02. tbl. 108. árg. 2022

Ritstjórnargrein

Lísa í Undralandi og andstaða við bólusetningar. Haraldur Briem

Haraldur Briem |fyrrverandi sóttvarnalæknir og dósent í farsóttafræði við Háskóla Íslands

doi 10.17992/lbl.2022.02.673

Eftir að Edward Jenner hafði sýnt fram á verndarmátt kúabólusetningar gegn bólusótt í lok 18. aldar breiddist bólusetningin smám saman út og var tekin upp hér á landi í byrjun 19. aldar. Eitthvað gekk seint að ná til allra þegna, sem leiddi til þess að bólusetningin var víða lögleidd. Fyrst til að lögleiða hana voru Danmörk (þar með Ísland), Noregur og Svíþjóð 1822. Önnur ríki fylgdu á eftir. Á Bretlandi varð bólusetningin börnum að kostnaðarlausu 1840, gerð að lagaskyldu 1853 og á árunum 1867-1907 var gert refsivert að víkjast undan bólusetningu.

Skömmu eftir að Jenner hóf bólusetningar varð mikil andstaða gegn þeim í heimalandi hans, Bretlandi, sem hélst alla 19. öldina. Því var haldið fram að menn gætu breyst í kýr við að fá kúabólu í sig og að bólusetningin væri skaðleg og gagnslaus því það kæmi fyrir að bólusettir fengju bólusótt. Árið 1877 benti Lewis Carrol (höfundur Lísu í Undralandi) á að ekki dygði að benda á bólusóttartilfelli meðal bólusettra eingöngu – gagnsemi bólusetninga kæmi fyrst í ljós þegar auk þess væri tekið tillit til fjölda bólusóttartilfella meðal óbólusettra. Carrol var heimspekingur og stærðfræðingur og má hann kallast fyrsti líftölfræðingurinn.

Mikil átök urðu vegna lagasetningarinnar um bólusetningu á Bretlandi. Lögunum var líkt við amerísku þrælalögin, og þau væru árás á frelsi einstaklinga. Félög voru stofnuð og útgáfustarfsemi haldið úti gegn bólusetningum. Nefna má The Vaccination Inquirer (1879) og The National Antivaccination League (1896).

Bresku læknasamtökin studdu skyldubólusetningu barna gegn bólusótt í yfirlýsingu sem birtist 1896.1 Helstu rökin voru að frelsi einstaklings ætti ekki við um börn. Þau væru ekki frjáls. Þau lytu forsjá foreldra eða forsjáraðila. Því væri ekki rétt að halda því fram að skyldubólusetning barna væri árás á frelsi einstaklingsins. Við gerðum þá kröfu til foreldra að hýsa, fæða og klæða börn og sjá þeim svo fyrir menntun. Það væri því skýlaus réttur ríkisins að krefjast þess að börn væru varin fyrir skelfilegum sjúkdómum á borð við bólusótt sem ógnaði lífi og heilsu.

Andstaða við bólusetningar minnkaði í byrjun 20. aldar og hér á landi náði hún ekki útbreiðslu. Eftir að bólusótt var útrýmt í heiminum – með bólusetningum – hefur skyldubólusetningu ekki verið beitt hér á landi, enda er vilji til bólusetninga meðal almennings mikill. Andstaða við bólusetningar hefur þó farið vaxandi undanfarna áratugi og minnir um margt á andstöðuna á 19. öld.

Upphaf nútíma andstöðu við bólusetningar er þekkt.2 Reynt er að klæða andstöðuna í vísindalegan búning til að gera hana trúverðuga. Megininntak andstöðunnar byggir á að öll bóluefni séu óörugg og gagnslaus, ef ekki skaðleg. Frægt er dæmið um falskar getgátur um að bóluefni gegn mislingum geti valdið einhverfu.3 Þessar falsanir leiddu til þess að víða kom bakslag í að bægja mislingum frá með bólusetningu með slæmum afleiðingum.

Margar gagnrýnisraddir á bólusetningar um þessar mundir kallast á við gagnrýnina á 19. öld á kúabólusetninguna. Gagnrýnin snýr að því að mRNA bóluefnin, sem reynst hafa vel gegn COVID-19, gætu haft skaðleg áhrif á erfðaefni mannsins. Geta bóluefnin ekki breytt okkur eins og meint kýrvæðing af völdum kúabóluefnanna? Er nokkurt gagn í bóluefnum ef þau koma ekki alltaf í veg fyrir sjúkdóm? Eru ekki sóttkví og einangrun, sem stuðlar að því að hindra eða hefta útbreiðslu alvarlegs sjúkdóms, gróf mannréttindabrot? Er ekki bólusetning barna eingöngu stunduð til að verja samfélagið en ekki börnin?

Lísa var 10 ára, og væri komin á bólusetningaraldur í dag, þegar hún elti kanínuna niður í Undraland þar sem ýmsu var snúið á hvolf. Sjálfsagt hefur hún heyrt ýmislegt misjafnt um bólusetningar en víst er að skapari hennar, Lewis Carrol, hefði stutt bólusetningar og opinberar sóttvarnaráðstafanir.

Heimildir

 

1. Drysdale CR. 'The Royal Commission on Vaccination'. BMJ 1896; 2: 786.
https://doi.org/10.1136/bmj.2.1864.786-a
PMCid:PMC2510582
 
2. Scheibner V. Vaccination: 100 years of orthodox research shows that vaccines represent a medical assault on the immune system. Blackheath (NSW) 1993.
 
3. Wakefield A, Murch S, Anthony A, et al. Ileal-lymphoid-nodular hyperplasia, non-specific colitis, and pervasive developmental disorder in children. Lancet 1998; 351: 637-41.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(97)11096-0


Þetta vefsvæði byggir á Eplica