02. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Framtíð sjúkrahúsþjónustu á Stór-Reykjavíkursvæðinu: Verður nýi meðferðarkjarninn skammgóður vermir?

Á Landspítala hefur ríkt langvarandi skortur á legurýmum sem hefur orðið sérlega áþreifanlegur í viðureigninni við kórónuveirufaraldurinn. Markmið þessa bréfs er að varpa ljósi á þetta og velta upp þeirri spurningu hvort nýbyggingar Landspítala við Hringbraut muni leysa vandann.

Ísland í samanburði við Evrópulönd

Síðastliðna tvo áratugi hafa orðið verulegar breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar.1 Íbúum 60 ára og eldri hefur fjölgað mikið frá 2010 og er sú fjölgun hlutfallslega mun meiri en á hinum Norðurlöndunum.2 Skipulag heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur ekki tekið nægilegt tillit þessarar þróunar sem mun halda áfram næstu áratugi. Árið 2019 var meðalfjöldi legurýma á hverja 1000 íbúa á Íslandi 28% lægri en meðaltal 11 Vestur-Evrópulanda (tafla I).3,4 Ef fjöldi legurýma á Íslandi væri sambærilegur við hin Norðurlöndin og aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu þyrftu að vera 1400 sjúkrarúm á Íslandi, sem hefði í för með sér fjölgun um 390 (tafla I).

Þjóðarsjúkrahúsið Landspítali hefur það veigamikla hlutverk að veita íbúum höfuðborgarsvæðisins almenna þjónustu og svo öllum landsmönnum sérhæfða þjónustu. Fjöldi legurýma á 1000 íbúa er töluvert lægri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 64% landsmanna búa, en utan þess.3 Þetta kemur á óvart því þessu er jafnan öfugt farið annars staðar. Í nýlegri úttekt OECD voru undantekningarlaust fleiri legurými á hverja 1000 íbúa á þéttbýlli svæðum en í dreifðari byggðum.5 Hlutdeild íbúa 60 ára og eldri er einungis 9,3% hærri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og getur það því ekki skýrt þennan mun.1 Það er því ljóst að verulegur skortur er á legurými hér á landi og hlutfallslega mestur á höfuðborgarsvæðinu.

Færir nýi Landspítalinn okkur næg sjúkrarúm?

Margir vænta þess að uppbygging Landspítala við Hringbraut muni leysa margvísleg vandamál sjúkrahússins, ekki síst skort á legurýmum. Ljóst er að hinn langþráði meðferðarkjarni mun leiða til byltingar hvað snertir aðstöðu fyrir sjúklinga og vinnuumhverfi. Á hinn bóginn mun meðferðarkjarninn ekki leysa skort á legurýmum ef núverandi fyrirætlanir ganga eftir. Gert er ráð fyrir 209 bráðasjúkrarúmum og 23 gjörgæslurúmum. Þótt þessi rými bætist við núverandi rúmafjölda mun það ekki nægja til að jafna þau 398 sjúkrarúm sem vantar, sé horft til meðaltals annarra þjóða í Vestur-Evrópu. Höfundar hafa áður komist að þeirri niðurstöðu að miðað við núverandi stöðu þyrfti að fjölga legurýmum að lágmarki um 100 til að mæta aðkallandi bráðaþörf spítalans.6 Æskilegt er að setja markið hærra og tryggja sambærilegt aðgengi að sjúkrarúmum og í öðrum löndum Vestur-Evrópu.

Yfirlýst markmið byggingar nýs Landspítala við Hringbraut er að sameina alla starfsemi sjúkrahússins á einum stað. Samkvæmt núverandi stefnu er gert ráð fyrir að starfsemi Landspítala í Fossvogi (172 legurými) hætti en nýting Landakots (80 rúm) og Vífilsstaða (44 rúm) er enn óljós. Legurýmum mun því aðeins fjölga um 37 við opnun nýja meðferðarkjarnans þó að legurými Landakots og Vífilsstaða verði áfram í notkun. Loks ber að hafa í huga að þótt byggingarnar í Fossvogi verði nýttar áfram er enn ósvarað hvernig eigi að manna öll 209 viðbótarrúmin þar sem á síðustu árum hefur endurtekið þurft að loka rúmum vegna skorts á starfsfólki.

Brýn þörf fyrir fleiri sjúkrarúm og starfsfólk

Umræðan um legurýmisskort á Landspítala hefur lengi verið á villigötum. Margir telja að lausn þessa brýna vanda felist í byggingu nýrra hjúkrunarheimila og nýja meðferðarkjarnanum við Hringbraut. Aðrir telja að auka þurfi verulega flæði sjúklinga og framleiðni spítalans. En þrátt fyrir mikilvægi þessara þátta sitja eftir tvö vandamál sem bregðast þarf við. Annars vegar eru sjúkrarúm á Landspítala alltof fá miðað við íbúafjölda og hins vegar skortir starfsfólk til þess að hægt verði að manna þau sjúkrarúm sem þörf er á. Verði ekkert að gert er fyrirsjáanlegt að áfram muni syrta í álinn á komandi árum vegna enn frekari fjölgunar aldraðra. Nauðsynlegt er að brugðist verði við þessari alvarlegu stöðu þjóðarsjúkrahússins án tafar. Þörf er fyrir sameiginlegt átak stjórnvalda, stjórnenda og starfsfólks spítalans.

Heimildir

 

1. Hagstofa Íslands. Mannfjöldi eftir kyni, sveitarfélagi, aldri og ríkisfangi 1998-2021. px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__mannfjoldi__3_bakgrunnur__Rikisfang/MAN04208.px - janúar 2022.
 
2. OECD. Stat. Historical population. stats.oecd.org/Index.aspx?DataSetCode=HISTPOP# - janúar 2022.
 
3. Hagstofa Íslands. Sjúkrahúsrými 2007-2020. px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__heilbrigdismal__heilbrigdisthjonusta/HEI04103.px - janúar 2022.
 
4. OECD. Hospital beds (indicator). data.oecd.org/healtheqt/hospital-beds.htm - janúar 2022.
 
5. OECD. Regions and Cities at a Glance 2020. OECD Publishing, Paris. oecd.org/cfe/oecd-regions-and-cities-at-a-glance-26173212.htm - janúar 2022.
 
6. Eyþórsson ES, Guðmundsdóttir E, Jónasdóttir KH, et al. Skortur á legurými fyrir bráðveika á Landspítala. Bréf til blaðsins. Læknablaðið 2021; 12: 107.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica