11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Fjögur ný í stjórn LÍ: Ingibjörg Kristjánsdóttir, Guðmundur Örn Guðmundsson, Margrét Ólafía og Oddur Steinarsson

Fjögur hafa stigið ný inn í stjórn Læknafélags Íslands. Guðmundur Örn Guðmundsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir fyrir Læknafélag Reykjavíkur, Margrét Ólafía Tómasdóttir, nýr formaður Félags íslenskra heimilislækna, og Oddur Steinarsson einnig fyrir FÍH.

Alma Gunnarsdóttir og Þórarinn Guðnason fulltrúar LR, Jörundur Kristinsson og Salóme Á.Arnardóttir, fyrrum formaður, bæði fulltrúar Félags íslenskra heimilislækna hverfa úr stjórninni.

Oddur var kosinn varaformaður stjórnarinnar á aukastjórnarfundi miðvikudaginn 13. október en kosningu ritara var frestað fram yfir aðalfund Læknafélagsins. Á aukafundinum var einnig farið yfir lokafrágang lagabreytingatillagna stjórnar og tillagna til ályktana fyrir aðalfund félagsins sem haldinn var á Reykjavík Natura í lok mánaðarins.

Guðmundur Örn sem verið hefur varaformaður LR tekur við formennskunni af Þórarni Guðnasyni sem tilkynnti að hann færi í leyfi frá formennskunni frá byrjun nóvember. Ingibjörg Kristjánsdóttir verður hinn fulltrúi félagsins í stjórninni. Í stjórn LR sitja nú auk Guðmundar Arnar og Ingibjargar þau Steingerður Sigurbjörnsdóttir, Tryggvi Helgason og Anna Björnsdóttir.

Stjórn FÍH er nú skipuð Jóhönnu Ósk Jensdóttur, Berglindi Gunnarsdóttur, Gunnari Geirssyni, Jóni Torfa Halldórssyni, Kristni Loga Hallgrímssyni, Unni Þóru Högnadóttur og Þórdísi Önnu Oddsdóttur ásamt þeim Margréti og Oddi.

Stjórn LÍ skipa ásamt þeim Guðmundi, Margréti og Oddi, Reynir Arngrímsson formaður, Guðrún Dóra Bjarnadóttir, Theódór Skúli Sigurðsson, Þórdís Þorkelsdóttir, Árni Johnsen og Ragnheiður Halldórsdóttir.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica