02. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Skáru niður starfsemina fyrir Landspítala, rætt við Sigurð Ingiberg Björnsson í Klíníkinni

„Allir voru á því að þetta væri augljóslega það sem þyrfti að gera og enginn skoraðist undan,“ segir framkvæmdastjóri Klíníkurinnar um þá ákvörðun að loka stórum hluta hennar tímabundið og stökkva af stað til bjargar vegna erfiðrar stöðu á Landspítala

„Strax og starfsfólkið kemur til baka verður skorið upp á öllum stofum,“ segir Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar. Um 20 starfsmenn hafi farið til starfa á spítalanum í þrjár vikur í kjölfar símtals á gamlársdag frá Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga.

Sigurður Ingibergur Björnsson stýrir Klíníkinni í Ármúla í húsakynnum þar sem áður var Hótel Ísland. Mynd/Védís

Sigurður segir að endurraða þurfi 50-60 skurðdögum vegna fjarveru starfsfólksins sem snúi til baka þann 31. janúar. „Þetta er mikið rask og við verðum fram í apríl að ná í skottið á okkur.“

Orkuhúsið sendi einnig 7 starfsmenn á spítalann, segir Dagný Jónsdóttir framkvæmdastjóri. „Við sýnum samfélagslega ábyrgð,“ segir hún og að samið hafi verið til tveggja vikna. „Svo fylgjumst við með stöðunni dag frá degi. Við vitum ekki hvert framhaldið verður,” sagði hún við Læknablaðið þann 19. janúar. Á vef Sjúkratrygginga kom fram þann 20. janúar að einnig hefði verið samið við Lækningu í Lágmúla. Samtals hefði þá verið samið um 30 manna liðstyrk.

Sigurður segir að ákvörðunin hafi verið tekin þar sem allt stefndi í óefni á spítalanum. Sú erfiða staða var staðfest á upplýsingafundi Almannavarna þann 12. janúar. Alma D. Möller landlæknir sagði þá stöðuna alvarlegri en áður hefði sést á Landspítala. Þá lágu 45 inni vegna COVID.

Sigurður bendir á að starfsmenn Klíníkurinnar hafi farið í samstarf við Landspítala í haust til að vinna niður biðlista. Hann segir að það hafi vissulega verið nær þeirra kjarnastarfsemi að fá sjúklingana á Klíníkina fremur en að starfsmenn hverfi til starfa á Landspítala.

„Heilbrigðiskerfið fær mest út úr því að við vinnum eftir okkar verkferlum frekar en að slíta þá í sundur og dreifa starfsfólki á deildir sem það þekkir ekki,“ segir hann. „En þetta var neyðarástand. Það gerir þetta enginn að gamni sínu.“ Röskunin sé mikil hjá sjúklingum þeirra.

„Við gerum stórar aðgerðir og fólk liggur inni. Það er búið að gera ráðstafanir; taka sér frí, jafnvel panta flug utan af landi. Þetta eru ekki léttar ákvarðanir en þegar heilbrigðisyfirvöld meta það þannig að kalla verði inn fleira fólk vegna neyðarástands þá skorumst við á Klíníkinni ekki undan.“

Í krísum sé þetta nauðsynlegt. „Við erum eitt heilbrigðiskerfi. Verkefni þurfa að geta flætt á milli,“ segir hann. „Vandi heilbrigðiskerfisins er síbreytilegur og vaxandi. Samvinna er það sem virkar.“

Sigurður segir mikilvægt að spítalinn forgangsraði verkefnum svo hann geti tekið við bráðatilfellum og gert flóknar aðgerðir. „Hann verður að geta tekið á því mikilvægasta, flóknasta og ófyrirséða. Það er búið að keyra nýtingu Landspítalans allt of hátt.“ Sjálfstætt starfandi stofur gætu tekið meira að sér „og á skaplegu verði“.

Skynsamlegt að skera hér á landi

Semja þarf við ríkið um að fólk sem hefur beðið of lengi eftir aðgerð geti fengið hana niðurgreidda hjá sjálfstætt starfandi stöðvum, segir Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar í Ármúla.

HEI Medical Travel auglýsti þjónustu CPH Privathospital í Fréttablaðinu um miðjan janúar með þeim orðum að fólk eigi rétt á endurgreiðslu kostnaðar og fyrir ferðalagið hjá Sjúkratryggingum Íslands komi það í liðskipti þar eftir þriggja mánaða bið hér heima. Ákvæðið sé hluti samningsins um Evrópska efnahagsvæðið.

„Það hlýtur að vera skynsamlegt að réttindin gildi líka hér á landi,“ segir Sigurður: „Við getum gert þetta ódýrar og með minna raski fyrir sjúklinginn.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica