01. tbl. 108. árg. 2022
Ritstjórnargrein
Úr takti við tímann. Gunnar Thorarensen
Læknar starfa alla daga í samræmi við vísindalega þekkingu sína, reynslu og þjálfun með hagsmuni sjúklinga sinna að leiðarljósi. Þessum grundvallarforsendum er fylgt eftir með margs konar hætti. Sérfræðiþjálfun og símenntun lækna fá um þessar mundir verðskuldaða athygli og aðhald, siðareglur lækna stuðla að heilindum og góðu siðferði í læknisstarfinu en ekki síst þá gilda lög og reglur um störf lækna í hvívetna. Löggjöf um störf lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks hefur þann skýra og mikilvæga tilgang að vernda réttindi sjúklinga og tryggja að þeir hljóti viðeigandi meðferð og að hún sé veitt af til þess hæfu fagfólki. Lög og reglur þurfa jafnframt að skapa skýran ramma utan um þessi störf og tryggja öryggi lækna og annarra heilbrigðisstétta til þess að geta starfað faglega og af heilindum, án þess að um störf þeirra ríki réttarfarsleg óvissa, ekki síst í ljósi þess að velflestum meðferðum og rannsóknum læknisfræðinnar fylgja þekktar áhættur.
Fjöldi raunverulegra atvika hafa því miður afhjúpað að slík óvissa er sannarlega til staðar. Um alvarleg atvik sem upp koma við veitingu heilbrigðisþjónustu gilda skýrar reglur um tilkynningaskyldu til landlæknis og lögreglu, eftir því sem við á. Í kjölfar slíkra tilkynninga tekur hins vegar við flókinn og óskýr farvegur þar sem alvarleg atvik eru jafnvel rannsökuð samtímis af tveimur mismunandi aðilum, samhliða rótargreiningu heilbrigðisstofnunar. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur innleitt sérstaka löggjöf um refsiábyrgð starfsfólks í heilbrigðisþjónustu vegna alvarlegra atvika. Þetta er með öllu úr takti við tímann. Starfshópur, skipaður af fyrrum heilbrigðisráðherra, skilaði skýrslu árið 2015 um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu. Þar voru kynntar skýrar tillögur um nauðsynlegar breytingar á verklagi og lagaumhverfi til að tryggja bætt öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna og tekið mið af löggjöf annarra Norðurlanda, sem og annarri sambærilegri rannsóknavinnu, svo sem vinnu rannsóknanefndar samgönguslysa. Engar þessara umbóta hafa enn orðið að veruleika. Áfram starfa læknar og aðrar heilbrigðisstéttir við það mikla óöryggi sem fylgir langdregnu og ófullkomnu rannsóknaferli alvarlegra atvika. Gildandi vinnulag veldur skaðlegu álagi á þá heilbrigðisstarfsmenn sem í hlut eiga og gerir ekkert til að tryggja öryggi sjúklinga eða bæta verkferla stofnana.
Ljóst er að hagsmunir sjúklinga eru undir en ekki síður hagsmunir heilbrigðisstarfsfólks. Bætt verklag við úrvinnslu tilkynninga og skýrari löggjöf myndi því tryggja bætt öryggi allra aðila og væri allra hagur. Núverandi lagaumhverfi í því ástandi sem ríkir víða, þar sem langvinn undirmönnun er í algleymingi, er darraðardans sem heilbrigðisstarfsfólki er boðið upp í við störf sín. Á aðalfundi Læknafélags Íslands á dögunum var samþykkt ályktun þar sem kallað er eftir umbótum sem tryggi réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks þegar um er að ræða kerfislæg atvik og er vonandi að sá svari kallinu er rennur blóðið til skyldunnar.
Ótal þættir hafa áhrif á lækna við störf sín. Margir þeirra eru vel skilgreindir, svo sem umrædd lög og reglur. Aðrir eru minna skilgreindir en ekki síður mikilvægur mælikvarði á störf lækna og þá þjónustu sem sjúklingum er veitt. Þessir þættir vega sífellt þyngra, svo sem lýsingar sjúklinga á samfélagsmiðlum og fréttaflutningur í heilbrigðismálum sem og öðrum málum samfélagsins. Allt gefur þetta lækninum tækifæri til að sjá áhrif starfa sinna speglast í viðbrögðum skjólstæðinga sinna og getur verið til mikils gagns, aðhalds og verið verkfæri til umbóta. Í þessari breyttu heimsmynd sem tæknin færir okkur felast jafnframt einhver mestu kynslóðaskipti mannkynssögunnar. Persónulegum reynslusögum er hiklaust deilt áfram og hefur þetta mikil áhrif á samfélagsumræðu og fréttaflutning. Þessu hefur fylgt mikilvægt frelsi og umbætur fyrir samfélagið í heild. Spurningin um þagnarskylduna verður hins vegar áleitin í því formi sem hún hefur verið fram til þessa. Löggjöf um þagnarskylduna útskýrir að hana skuli ekki brjóta „nema brýna nauðsyn beri til“. Telst það til brýnna nauðsynja að viðhalda tiltrú á læknavísindin ef leiðréttar eru rangfærslur í frásögn, þar sem sjúklingur hefur sjálfur kosið að rjúfa þá þögn sem ríkir í sambandi læknis og sjúklings? Ef til vill þolir löggjöf um þagnarskyldu einnig endurskoðun ef hún er ekki síður úr takti við tímann.