01. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Hátt í 40 barnalæknar undir sama þaki í Urðarhvarfi - Viðar Örn Eðvarðsson leiðir þá framkvæmd

„Þetta er ótrúlegt. Hér var ekkert í byrjun september en verður tilbúið fyrir jól,“ segir Viðar Örn Eðvarðsson, barnalæknir. Hann stekkur á undan blaðamanni um glænýja læknastöð barnalæknanna sem áður voru í Domus Medica í miðbænum en eru nú Domus barnalæknar í Urðarhvarfi

„Skemmtilegur litur hérna,“ segir Viðar Örn Eðvarðsson, ritari í stjórn Domus barnalækna og klappar á fölgræna Læknablaðslitinn sem settur hefur verið á valda veggi á gangi og stofum húsnæðisins að Urðarhvarfi 8 í Kópavogi. Starfsemin verður í alls 750 fermetrum, á 5. hæð í A-álmu hússins. Félagið er sjálfseignarfélag læknanna sem þar starfa og með Viðari eru Ólafur Gísli Jónsson stjórnarformaður og Gylfi Óskarsson gjaldkeri í forsvari.

„Hér verða 35 barnalæknar, fjórir háls-, nef- og eyrnalæknar og barnaskurðlæknir. Svo verður hérna Sameind rannsóknarstofa á um það bil 40 fermetrum með blóð- og þvagrannsóknir. Við erum hérna með liðlega 40 lækna og rými fyrir allt að 50.“

Viðar Örn Eðvarðsson í hálfkláraðri læknamiðstöðinni þann 8. desember þegar tæpur mánuður var í komu fyrstu skjólstæðinganna á nýjan stað. Mynd/gag

Viðar hefur fylgst með framkvæmdunum og viðurkennir að það hafi tekið meiri tíma en hann hugði í fyrstu. En tími er afstæður. Það var fyrst í lok maí í þessu ári sem barnalæknar vissu að loka ætti Domus Medica. Þeir yrðu að færa sig um set.

„Þetta var alls ekki það sem við áttum von á að við þyrftum að gera. Við fréttum fyrirvaralaust af því að Domus Medica myndi hætta útleigu læknastofa og hætta rekstri um áramótin.“ Þau hófu umsvifalaust leit að nýju húsnæði og skrifuðu undir samning við ÞG verktaka í júlí.

Allir barnalæknarnir með

„Við vissum að bæklunarlæknarnir væru hérna í Urðarhvarfi og líkaði vel. Við veltum þremur fjórum öðrum stöðum fyrir okkur en leist best á þetta. Það hefur reynst farsæl ákvörðun því verktakarnir hafa staðið sig 100% og skilað öllu á réttum tíma,“ segir hann innan um iðnaðarmennina sem liggja í gólfinu að laga lista, tengja ofna, sparsla afgreiðsluborðið og mála veggi. Gler sem afmarkar skrifstofur og hleypir birtunni inn er að mestu komið upp.

„Er það ekki Pétur, það verður allt klárt?“ kallar hann upp til verkstjóra ÞG verktaka sem skilar húsnæðinu fullinnréttuðu til útleigu. „Þetta er ekkert mál þótt þetta sé rosalegt mál. Maður verður bara að hafa rétta hugarfarið,“ segir Viðar við blaðamann og verkstjórann sem brosir og svarar. „Já, já, maður leggur aldrei af stað í svona verkefni nema með því hugarfari að klára.“

Allir barnalæknar Domus Medica fara í Urðarhvarf og fleiri hafa bæst í hópinn. „Við höfum verið í Domus í rétt rúman aldarfjórðung. Við vitum hvað það þýðir að vera öll á sama stað. Það þýðir að fólk lærir að þekkja hvar þjónustuna er að fá. Við höfum aldrei haft áhyggjur af innbyrðis samkeppni. Við vitum að eftir því sem fleiri læknar starfa hjá okkur, þeim mun betri þjónustu getum við veitt og það er mikilvægt að veita góða og örugga þjónustu.“

Viðar segir að í þessu mikla pestarfári sem hafi gengið að undanförnu sé á mörkunum að barnalæknarnir nái að sinna öllum sem óska eftir viðtali. „Það er alveg nýtt fyrir okkur.“

Hóflega bjartsýn á samning

En kostnaðarhliðin, setur hún barnalækna á hliðina? „Þetta er náttúrulega mjög dýrt,“ svarar hann án þess að láta mikið uppi. „Barnalæknaþjónustan í Domus hefur á 25 árum lagt til hliðar með þetta í huga. Ráðdeild í rekstri skilar okkur því að geta stigið þetta skref.“

Viðar lýsir því að þótt húsnæðið sé leigt fullinnréttað, sé kostnaður við nýja stöð umtalsverður. „Við kaupum sjúkraskrárkerfi, hýsingu á gögnum og þjónustu við tölvubúnað. Við þurfum að huga að öryggismálum og vinna með öryggisþjónustufyrirtæki. Það kostar okkur stórfé að tryggja persónuvernd og einfaldir hlutir eins og þrif á húsnæðinu kosta líka sitt,“ segir hann.

„Svo eru frávik eins og viðbætur á loftræstingu og allir lausir innanstokksmunir, bekkir, stólar, skrifborð og nýjar tölvur í húsið. Einnig merkingar utanhúss og er þá langt frá að allt sé með talið.“

En hafði samningsleysi sérfræðilækna við ríkið hamlandi áhrif á ákvörðun þeirra um að færa sig í nýtt húsnæði? „Nei, við höfðum í raun ekkert val og ákváðum því að láta vaða. Annaðhvort var að gera þetta eða hætta þjónustunni. Það hefði aldrei gengið upp. Um kvöld og helgar skoðum við 12.000 börn á ársgrundvelli og fáum 35.000 heimsóknir á ári á dagvinnutíma. Þetta er umfangsmikil starfsemi,“ segir Viðar.

„Við erum hóflega bjartsýn á að það takist að semja við ríkið með nýjan heilbrigðisráðherra á vellinum enda er þessi þjónusta hagkvæm fyrir ríkið.“

Vilja fleiri barnalækna til starfa

Viðar segir að barnalæknar hafi í lengstu lög vonast til þess að Domus Medica yrði ekki lokað. „Það sem fór fyrst og fremst með Domus Medica var ónóg nýliðun í sumum sérgreinunum. Það er alveg klárt. Hópar sem áður töldu kannski 10-12 lækna voru orðnir fáliðaðir. Það var því ómögulegt að halda starfsemi Domus Medica áfram,“ segir Viðar sem ætlar ekki að falla í þann pytt enda ekki skortur á nýliðun í stétt barnalæknanna.

„Við sækjumst eftir því að fá unga barnalækna til starfa,“ segir hann. „Við finnum að ásóknin í þjónustuna vex og við þekkjum reksturinn vel. Það hefur aldrei brugðist að nánast fullbókað er frá fyrsta degi þegar nýr læknir hefur komið til okkar. Það hefur alltaf verið þannig.“

En eruð þið ekki stolt af þessu skrefi? „Jú, við erum mjög ánægð að hafa tekið þetta skref og höfum fulla trú á að þetta muni ganga í sátt við samfélagið og
yfirvöld.“ Þjónustan verður opin alla daga ársins. Stofustarfsemi frá 8-17 og vaktþjónusta frá 17-22 virka daga og frá 11-15. um helgar og helgidaga.

„Þjónusta okkar byggist á að aðgengi fyrir fólk sé gott. Allt verður á sama staðnum,“ segir Viðar fullur eftirvæntingar. „Fólk getur komið hingað og hitt barnalækna með nánast hvaða undirsérgrein sem er og almenna barnalækna, sem við erum reyndar öll líka. Hitt háls-, nef- og eyrnalækni og farið í blóð- og þvagrannsóknir. Svo er röntgen í húsinu og lyfsala. Við erum því í mjög góðum málum.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica