpinu og renni yfir samfélagsmiðlana.

21:00 Kvöldganga með Ými.

22:30 Skoða dagskrána hjá mér á morgun og síðan bíður rúmið.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica