04. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Slæm staða vísinda merki um hnignun Landspítala, - úr McKinsey-skýrslunni

„Samanburður við önnur háskólasjúkrahús öskrar á hve illa er stutt við vísindastarf hérlendis,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins: „Vísindastörf skila margfalt því fé sem sett er í þau.“ Undir það tekur Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir vísindadeildar Landspítala

„Vísindi krefjast þolinmæði og framsýni sem eru viðhorf sem fuku út um gluggann í hruninu og hefur ekki verið litið um öxl síðan,“ segir Magnús Gottfreðsson yfirlæknir.

Fram kemur í nýju McKinsey-skýrslunni að aðeins 1,3% heildarútgjalda sé varið í vísindi á Landspítala en hlutfallið sé 3,2% á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg, 8,8% á Óslóar-háskólasjúkrahúsinu og að jafnaði 8,1% á bandarískum háskólasjúkrahúsum. Spítalinn hafi hrunið úr að því vera fremstur í flokki norrænna háskólasjúkrahúsa miðað við áhrifastuðul tilvitnana í rannsóknarniðurstöður fyrir fjármálakreppuna í neðsta sætið. Magnús segir þetta sláandi.

„En það er líka sláandi að svo virðist sem skorti á innri sannfæringu eigandans sjálfs fyrir því að það sé nauðsynleg og rétt ákvörðun að efla spítalann sem háskólasjúkrahús.“ Hann veltir fyrir sér hvort hnignun spítalans hafi hafist þegar hann var gerður að háskólaspítala.

„Það læðist að manni sá grunur að sameining spítalanna í öflugt háskólasjúkrahús hafi ekki verið einlægur ásetningur yfirvalda heldur aðferð til að afla stuðnings efasemdafólks við samein-ingaráformin á sínum tíma og leið þeirra til að búa til einokunarstofnun.“ Eftir sameiningu hafi svo verið hafist handa við að þjarma að rekstrinum með því að taka út úr honum það sem hægt var.

„Vísindi eru arðbær. Þau búa til nýja þekkingu, jafnvel er talað um sérstakan iðnað í því samhengi og vísindastarf dregur okkar best menntaða starfsfólk að starfseminni, eykur starfsánægju og gæði þjónustunnar. Sumar rannsóknir tala um að ávöxtun vísindastarfs skili 25% ávöxtun og McKinsey bendir á það í skýrslunni. Eru til betri fjárfestingakostir?“ spyr Magnús.

„Skortur á vísindastarfi er meiriháttar ógn við starfsemi háskólasjúkrahúss, því við munum eiga í erfiðleikum með að halda uppi gæðum og manna lykilstöður án þess. Meðalaldur í mörgum sérgreinum er orðinn hættulega hár innan Landspítala. Fjöldi sérfræðilækna innan sumra sérgreina hefur hrunið og stöður eru ómannaðar eða mannaðar tímabundið af erlendum farandlæknum. Spítalinn er raunverulega að komast í þrot.“

Steinunn og Magnús horfa til Heilbrigðisstefnu yfirvalda til 2030 en þar er stefnt á að standa jafnfætis norrænum háskólasjúkrahúsum. Steinunn segir að ná þurfi þeirri stöðu sem fyrst. „Þetta er spurning um vilja. Það þarf ekki meira til. Það þarf að taka þessa ákvörðun. Þetta er ekki flóknara en það.“

McKinsey sýni að sérþekkingin sé vannýtt

Læknar og hjúkrunarfræðingar hér á landi virðast, í meira mæli en kollegar þeirra á Norðurlöndunum, vinna störf sem krefjast ekki sérþekkingar þeirra. Þetta segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, eftir að hafa rýnt í nýju McKinsey-skýrsluna. Skýrslan staðfesti margt sem læknar hafi bent á.

„Við sjáum þar að hver læknir hefur minni aðstoð en gerist erlendis og færri sjúkraliðar eru á hvern hjúkrunarfræðing. Með því að bæta starfsumhverfi þessara stétta og nýta sérhæfða starfskrafta þeirra betur, mætti betur takast á við skort á mannafla í þessum stéttum.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica