02. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Landspítali uppræti vandann með læknum, - segir í tilkynningu FAL og Félags læknanema, - Hjördís Ásta Guðmundsdóttir ræðir málið

Þetta kemur fram í tilkynningu sem félögin hafa sent frá sér. Félag læknanema og FAL fagna endurskoðun verkferla er varða mismunun, kynferðislega áreitni og ofbeldi á Landspítala. Þau kalla eftir umfangsmikilli fræðslu á vegum mannauðssviðs þegar ferlarnir liggja fyrir. Þau segja viðbragðsaðila þurfa að fá viðeigandi fræðslu og þjálfun.

Hjördís Ásta Guðmundsdóttir, formaður Félags læknanema, segir lækna og læknanema þurfa að láta til sín taka til þess að starfs- og námsumhverfi þeirra batni. Mynd/aðsend

Hjördís Ásta Guðmundsdóttir, formaður Félags læknanema, segir yfirlýsinguna gerða í kjölfar svartrar könnunar Berglindar Bergmann, varaformanns FAL, á upplifun almennra lækna á spítalanum. Niðurstöðurnar sýndu að rúm 17% almennra lækna hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. Þá hafa tæp 19% almennra lækna upplifað kynbundna mismunun. Hjördís segir þessar niðurstöður ekki hafa komið svo á óvart.

„Nei, ekki í ljósi reynslunnar sem við læknanemar höfum, bæði í verknámi og starfi.“ Niðurstöðurnar rími við það sem hún hafi séð í erlendum rannsóknum. Hún segir hins vegar hafa komið sér á óvart í könnun Berglindar hve fá þeirra sem urðu fyrir misrétti sóttust eftir aðstoð Landspítala og að nærri tíundi hver læknir hefði orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í vinnunni.

Félögin kalla eftir því að sú öryggismenning er varði sjúklinga nú á spítalanum nái einnig til kynferðislegrar áreitni og ofbeldis í garð nema og starfsmanna Landspítala. Einstaklingar eigi rétt á að mæta til vinnu og náms án þess að þurfa að óttast um eigið öryggi.

„Við teljum að næsta skref sé að innleiða stefnu í málaflokknum, þess efnis að kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi og mismunun verði ekki liðið með neinum hætti á okkar þjóðarsjúkrahúsi og framtíðarvinnustað (zero tolerance policy),“ segir í yfirlýsingunni. Einungis þannig sé hægt að standa vörð um öryggi starfsfólks og nema á stofnuninni og fyrirbyggja frekari mismunun, áreitni og ofbeldi.

Félögin benda á að viðbrögð Landspítala séu fordæmisgefandi fyrir aðrar heilbrigðisstofnanir enda spítalinn stærstur. „Það er Landspítala að ákvarða hvers eðlis þau skilaboð eru.“

Hjördís segir kröfuna um bætta vinnustaðamenningu þyngri nú en áður. „Ungt fólk sættir sig ekki við mismunun og áreitni. Við þurfum öll, læknanemar og læknar, að læra að takast á við þessar aðstæður til þess að starfs- og námsumhverfið batni.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica