04. tbl. 108. árg. 2022

Fræðigrein

Sóttvarna- og samfélagsaðgerðir vegna heimsfaraldurs COVID-19 og greiningar á hjartadrepi og algengum sýkingum árið 2020

Effects of the COVID-19 pandemic and associated non-pharmaceutical interventions on diagnosis of myocardial infarction and selected infections in Iceland 2020

doi 10.17992/lbl.2022.04.686

Ágrip

INNGANGUR
Sóttvarnaaðgerðir og breytingar á venjum almennings drógu úr útbreiðslu COVID-19 smita á árinu 2020 en áhrif aðgerðanna á tilurð og greiningu annarra sjúkdóma eru óþekkt. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða áhrif heimsfaraldurs COVID-19 og viðbragða vegna hans á tíðni greininga bráðs hjartadreps og ákveðinna sýkinga með mismunandi smitleiðir árið 2020 samanborið við árin 2016-2019.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Kennitölur einstaklinga 18 ára og eldri sem lögðust inn á Landspítala 2016-2020 með lungnabólgu eða brátt hjartadrep voru fengnar úr sjúkraskrárkerfum. Fengin voru gögn um Chlamydia trachomatis sýni, inflúensugreiningar, HIV-próf og jákvæðar Enterobacterales-blóðsýkingar frá rannsóknastofum. Staðlað nýgengishlutfall (standardised incidence ratio, SIR) ásamt 95% öryggisbili (95% confidence interval, 95%CI) var reiknað fyrir þessa sjúkdóma árið 2020 borið saman við árin 2016-2019.

NIÐURSTÖÐUR
Fjöldi útskriftargreininga vegna lungnabólgu sem var ekki vegna COVID-19 dróst saman um 31% árið 2020 (SIR 0,69 (95%CI 0,64-0,75)). Útskriftargreiningum vegna bráðs hjartadreps fækkaði um 18% (SIR 0,82 (95%CI 0,75-0,90)) og bráðum hjartaþræðingum vegna bráðs kransæðaheilkennis um 23% (SIR 0,77 (95%CI 0,71-0,83)), en 15% aukning varð á blóðsýkingum með Enterobacterales-tegundum (SIR 1,15 (95%CI 1,04-1,28)). Sýnum þar sem leitað var að Chlamydia trachomatis fækkaði um 14,8% (p<0,001) og 16,3% fækkun (p<0,001) varð í heildarfjölda jákvæðra sýna. Fjöldi HIV-prófa dróst saman um 10,9% og 23,6% samdráttur varð á staðfestum inflúensutilfellum árið 2020 þrátt fyrir að sýnataka tvöfaldaðist.

ÁLYKTANIR
Sjúkrahúsinnlögnum vegna lungnabólgu af öðrum orsökum en COVID-19 fækkaði um ríflega fjórðung árið 2020. Greiningum á bráðu hjartadrepi, klamydíu og inflúensu fækkaði. Margt bendir til að um raunfækkun sé að ræða vegna breyttrar hegðunar á farsóttartímum.

Greinin barst til blaðsins 28. janúar 2022, samþykkt til birtingar 21. mars 2022.

Inngangur

Þann 31. desember 2019 bárust fréttir frá Wuhan-héraði í Kína um skyndilega aukningu tilfella lungnabólgu af óþekktum orsökum. Fljótlega greindist ný kórónuveira sem fékk heitið Severe Acute Respiratory Syndrome Coronavirus-2 (SARS-CoV-2) og sjúkdómurinn sem hún veldur nefndur Coronavirus Disease 2019 eða COVID-19.1

Fyrsta smit vegna SARS-CoV-2 greindist hér á landi þann 28. febrúar 2020 en strax var lögð rík áhersla á einangrun einstaklinga með staðfest smit, sóttkví útsettra, smitrakningu og gott aðgengi að sýnatöku til greiningar. Heilbrigðisyfirvöld mæltust til þess að almenningur takmarkaði sem mest samgang við fólk og lögðu áherslu á mikilvægi persónulegra sóttvarna á borð við fjarlægðartakmarkanir, handþvott og sótthreinsun.2 Jafnframt var samkomutakmörkunum komið á, en markmið allra þessara aðgerða var að koma í veg fyrir óhefta útbreiðslu smita, vernda viðkvæma hópa og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið. Geta til þess að taka við umframálagi er mismunandi milli landa, en á Íslandi er fjöldi gjörgæslurýma hinn 6. lægsti meðal OECD-ríkja og því strax ljóst að ekki væri mikið rými fyrir viðbótarálag.3

Samspil farsóttarinnar sjálfrar og viðbragða við henni hefur haft gríðarleg áhrif á samfélög víða um heim, þar með talið mannlegt atferli og hegðun, en einnig tilurð og greiningu fjölmargra annarra sjúkdóma og sér ekki enn fyrir endann á því. Markmið viðbragðanna hérlendis hefur verið að lágmarka skaða vegna farsóttarinnar en á sama tíma að leitast við að gæta meðalhófs í takmörkunum með hliðsjón af stöðu faraldursins hverju sinni (mynd 1).

Mynd 1. Tímalína sóttvarnaaðgerða á Íslandi og fjöldi í einangrun með SARS-CoV-2 smit eftir mánuðum 2020.1,2

Sýkingar geta haft ýmsar ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Þannig helst árstíðasveifla inflúensu í hendur við árstíðasveiflu lungnabólgu, bráðs hjartadreps og heilaáfalla.4 Nýlegri rannsóknir hafa sýnt að staðfest sýking með inflúensu og sumum öðrum öndunarfæraveirum eykur verulega hættu á bráðu hjartadrepi og heilaáföllum og er sú hætta mest fyrst eftir greiningu smits.5,6 Jafnframt hefur verið sýnt fram á að bólusetning gegn inflúensu getur dregið úr hættu á bráðu hjartadrepi um 36% í há-áhættusjúklingum.7,8

Markmið þessarar rannsóknar var að skoða áhrif heimsfaraldurs COVID-19 árið 2020 og viðbragða vegna hans á greiningar hjartadreps og sýkinga með mismunandi meingerð og smitleiðir. Í þessu skyni voru rannsakaðar greiningar og nýgengistölur lungnabólgu og blóðsýkingar af völdum gram-neikvæðra Enterobacterales-tegunda. Þá var fjöldi greiningarrannsókna á inflúensu, HIV og klamydíu árið 2020 borinn saman á landsvísu við árin 2016-2019.

Efni og aðferðir

Skilgreining þýðis, sjúkdómsgreiningar og leyfi

Rannsóknin var afturskyggn. Viðföng voru allir 18 ára og eldri sem lögðust inn á Landspítala árabilið 2016-2020 og voru sjúkdómsgreindir með lungnabólgu, brátt hjartadrep eða COVID-19. Kennitölur þeirra sem uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar voru fengnar úr sjúkraskrárkerfi Landspítala af kerfisfræðingi. ICD-10 (International Classification of Diseases, eða alþjóðleg flokkun sjúkdóma) kóðar fyrir lungnabólgu (J12-J18), COVID-19 (U07.1) og brátt hjartadrep (I21.0-I21.9) voru notaðir. Upplýsingar um fjölda og ábendingar hjartaþræðinga á árunum 2016-2020 voru fengnar úr SCAAR (The Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry) gagnagrunninum frá hjartadeild Landspítala. Rannsóknin var samþykkt af siðanefnd heilbrigðisrannsókna á Landspítala (1/2021).

Sýklafræðilegar greiningar

Fengin voru ópersónugreinanleg gögn frá sýkla- og veirufræðideild Landspítala um fjölda sýna sem tekin voru á árunum 2016-2020 og send til greiningar á Chlamydia trachomatis, HIV og inflúensu, ásamt fjölda jákvæðra sýna fyrir sama tímabil. Einnig fengust persónugreinanleg gögn um fjölda jákvæðra blóðræktanna af völdum Enterobacterales-tegunda (E. coli, Klebsiella spp. og skyldar tegundir). Þá fengust upplýsingar frá rannsóknastofunni Sameind um fjölda HIV-prófa á sama tíma. Chlamydia trachomatis-sýni sem tekin voru frá augum, endaþarmi og hálsi voru tekin út úr gagnasafni, en yfirleitt er um aukasýni að ræða og því hætta á tvítalningu ef þau hefðu verið talin með.

Tölfræði

Gögnin voru unnin í tölvuforritinu Excel og tölfræðiforritinu Rstudio ásamt myndum og töflum. Aldursstaðlað nýgengishlutfall og 95% öryggisbil var reiknað í tölfræðiforritinu Rstudio. Fengnar voru mannfjöldatölur frá Hagstofu Íslands fyrir árin 2016-2020. Þýðinu var skipt í aldurshópa með 5 ára millibili, fyrir utan yngsta aldurshópinn sem náði yfir einstaklinga 18-19 ára. Við aldursstöðlunina var notuð óbein stöðlun, en meðaltöl mannfjölda í hverjum aldurshópi voru reiknuð fyrir árin 2016-2019 og meðaltal nýgengis þessara ára var einnig reiknað. Staðlað nýgengishlutfall (standardized incidence ratio, SIR) hvers sjúkdóms árið 2020 var því reiknað miðað við óbeinu stöðlunina fyrir árin 2016-2019.

Myndrænn samanburður var auk þess gerður á aldursbundnu nýgengi sjúkdóma rannsóknarinnar árið 2020 við meðaltöl áranna 2016-2019, reiknað sem tilfelli á 1000 íbúa innan hvers aldurshóps fyrir sig. Við útreikninga á aldursstöðluðu nýgengishlutfalli bráðra hjartaþræðinga var miðað við sama nýgengi í hverjum aldurshópi og í innlögnum vegna bráðs hjartadreps. Var þetta gert vegna þess að tölur yfir kransæðaþræðingar voru ópersónugreinanlegar en gert var ráð fyrir svipaðri aldursdreifingu og í innlagnatölum bráðs hjartadreps. Notað var tilgátupróf fyrir tvö hlutföll, eða -„Two-proportions Z-test“, til að kanna mun á fjölda innlagna, inflúensu-sýna, HIV-sýna og fjölda sýna fyrir Chlamydia trachomatis árið 2020 samanborið við meðaltal 2016-2019 í Rstudio. Tvíhliða tilgátupróf með marktækni við p<0,05 voru notuð.

Niðurstöður

Lungnabólga

Aldursstaðlað nýgengishlutfall (SIR) var 0,69 (CI 0,64-0,75) og því 31% færri slíkar innlagnir árið 2020 en árabilið 2016-2019, að teknu tilliti til breyttrar aldurssamsetningar (tafla I).

Nýgengi innlagna með lungnabólgu var lægra en í meðalári frá janúar og fram til maí 2020 en hækkaði svo aftur yfir sumarmánuðina í júní og júlí þegar nýgengi var svipað og í meðalári (mynd 2). Nýgengi lækkaði svo aftur seinni hluta ársins, frá ágúst til desember. Nýgengi lungnabólgu fylgir hækkandi aldri, en það var lægra árið 2020 í öllum aldurshópum samanborið við árin á undan (mynd 2).

Mynd 2. Samanburður á fjölda innlagna lungnabólgu (efri mynd) og aldursbundið nýgengi (neðri mynd) árið 2020 borið saman við meðaltal 2016-2019. Á súluriti á efri mynd er fjöldi smita SARS-CoV-2 í hverjum mánuði árið 2020. Lóðréttar línur sýna 95% öryggisbil.

Samkvæmt ICD-10 greiningarkóðum var sýkill í langflestum tilvikum ótilgreindur en í þeim tilfellum þar sem hægt var að bera kennsl á sýkingarvald var lungnabólgan oftast vegna baktería.

Brátt hjartadrep

Aldursstaðlað nýgengishlutfall árið 2020 var 0,82 (CI 0,75-0,90) og því voru um 18% færri útskriftargreiningar bráðs hjartadreps en hefði mátt búast við (tafla I). Nýgengi innlagna vegna bráðs hjartadreps var svipað og í meðalári fyrri hluta ársins 2020 með leitni í fækkun frá ágúst og út árið og hæsta hlutfall tilfella á hverja 1000 íbúa var í aldurshópnum yfir 90 ára (mynd 3).

Mynd 3. Samanburður á fjölda innlagna vegna bráðs hjartadreps (efri mynd) og aldursbundið nýgengi (neðri mynd) árið 2020 borið saman við meðaltal 2016-2019. Á súluriti á efri mynd er fjöldi smita SARS-CoV-2 í hverjum mánuði árið 2020. Lóðréttar línur sýna 95% öryggisbil.

Fjöldi hjartaþræðinga vegna bráðs kransæðaheilkennis (acute coronary syndrome), það er bráðs hjartadreps eða óstöðugrar hjartaöngvar, lækkaði að sama skapi árið 2020. Aldursstaðlað nýgengishlutfall var 0,77 (0,71-0,83) og voru aðgerðirnar 665, en hefði mátt búast við 866 ef miðað er við árin á undan og tillit tekið til breyttrar aldurssamsetningar (tafla I).

Enterobacterales-blóðsýkingar

Aldursstaðlað nýgengishlutfall var 1,15 (CI 1,04-1,28), það er fjölgun jákvæðra sýna um 15% árið 2020 miðað við árabilið 2016-2019 í þýði með sömu aldurssamsetningu (tafla I). Fjöldi jákvæðra blóðsýkinga var umtalsvert meiri í mars og október árið 2020 miðað við meðalárið. Að öðru leyti var fjöldinn svipaður en með leitni í hækkun. Aldursbundið nýgengi var hæst árið 2020, en þessi hækkun var bundin við aldurshópinn 80-89 ára (mynd 4).

Mynd 4. Samanburður á fjölda Enterobacterales-blóðsýkinga (efri mynd) og aldursbundið nýgengi (neðri mynd) árið 2020 borið saman við meðaltal 2016-2019. Á súluriti á efri mynd er fjöldi smita SARS-CoV-2 í hverjum mánuði árið 2020. Lóðréttar línur sýna 95% öryggisbil.

Chlamydia trachomatis

Innsendum sýnum til greiningar á Chlamydia trachomatis fækkaði um 14,8% árið 2020 borið saman við meðaltal áranna 2016-2019 (15.788 borið saman við 18.522, p<0,001) og 16,3% fækkun varð í heildarfjölda jákvæðra sýna (1582 borið saman við 1890, p<0,001). Heildarfjöldi sýna og jákvæðra sýna lækkaði í byrjun árs 2020 og var lægstur í apríl (mynd 5).

Mynd 5. Greining klamydíusýkinga (Chlamydia trachomatis) árið 2020 samanborið við meðaltal áranna 2016-2019. Fjöldi jákvæðra sýna fyrir Chlamydia trachomatis er sýndur árið 2020 (blá lína) samanborið við meðaltal áranna 2016-2019 (rauð lína). Lóðréttar línur sýna 95% öryggisbil.

Hlutfall jákvæðra sýna hélst svipað árið 2020 (10%) samanborið við meðaltal áranna 2016-2019 (10,2%).

HIV-greiningar

Fjöldi HIV-prófa árið 2020 dróst saman um 10,9% borið saman við meðaltal áranna 2016-2019 (12.045, borið saman við 13.522, p=<0,001). Mesti samdráttur í framkvæmd prófa var í apríl, eða um 32,7% frá meðaltali áranna 2016-2019. Fjöldi þeirra sem greindust með HIV árið 2020 var 31 sem er sambærilegt við meðaltal áranna 2016-2019 (31,3 jákvæðar greiningar). Þá var hlutfall jákvæðra 0,26 á hver 100 próf sem voru tekin árið 2020 samanborið við 0,23 á hver 100 próf að meðaltali árin 2016-2019.

Inflúensa

Fjöldi sýna sem tekin voru til greiningar á inflúensu tvöfaldaðist árið 2020 (n=6030) miðað við meðaltal áranna 2016-2019 (6030 borið saman við 3010, p=<0,001). Í mars jókst sýnataka þrefalt og í september varð fjórföld aukning, en mesta aukningin í sýnatöku varð þessa tvo mánuði miðað við meðaltal áranna 2016-2019. Heildarfjöldi jákvæðra sýna dróst hins vegar saman um 23,6% árið 2020 (386 borið saman við 510 árabilið 2016-2019, p=<0,001). Fjöldi jákvæðra sýna féll frá meðaltalinu í apríl en þá greindust 49% færri jákvæð sýni 2020 (25) miðað við meðalár (51) (mynd 6).

Mynd 6. Fjöldi jákvæðra sýna fyrir inflúensuveiru er sýndur árið 2020 (blá lína.

Frá maí og út árið 2020 greindist engin inflúensa á landinu þrátt fyrir mikinn fjölda innsendra sýna.

Umræður

Með þessari rannsókn var leitast við að varpa ljósi á greiningar nokkurra annarra mikilvægra smitsjúkdóma en COVID-19 á Íslandi árið 2020. Auk þess var sjónum beint að greiningum á bráðu hjartadrepi til samanburðar, en sá sjúkdómur var valinn vegna þess hversu alvarlegur og bráður hann er. Auk þess gaf árið 2020 einstakt tækifæri til að skoða hvort mikill samdráttur í dreifingu öndunarfærasýkinga eins og inflúensu gæti hugsanlega haft áhrif á nýgengi hjartadreps, enda hefur verið sýnt fram á orsakatengsl milli þessara sjúkdóma.5,6

Í viðbrögðum við farsóttum er mikilvægt að heildarhagsmunir séu hafðir að leiðarljósi og að ofuráhersla á einn heilsufarslegan þátt yfirskyggi ekki alla aðra, nema talið sé að slík nálgun skili betri ávinningi fyrir þjóðina í heild. Um þetta hefur mikið verið deilt víða um heim, enda hafa almennar sóttvarnaráðstafanir gríðarlega víðtæk áhrif á líf alls almennings.

Af þessum sökum er vert að velta fyrir sér hvort nýgengi annarra sjúkdóma, ekki síst annarra smitsjúkdóma, hafi breyst í heimsfaraldrinum og ef svo er, hvort þær breytingar séu raunverulegar eða skýrist af breyttum áherslum á greiningar (greiningartöf, of- eða vangreiningar).

Af okkar niðurstöðum má ráða að nýgengi lungnabólgu sem leiddi til innlagnar og var ekki af völdum SARS-CoV-2 lækkaði um fjórðung árið 2020 borið saman við meðaltal áranna 2016-2019. Mesta lækkun nýgengis á hverja 1000 íbúa kom fram í eldri aldurshópum og má ætla að sú lækkun endurspegli góðan árangur af tilmælum sóttvarnayfirvalda um að vernda þá hópa sérstaklega þar sem þeir fara hvað verst út úr COVID-19. Því er líklegra að eldra fólk hafi fylgt sóttvarnareglum, forðast mannamót og tekið persónulegar sóttvarnir eins og handþvott og grímunotkun alvarlega. Þessu til stuðnings má sjá á heimasíðu covid.is að uppsafnaður fjöldi staðfestra SARS-CoV-2 smita á hverja 1000 íbúa lækkar með hækkandi aldri.9 Einnig má benda á að takmarkanir á heimsóknum á hjúkrunarheimili og spítala getur haft áhrif á þessar tölur og að eldra fólk hafi almennt minna umgengist börn og barnabörn sín, en algengt er að þau beri sýkingarvalda á borð við S. pneumoniae í öndunarfærum án einkenna. Þá má benda á að í rannsókn Agnars Bjarnasonar og félaga, sem kannaði helstu meinvalda samfélagslungnabólgu á Landspítala 2008-2009, var sýnt fram á að í þeim tilfellum samfélagslungnabólgu þar sem sýklafræðileg orsök lá fyrir var um þriðjungur vegna veirusýkingar.10 Því má telja líklegt að lækkunin sem hér kemur fram endurspegli meðal annars fækkun á lungnabólgu tengdri veirusýkingu, annarri en SARS-CoV-2, enda virtust inflúensusýkingar hverfa með öllu seinni hluta ársins líkt og gögnin okkar sýna.

Í byrjun faraldursins var mikið rætt um álag á heilbrigðiskerfið. Í kjölfarið voru sett fram tilmæli til fólks um að leita ekki á bráðamóttöku nema af brýnni nauðsyn. Út frá því spruttu vangaveltur um hvort um væri að ræða vangreiningu á tilfellum þar sem fólk hefði forðast að sækja sér aðstoð vegna veikinda af ótta við SARS-CoV-2-smit eða að vera byrði á heilbrigðisstofnunum sem voru nú þegar undir miklu álagi. Þrátt fyrir það teljum við að fólk hefði leitað til heilbrigðisstofnana, ef ekki vegna alvarleika einkenna lungnabólgunnar þá vegna þess hve mikið þau líkjast einkennum COVID-19. Einnig sýna gögnin fram á að ekki varð aukning á greiningum umfram meðaltal eftir hápunkta COVID-19 faraldursins árið 2020, sem bendir til þess að ekki sé um vangreiningu að ræða.

Inflúensa orsakast af samnefndri RNA-veiru sem leggst fyrst og fremst á öndunarfæri og veldur árstíðabundnum faröldrum, en smitleiðir hennar eru svipaðar og hjá SARS-CoV-2. Árið 2020 varð tvöföldun í fjölda sýna þar sem leitað var að inflúensu. Ástæðan fyrir þessum aukna fjölda voru nýjar verklagsreglur sem settar voru fyrir COVID-19-skimun á Landspítala en auk prófs fyrir SARS-CoV-2 var einnig skimað fyrir öðrum öndunarfæraveirum. Mesta aukningin í sýnatöku varð í mars og september þegar COVID-19-smitum fór fjölgandi í samfélaginu.

Athyglisvert er að inflúensa greindist ekki á landinu frá maí 2020 þrátt fyrir þessa miklu aukningu í sýnatöku. Fækkun á inflúensutilfellum á Íslandi í COVID-19 faraldrinum er ekki einsdæmi en inflúensa hvarf nánast um allan heim. Margar erlendar rannsóknir greina jafnframt frá fækkun á öðrum þekktum öndunarfæraveirum á borð við RS-veiru, adenoveiru, rhinoveiru, parainflúensu og metapneumoveiru.11-13

Líklega má rekja ástæðu fækkunar á inflúensu hérlendis til fækkunar á tilfellum á heimsvísu, fækkunar erlendra ferðamanna sem og ferða Íslendinga út fyrir landsteinana sem talið er að beri veiruna hingað til lands ár hvert.14 Einnig er líklegt að samkomutakmarkanir og persónubundnar sóttvarnir á borð við handþvott og grímunotkun hafi haft áhrif á þessa fækkun.

Áhugavert er að sjá að fjöldi greininga vegna bráðs hjartadreps dróst saman um 11,8%. Það er í samræmi við aðrar rannsóknir frá Bandaríkjunum og Frakklandi sem þó sýndu enn meiri fækkun, eða 20-38%.15,16 Þá má velta fyrir sér hvort þessi munur útskýrist af harðari samfélagsaðgerðum þar miðað við það sem var í gildi hérlendis, en sem dæmi var komið á útgöngubanni í Frakklandi. Mesta fækkunin hérlendis átti sér stað þá mánuði er faraldurinn stóð sem hæst, eða í mars og apríl, og seinni hluta ársins, eða frá ágúst til desember. Þá var einnig fækkun á bráðum hjartaþræðingum árið 2020 en þeim fækkaði um 23% miðað við það sem hefði mátt búast við í meðalári (tafla 1). Út frá því má velta fyrir sér hvort þessi fækkun skýrist af vangreiningum vegna faraldursins eða hvort um raunfækkun hafi verið að ræða. Til þess að komast nær skýringunni á því má skoða umframdánartíðni og rýna í óútskýrð dauðsföll. Raungögn sýna með óyggjandi hætti að umframdánartíðni á Íslandi á árinu 2020 var lítil sem engin.17 Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt tengsl öndunarfærasýkinga á borð við inflúensu við aukna tíðni bráðs hjartadreps og verður því að telja líklegt að tölurnar endurspegli raunfækkun í okkar þýði.5,18-21

Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýndi að COVID-19 var áhættuþáttur fyrir brátt hjartadrep þar í landi og má ætla að sambærileg áhrif væru mótvægi gegn fyrrgreindum verndandi áhrifum hér á landi, ekki síst seinni hluta ársins.22 Niðurstöðurnar minna þannig á mikilvægi bólusetninga gegn bæði inflúensu og COVID-19, enda vernda þær ekki aðeins gegn sjúkdómunum sjálfum heldur einnig fylgikvillum þeirra.8,23,24 Blóðsýkingar af völdum iðrabaktería (til dæmis Enterobacterales-tegundir) eiga oft uppruna sinn í þvagfærum og meltingarfærum, en margar spítalasýkingar orsakast einnig af iðrabakteríum. Allnokkur fjölgun á blóðsýkingum með Enterobacterales-tegundum varð meðal 80-89 ára en ástæður þess eru óljósar og væri áhugavert að kanna nánar. Hugsanlegt er að blóðsýkingarnar hafi þróast í kjölfar vægari sýkinga sem voru -ó- eða vanmeðhöndlaðar þar eð viðkomandi leitaði sér ekki aðstoðar eða fékk ekki fullnægjandi afgreiðslu.

Í Talnabrunni Embættis landlæknis frá desember 2020 kom fram að fjöldi útleystra sýklalyfja lækkaði og komum á heilsugæslu fækkaði umtalsvert árið 202025 sem kann að styðja þessa tilgátu. Nánari skoðun á sjúkraskrám gæti varpað ljósi á skýringarnar. Hvað sem því líður bendir þessi aukning á nýgengi Enterobacterales-blóðsýkinga til þess að almenn greiningargeta sýkla- og veirufræðideildar hafi haldist þrátt fyrir mikið álag vegna COVID-19.

Fækkun á sýnum til greiningar á Chlamydia trachomatis og um leið fækkun á jákvæðum sýnum kemur ekki á óvart í ljósi samkomutakmarkana, en óvíst er hvort sjúkdómurinn var vangreindur á árinu. Fátt bendir þó til að svo sé, enda var hlutfall jákvæðra prófa nánast óbreytt í samanburði við fyrri ár. Einnig var fækkun á HIV-prófum, en mesta fækkunin var í apríl þegar fyrsta bylgja faraldursins stóð í hámarki. Mikilvægt er að greina HIVsýkingar sem allra fyrst því meðferð með veirulyfjum snemma skilar betri árangri og dregur einnig úr útbreiðslu smits. Erlendar rannsóknir hafa sýnt mikla fækkun í sýnatöku fyrir kynsjúkdóma á borð við klamydíu, lekanda og HIV í heimsfaraldrinum og hafa sumar þeirra greint frá fjölgun á lengra gengnum sýkingum á sama tíma og snemmgreiningum fækkaði.26-28 Í Bandaríkjunum hefur verið greint frá hlutfallslegri aukningu á jákvæðum sýnum á sama tíma og sýnataka dróst talsvert saman.29 Í Ástralíu varð 31% fækkun á innsendum sýnum til HIV-greininga en fjöldi nýgreindra tilfella var áþekkur og árið áður, sem er í samræmi við okkar niðurstöður, þó minni samdráttur hafi átt sér stað í sýnatöku hérlendis, eða um 10,9%.30 Þessar niðurstöður benda því ekki til að kynsjúkdómar hafi verið vangreindir hérlendis árið 2020.

Helsti styrkleiki rannsóknarinnar er að hún nær yfir nægilega langt tímabil til að gefa yfirsýn yfir íslenskt heilbrigðiskerfi í eðlilegu árferði samanborið við ástandið í heimsfaraldri. Helsti veikleiki rannsóknarinnar var að erfitt gat reynst að ákvarða aðalorsök innlagnar því flestar innlagnir höfðu fleiri en einn ICD-10 greiningarkóða við útskrift. Í afturskyggnri rannsókn má gera ráð fyrir einhverju misræmi á ýmsum sviðum, ekki síst í notkun greiningarkóða.

Niðurstöður okkar benda til að nýgengi lungnabólgu og hjartadreps sem tengist ekki beint COVID-19 hafi í reynd lækkað í faraldrinum og þannig hafi sóttvarnaaðgerðir á árinu 2020 haft viðbótarheilsufarsávinning í för með sér hvað þessa sjúkdóma varðar. Mikilvægt verður að fylgjast með þróun þessara sjúkdóma og heilsufars almennt í kjölfar afléttingar á sóttvarnaaðgerðum og aukins ónæmis í samfélaginu.

Þakkir

Sérstakar þakkir fær Sturla Arinbjarnarson framkvæmdastjóri Sameindar rannsóknarstofu fyrir að leggja okkur lið við þessa rannsókn og útvega okkur tölulegar upplýsingar fyrir gagnasöfnun.

 

Heimildir

 

1. WHO Timeline - COVID-19. World Health Organisation. 2020. who.int/news/item/27-04-2020-who-timeline-covid-19 - febrúar 2022.
 
2. Viðbrögð á Íslandi 2021. Embætti landlæknis. covid.is/undirflokkar/vidbrogd-a-islandi - febrúar 2022.
 
3. Hospital beds (indicator). OECD. 2021. data.oecd.org/healtheqt/hospital-beds.htm - febrúar 2022.
 
4. Reichert TA, Simonsen L, Sharma A, et al. Influenza and the Winter Increase in Mortality in the United States, 1959-1999. Am J Epidemiol 2004; 160: 492-502.
https://doi.org/10.1093/aje/kwh227
PMid:15321847
 
5. Kwong JC, Schwartz KL, Campitelli MA, et al. Acute Myocardial Infarction after Laboratory-Confirmed Influenza Infection. N Engl J Med 2018; 378: 345-53.
https://doi.org/10.1056/NEJMoa1702090
PMid:29365305
 
6. Roivainen M, Viik-Kajander M, Palosuo T, et al. Infections, Inflammation, and the Risk of Coronary Heart Disease. Circulation 2000; 101: 252-7.
https://doi.org/10.1161/01.CIR.101.3.252
PMid:10645920
 
7. Udell JA, Zawi R, Bhatt DL, et al. Association Between Influenza Vaccination and Cardiovascular Outcomes in High-Risk Patients: A Meta-analysis. JAMA 2013; 310: 1711-20.
https://doi.org/10.1001/jama.2013.279206
PMid:24150467
 
8. Fröbert O, Götberg M, Erlinge D, et al. Influenza Vaccination After Myocardial Infarction: A Randomized, Double-Blind, Placebo-Controlled, Multicenter Trial. Circulation 2021; 144: 1476-84.
https://doi.org/10.1161/CIRCULATIONAHA.121.057042
PMid:34459211
 
9. Tölulegar upplýsingar 2021. Embætti landlæknis. 2021. covid.is/tolulegar-upplysingar - febrúar 2022.
 
10. Bjarnason A, Westin J, Lindh M, al. Incidence, Etiology, and Outcomes of Community-Acquired Pneumonia: A Population-Based Study. Open Forum Infect Dis 2018; 5: ofy010.
https://doi.org/10.1093/ofid/ofy010
PMid:29479548 PMCid:PMC5804852
 
11. Olsen SJ, Azziz-Baumgartner E, Budd AP, et al. Decreased Influenza Activity During the COVID-19 Pandemic - United States, Australia, Chile, and South Africa, 2020. MMWR Morb Mortal Wkly Rep 2020; 69: 1305-9.
https://doi.org/10.15585/mmwr.mm6937a6
PMid:32941415 PMCid:PMC7498167
 
12. Cowling BJ, Ali ST, Ng TWY, et al. Impact assessment of non-pharmaceutical interventions against coronavirus disease 2019 and influenza in Hong Kong: an observational study. Lancet Publ Health 2020; 5: e279-e88.
https://doi.org/10.1016/S2468-2667(20)30090-6
 
13. Li Z-J, Yu L-J, Zhang H-Y, et al. Broad impacts of COVID-19 pandemic on acute respiratory infections in China: an observational study. Clin Infect Dis 2021: ciab942.
 
14. Weinberger DM, Krause TG, Mølbak K, et al. Influenza epidemics in Iceland over 9 decades: changes in timing and synchrony with the United States and Europe. Am J Epidemiol 2012; 176: 649-55.
https://doi.org/10.1093/aje/kws140
PMid:22962250 PMCid:PMC3530371
 
15. Garcia S, Albaghdadi MS, Meraj PM, et al. Reduction in ST-Segment Elevation Cardiac Catheterization Laboratory Activations in the United States During COVID-19 Pandemic. J Am Coll Cardiol 2020; 75: 2871-2.
https://doi.org/10.1016/j.jacc.2020.04.011
PMid:32283124 PMCid:PMC7151384
 
16. Van Belle E, Manigold T, Piérache A, et al. Myocardial Infarction incidence during national lockdown in two French provinces unevenly affected by COVID-19 outbreak: An observational study. Lancet Reg Health Eur 2021; 100030.
https://doi.org/10.1016/j.lanepe.2021.100030
PMid:34173627 PMCid:PMC7938895
 
17. Karlinsky A, Kobak D. Tracking excess mortality across countries during the COVID-19 pandemic with the World Mortality Dataset. eLife 2021; 10: e69336.
https://doi.org/10.7554/eLife.69336
PMid:34190045 PMCid:PMC8331176
 
18. Muscente F, De Caterina R. Causal relationship between influenza infection and risk of acute myocardial infarction: pathophysiological hypothesis and clinical implications. Eur Heart J Suppl 2020; 22(Suppl E): E68-e72.
https://doi.org/10.1093/eurheartj/suaa064
PMid:32523443 PMCid:PMC7270913
 
19. Barnes M, Heywood AE, Mahimbo A, et al. Acute myocardial infarction and influenza: a meta-analysis of case-control studies. Heart 2015; 101: 1738-47.
https://doi.org/10.1136/heartjnl-2015-307691
PMid:26310262 PMCid:PMC4680124
 
20. García-Lledó A, Rodríguez-Martín S, Tobías A, et al. Relationship Between Influenza, Temperature, and Type 1 Myocardial Infarction: An Ecological Time-Series Study. J Am Heart Assoc 2021; 10: e0196088.
https://doi.org/10.1161/JAHA.120.019608
PMid:33829851 PMCid:PMC8174174
 
21. Mohammad MA, Tham J, Koul S, et al. Association of acute myocardial infarction with influenza: A nationwide observational study. PLoS ONE 2020; 15: e0236866.
https://doi.org/10.1371/journal.pone.0236866
PMid:32760080 PMCid:PMC7410234
 
22. Katsoularis I, Fonseca-Rodríguez O, Farrington P, et al. Risk of acute myocardial infarction and ischaemic stroke following COVID-19 in Sweden: a self-controlled case series and matched cohort study. Lancet 2021; 398: 599-607.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(21)00896-5
 
23. Baden LR, El Sahly HM, Essink B, et al. Efficacy and Safety of the mRNA-1273 SARS-CoV-2 Vaccine. N Engl J Med 2020; 384: 403-16.
https://doi.org/10.1056/NEJMoa2035389
PMid:33378609 PMCid:PMC7787219
 
24. Polack FP, Thomas SJ, Kitchin N, et al. Safety and Efficacy of the BNT162b2 mRNA Covid-19 Vaccine. N Engl J Med 2020; 383: 2603-15.
https://doi.org/10.1056/NEJMoa2034577
PMid:33301246 PMCid:PMC7745181
 
25. Elínardóttir SH. Starfsemi heilbrigðisþjónustu í annarri og þriðju bylgju COVID-19. 2020. Embætti landlæknis. landlaeknir.is/servlet/file/store93/item44014/Talnabrunnur_Desember_2020.pdf - febrúar 2022.
 
26. Ejima K, Koizumi Y, Yamamoto N, et al. HIV testing by public health centers and municipalities, and new HIV cases during the COVID-19 pandemic in Japan. J Acquir Immune Defic Syndr 2021; 87: e182-e187.
https://doi.org/10.1097/QAI.0000000000002660
PMid:33625066 PMCid:PMC8126475
 
27. Hensley KS, Jordans CCE, van Kampen JJA, et al. Significant Impact of Coronavirus Disease 2019 (COVID-19) on Human Immunodeficiency Virus (HIV) Care in Hospitals Affecting the First Pillar of the HIV Care Continuum. Clin Infect Dis 2022; 74: 521-4.
https://doi.org/10.1093/cid/ciab445
PMid:33993276 PMCid:PMC8244584
 
28. Menza TWM, Zlot AI, Garai J, et al. The Impact of the SARS-CoV-2 Pandemic on Human Immunodeficiency Virus and Bacterial Sexually Transmitted Infection Testing and Diagnosis in Oregon. Sex Transm Dis 2021; 48: e59-e63.
https://doi.org/10.1097/OLQ.0000000000001385
PMid:33534405
 
29. Pinto CN, Niles JK, Kaufman HW, et al. Impact of the COVID-19 Pandemic on Chlamydia and Gonorrhea Screening in the U.S. Am J Prev Med 2021; 61: 386-93.
https://doi.org/10.1016/j.amepre.2021.03.009
PMid:34020848 PMCid:PMC8131393
 
30. Chow EPF, Ong JJ, Denham I, et al. HIV Testing and Diagnoses During the COVID-19 Pandemic in Melbourne, Australia. J Acquir Immune Defic Syndr 2021; 86: e114-e5.
https://doi.org/10.1097/QAI.0000000000002604
PMid:33346567 PMCid:PMC7901531

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica