12. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Oddur Steinarsson leiðir Læknafélagið þar til kosið hefur verið um formann

– Reynir Arngrímsson kveður eftir fjögur ár sem formaður

„Ég bjóst ekki við að taka við formennsku Læknafélagsins þegar ég tók sæti í stjórninni en mun leiða starfið þar til kosningu nýs formanns er lokið,“ segir Oddur Steinarsson, heimilislæknir og framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar í Lágmúla. Hann er fyrrum framkvæmdastjóri lækninga Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Oddur kom inn í stjórn LÍ sem fulltrúi FÍH í október og var þá kosinn varaformaður.

Oddur segir mikilvægt að bregðast hratt við og ganga sem fyrst til kosninga um nýjan formann. „Framundan eru aðkallandi verkefni. Alvarlegt ástand sem þarf að bregðast við alls staðar í heilbrigðiskerfinu.“ Stefnt er á að kosningu formanns verði lokið í janúar.

Oddur Steinarsson tekur við keflinu af Reyni Arngrímssyni og verður formaður Læknafélags Íslands en kosið verður um nýjan formann fljótlega. Mynd/aðsend

Reynir Arngrímsson, formaður síðustu fjögur ár, er meðal umsækjenda um stöðu forstjóra Landspítala og sagði í kveðjubréfi sínu til félagsmanna LÍ hafa sannfærst um að ómögulegt sé að vera í slíku umsóknar- og matsferli samhliða því að gegna þessu trúnaðarstarfi fyrir lækna: „Nokkuð ljóst er að matsferlið sem nú fer í gang mun geta tekið alllangan tíma þó erfitt sé um það að spá. Þess vegna hef ég ákveðið á þessum tímamótum að stíga til hliðar sem formaður LÍ.“ Reynir þakkaði bæði stjórn, félagsmönnum og starfsmönnum fyrir ánægjulegt og gott samstarf og traustið sem honum hefði verið sýnt með því að kjósa hann í þrígang til að gegna formennsku félagsins.

„Ég lít hreykinn um öxl hvað varðar þau mál sem hafa klárast eða verið sett á dagskrá á þeim tíma sem ég hef gegnt formennsku í LÍ. Í þeim áfangasigrum eiga fleiri en ég þátt, stjórnin og félagsmenn allir,“ segir hann í bréfinu. Hann sé þess fullviss að næsti kjörni formaður vinni ásamt stjórn að framgangi þeirra verkefna sem ekki sé enn að fullu lokið.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica