04. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Breyta styrktarrétti lækna til að grípa fleiri, - Gerður Aagot er formaður Fjölskyldu- og styrktarsjóðs

Veikindaréttur lengdur og fæðingarstyrkur lækkaður. Þetta eru dæmi um breytingar sem urðu á Fjölskyldu- og styrktarsjóði lækna nú um áramótin. Formaður sjóðsins segir að brugðist hafi verið við ákalli lækna en einnig breyttri samsetningu læknahópsins

„Við viljum með þessu koma til móts við stærri hóp lækna og stór áföll í lífi þeirra. Þetta er tilraun til þess. Svo verðum við að sjá hvernig það reynist,“ segir Gerður Aagot Árnadóttir, nýr formaður FOSL, um breytt styrkjafyrirkomulag sjóðsins sem tók gildi 1. mars síðastliðinn. Ákvörðunin verði rýnd í lok árs og endurmetin ef þörf krefji.

Gerður Aagot Árnadóttir, formaður Fjölskyldu- og styrktarsjóðs lækna, FOSL, segir að brugðist hafi verið við ákalli lækna og reglunum breytt.

„Með breytingunum getur hópur lækna, sem ekki hefur átt möguleika á að sækja í sjóðinn, gert það. Við lengjum veikindagreiðslur um einn mánuð, enda meira um langvinn veikindi í hópnum. Svo grípum við inn í þurfi læknar stærri aðgerðir, eins og tannviðgerðir, magaermi og liðskiptaaðgerðir, sem og aðrar nauðsynlegar heilsufarsaðgerðir sem ekki eru greiddar af sjúkratryggingum,“ segir hún. „Með þessu viljum við dreifa styrkjunum víðar og horfa til þess að hægt sé að rétta oftar hjálparhönd þegar læknar þurfa á því að halda,“ segir hún.

Í fyrra fóru 54% greiðslna úr sjóðnum í fæðingarstyrki til lækna, samtals tæp 51 milljón króna. Fyrir áratug nam heildarfjárhæð greiddra fæðingarstyrkja rétt rúmum 14 milljónum króna.

„Ungum læknum hefur blessunarlega fjölgað og fæðingarstyrkjunum þar af leiðandi líka. Við ákváðum því að endurskoða reglurnar og gera þær sanngjarnari. Hér áður fékk aðeins annað foreldrið hálfan styrk og hitt heilan ef bæði voru læknar, en nú fá báðir fullan styrk,“ segir hún.

Styrkurinn nam áður 520.000 krónum, en er nú 450.000 krónur. „Við viljum sjá hvort þessi breyting sé ekki sanngjarnari fyrir læknahópinn í heild og hvort okkur takist ekki að grípa hvern lækni oftar á starfsævinni með þessum breytingum.“

Gerður segir viðbótarmánuð í veikindastyrk þarfa breytingu. „Það kemur líka betur til móts við unga fólkið okkar, því það hefur ekki sama veikindarétt og þeir sem eldri eru, lendi það í langvinnum veikindum eins og krabbameinsmeðferðum.“

Gerður segir að tiltölulega stífar reglur hafi verið um eingreiðslustyrki en nú sé liðkað fyrir fleiri styrkjum. Styrktarsjóðurinn standi ágætlega. „Við höfum svigrúm og förum því inn á nýjar brautir. Við munum meta það hvernig þessar breytingar reynast en markmiðið er að nýta fjármagn sjóðsins fyrir þá sem þurfa mest á því að halda.“

Læknar sem fá laun samkvæmt kjarasamningi greiða í sjóðinn. „Þeir sem eru sjálfstætt starfandi þurfa að taka ákvörðun um það sjálfir og ganga frá því, vilji þeir eiga rétt til styrkja,“ bendir hún á. Hún hvetur lækna til að fara inn á heimasíðu Læknafélagsins og kynna sér breytingarnar.


 Þetta vefsvæði byggir á Eplica