02. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Afnám fjögurra klukkustunda útkallsgreiðslu rýtingur í bakið segir Sigurveig Pétursdóttir, fyrrum formaður kjarasamninganefndar LÍ

Landspítali nýtir ekki tækifæri til að halda læknum á spítalanum. „Óheilindi gagnvart læknum,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, bæklunarlæknir á Landspítala og fyrrum formaður kjarasamninganefndar lækna, um þá ákvörðun spítalans að greiða ekki fjögurra tíma þóknun til lækna sem stökkva til og mæta á vakt með minna en 24 klukkustunda fyrirvara eins og kveðið er á um í kjarasamningi lækna.

Greiðslurnar voru samkvæmt bréfi Læknafélagsins til félagsmanna í liðlega 15 ár samkvæmt grein 4.4.2 í kjarasamningi. Fyrirvaralaust hafi verið hætt að greiða samkvæmt því fyrir um ári síðan.

Sigurveig Pétursdóttir, bæklunarlæknir og fyrrum formaður kjarasamninganefndar lækna, segir aðför hafa verið gerða að kjörum þeirra. Mynd/gag

„Þetta er alvarleg aðför að kjarasamningi lækna á tímum þegar ætlast er til mikils af þeim, því aldrei hefur verið meira álag á heilbrigðiskerfið,“ segir Sigurveig. „Inntak ákvæðisins hefur alltaf verið það sama, en breyting varð í samningum 2014 á fjölda greiddra tíma.“

Hún segir að Landspítali hafi hætt að greiða samkvæmt samningnum, grein 4.4.2, um það bil mánuði eftir að skrifað var undir síðustu kjarasamninga. „Engin breyting varð þó á þessu ákvæði í þeim samningum. Það er alveg ljóst að ekki hefði verið skrifað undir þá á þeim tíma ef ljóst hefði verið að Landspítali hygðist breyta einhliða túlkun sem samningsaðilar voru sammála um í síðustu þremur samningalotum. Persónulega tók ég þessu sem hnífi í bakið. Mér finnst þetta sem svik við okkar starf,“ segir Sigurveig.

Dögg Pálsdóttir, framkvæmdastjóri og lögfræðingur Læknafélags Íslands, segir að nú sé í undirbúningi að fara með ágreininginn fyrir almenna dómstóla. „Við fórum með málið til Félagsdóms sem vísaði því frá þann 16. desember síðastliðinn með þeim rökum að orðalag kjarasamningsins væri skýrt og ágreiningurinn ætti því ekki heima þar.“

Gildandi kjarasamningar renna út 31. mars 2023 en Sigurveig segir ekkert því til fyrirstöðu að spítalinn hækki laun lækna almennt á grundvelli viðbótarþátta samningsins. Læknar án sérfræðileyfis geti fengið allt að þrjá þætti greidda og sérfræðingar fimm. Auk þessa séu viðbótarþættir auk fyrrnefndra greiddir fyrir meðal annars sérfræðipróf og doktorspróf.

„Það er ekki okkar læknanna að meta hvað til er af peningum. Samningurinn veitir svigrúmið, en hvort stjórnendur spítalans nýta sér það er svo annað mál.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica