11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Málþing FÁSL um lækningar í bókmenntum

Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar hélt málþing um lækningar í bókmenntum þann 9. október síðastliðinn sl. Búið var að fresta málþinginu í tvígang en nú tókst loks að halda það. Fundarstjóri var Helgi Sigurðsson krabbameinslæknir.

Sölvi Björn Sigurðsson rithöfundur sagði frá bók sinni Seltu sem kom út 2019 og fékk íslensku bókmenntaverðlaunin. Bókin fjallar um ævi, námsár og störf landlæknis á Suðurlandi. Þá sagði Sölvi einnig frá bókinni Kóperniku, skáldsögu sem hann er með í smíðum. Þar koma læknar og læknanemar við sögu. Sölvi ræddi nokkuð um tengsl læknisfræði og bókmennta og að margir læknar hefðu jafnframt verið rithöfundar.

Ari Jóhannesson lyf- og innkirtlalæknir hefur gefið út nokkrar bækur, bæði skáldsögur og ljóðabækur. Hann fjallaði um bókina Urðarmána sem gerist 1918 í spænsku veikinni. Aðalsöguhetjan er landlæknirinn sem heitir Arngrímur í bókinni en þar er augljóslega átt við Guðmund Björnsson sem var landlæknir á þessum tíma. Hann var gagnrýndur mjög fyrir að hafa sýnt af sér andvaraleysi og hroka. Ari ræddi einnig kókaínneyslu hans en kókaínnotkun þekktist meðal lækna á þessum tíma.

Guðrún Steinþórsdóttir sem er doktor í íslenskum bókmenntum, fjallaði um sjálfsævisögur Málfríðar Einarsdóttur en hún skrifaði ítarlega um veikindi sín og sjúkdómseinkenni í sjálfsævisögunum. Sérstakar eru lýsingarnar á því sem hún kallaði Svörtupísl og það var nafn sem hún notaði á þunglyndið sem hrjáði hana.

Kristín Svava Tómasdóttir skáld og sagnfræðingur fjallaði um bók sína Hetjusögur sem er ljóðabók byggð á ritinu Íslenskar ljósmæður I-III sem Sveinn Víkingur bjó til prentunar. Öll ljóðin í bók Kristínar Svövu byggjast á orðum sem er að finna í riti Sveins.

Málþingið endaði á því að þau Óttar Guðmundsson læknir, Jóhanna V. Þórhallsdóttir söngkona og Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari fluttu dægurlög þar sem áherslan var á slys, skurðaðgerðir og sjúkdóma.

Myndin sem fylgir er af síðasta atriðinu. Hellt var upp á kaffi og boðið upp á þjóðlegt kaffibrauð.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica