10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Um daginn og veginn. Davíð Gíslason

Við lifum á undarlegum tímum. Kóvid hefur umturnað lífi margra okkar og þessi veiruskömm er óvinur þjóðarinnar nr. 1. Þegar ég var ungur læknanemi var sagt að inflúensan væri besti vinur gamla mannsins, því ef hún kæmi í heimsókn tækju allar áhyggjur skjótan enda nema áhyggjur ættingjanna sem þyrftu að sjá um útförina. Þetta viðhorf á nú líklega ekki marga talsmenn lengur. Sagt er að sá sem ekki óttast dauðann óttist ekkert, og það er kosturinn við að verða gamall að þá fækkar ástæðum óttans og margir nálgast þá aftur barndóminn og geta leyft sér að benda á nýju fötin keisarans.

Þökk sé kóvid hefur heilbrigðiskerfið verið mikið í sviðsljósinu undanfarið. Neyðaróp hafa heyrst frá Landspítala og sérstaklega frá bráðamóttökunni. Það er eins og eilíf vandamál Landspítala séu náttúrulögmál, svona eins og aðdráttarsvið jarðar. Fyrir mörgum árum var einn af kennurum mínum spurður frétta af spítalanum. „Þar sést aldrei glaður maður,“ var svarið. Annar kollega taldi einsýnt að spítalinn hefði verið byggður á álagabletti. Þetta er auðvitað hótfyndni, en kannski með einhverju sannleikskorni.

En flest hefur sínar skýringar. Það líður engum vel í allt of þröngum fötum. Eftir að spítalarnir voru sameinaðir hefur rúmum fyrir bráðveika sjúklinga fækkað um nærri 40%, þjóðinni hefur fjölgað um þriðjung og hér iðar samfélagið af útlendingum. Því er spítalanum allt of þröngur stakkur skorinn, sem bitnar kannski harðast á bráðamóttökunni við að finna sjúklingunum pláss.

Það er kvartað yfir skorti á mannafla. Sérnámslæknar hafa ekki beinlínis verið hvattir til að koma heim eftir sérnám. Þeir hafa jafnvel átt í málaferlum við stjórnvöld til að fá að hefja hér störf þótt þörfin fyrir þá sé æpandi.

Það er ekki hvað síst kvartað yfir ófullnægjandi fjárframlögum til Landspítalans. Þrátt fyrir það hafa framlög til spítalans hækkað verulega undanfarin ár, en vafalaust þarf enn að bæta í.

Í Morgunblaðinu 16. ágúst síðastliðinn var viðtal við forstjóra Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi. Hann hefur þekkt lögmál Parkinsons, og þegar hann kom til starfa sagði hann upp 550 yfirmönnum og millistjórnendum á skrifstofu spítalans. Það beinir sjónum að skrifstofu Landspítalans þar sem meðal fjölda deilda eru lögfræðideild og samskiptadeild og fjórar deildir sem fást við fjármálin: Hagdeild, kjaradeild, launadeild og fjármáladeild.

Er öll þessi yfirbygging nauðsynleg? Er ekki rétt að fara yfir öll starfssvið spítalans og kanna hvort ekki er hægt að finna lausnir sem kosta minna eða úthýsa einhverju til annarra og ódýrari valkosta? Hvers vegna ekki að bera saman kostnað á spítalanum við sam-bærileg störf og rannsóknir hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum?

Svarið við því hvers vegna það hefur ekki verið gert er kannski að finna í greinarkorni eftir heilbrigðisráðherrann í Morgunblaðinu 13. ágúst 2018. Þar segir meðal annars: „Heilbrigðiskerfi þar sem mikilvægir þættir kerfisins, svo sem sérfræðiþjónusta lækna, heilsugæsla og önnur fyrirtæki sem bjóða upp á heilbrigðisþjónustu, eru reknir með gróðasjónarmið í huga er ekki gott fyrir sjúklinga.“

Það er svo ráðherrans að ákveða hvaða fyrirtæki það eru sem rekin eru með gróðasjónarmið í huga. Það gæti verið Læknasetrið, þar sem 98% viðskiptavinanna hafa lýst sig ánægða með þjónustuna, eða Salastöðin, sem bæði hefur reynst ódýr í rekstri og afar vinsæl meðal viðskiptavinanna. Og af sérstakri umhyggju fyrir sjúklingum hefur ráðherrann sent þá í aðgerðir til Svíþjóðar, í stað þess að þær séu gerðar í einkarekstri hér heima, og borgað þrefalt gjald fyrir. Það er gott fyrir sjúklingana!

Ráðherrann er ekki sú fyrsta sem trúir því að einkarekstur snúist eingöngu um gróða. Það eru að vísu fá ríki sem praktísera þessa kenningu nú orðið, þótt nöfn Norður-Kóreu og Venesúela komi upp í hugann. Hvað í ósköpunum kemur ráðherranum til að trúa því að læknar, sem verja nærri 20 árum í nám og starfsþjálfun eftir skyldunámið og hafa svarið eið að góðum og heiðarlegum starfsháttum, láti ekki hag sjúklinga ganga fyrir í störfum sínum?

Ráðherrann virðist ekki þekkja fólk sem leggur hart að sér við að efla þroska og kunnáttu til að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Eru í hennar huga skilyrði fyrir því að heilbrigðisstarfsfólk láti gott af sér leiða að því sé alfarið stjórnað úr ráðuneyti heilbrigðismála?



Þetta vefsvæði byggir á Eplica