10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Dagur í lífi heimilislæknisins Sigurveigar Margrétar. Með margar vekjaraklukkur í viðbragðsstöðu

07:12 

Er með 8 mismunandi vekjaraklukkur stilltar frá 6:40-7:10 eftir ferðalag um helgina. Náði að slökkva á þeim öllum áður en ég náði viðunandi meðvitundarstigi. Sofnaði samt fyrir miðnætti í gær í fyrsta sinn frá því í lok sex ára bekkjar. Borgar sig greinilega alls ekki!

07:15 

Vakningar hefjast á heimilinu. Tveir eru útskrifaðir úr þjónustu, sá þriðji kominn niður í lágmarksþjónustu en sá fjórði enn í áskrift. Líklega einfaldara að vekja einhvern frá dauðum heldur en þetta verkefni. 

07:20 

Hraðsturta búin, greiði og bursta tennur og eyði ekki sekúndu í að snurfusa mig. Meðvitað val, því þannig vekur það meiri athygli þegar maður svo hefur sig til á tyllidögum!

07.30 

Vakningar halda áfram. Verð að eftirláta föðurnum að halda áfram.

07:40 

Hengi upp úr þvottavél, set í aðra. Dæsi hátt og vona að einhver heyri og byrji að þvo þvott. Samviskubit er mjög vanmetið í uppeldi og samböndum!

07:46 

Legg af stað í vinnu, er 6 mínútur á leiðinni sem er ótvíræður kostur. Bara 20 Heilsuverur bíða eftir gærkvöldið og nóttina, 19 lyfjaendurnýjanir þar fyrir utan. Næ í kaffi, byrja að svara því sem hægt er og senda lyf.

08:20 

Fyrsti skjólstæðingur dagsins er mættur. Er með móttöku á 10 mínútna fresti til að byrja með til að afgreiða stutt erindi, en 20 mínútna fresti eftir það. Engin erindi eins að vanda og ótrúlegustu hlutir sem allt í einu dúkka upp. Munar svakalega um að hafa hér röntgen, ómun og CT-tæki auk skjótra blóðrannsókna. Oft hægt að spara mörg sporin og klára flóknar uppvinnslur á augabragði.

12:00 

Engin móttaka í klukkustund. Svara Heilsuveru á sameiginlega rýminu okkar, sendi lyf og hleyp niður í Mathöll og gríp mér bita. Borða í dag á kaffistofunni. Þar er alls kyns frábært samstarfsfólk sem alltaf er hægt að reiða sig á að fái mann til að brosa, hinir sérgreinalæknarnir, sjúkraþjálfararnir, sálfræðingarnir og síðan samstarfsfólkið á heilsugæslunni.

13:00 

Móttakan heldur áfram. Af nógu að taka eftir hádegi. Er loks farin að þekkja suma skjólstæðinga vel á tæpum tveimur árum. COVID-vesenið seinkaði því líklega svolítið. Suma hef ég aldrei séð grímulausa eða þeir mig meira að segja. 

15:30 

Flyt mig á sameiginlegt vinnurými læknanna. Símtöl taka við og allskyns annað. Sný mér oft við og fæ álit hinna læknanna og öfugt. Gjörbreytir deginum algjörlega að sitja svona saman. „Blóð-prufur eins og arabískur veðhlaupahestur,“ segir einn í símann við sitt fólk. Aðrir eru að fá konsúlt og sumir að vinna í pappír.

17:00 

Læt eftir mér að fara á æfingu í ræktinni sem er á hæðinni líka. Hefði í dag heldur kosið að láta draga úr mér endajaxla án deyfingar en þræla mér í gegnum æfinguna þó.

18:15 

Kem heim. Enginn beinlínis sem saknaði mín svo, nema hundurinn sýnist mér reyndar, sem er kostur.

19:00 

Matur tilbúinn. Næ ekkert alltaf öllum heimilismeðlimum saman en reyni að rembast eins og rjúpan við að halda í það að flestir borði saman heitan mat. Þó ekki sé nema til að þykjast. Sumir borða á endanum grjónó úr búð örugglega, en þetta lúkkaði að minnsta kosti vel!

21:30 

Frágangur og allskonar búið. Byrja að undirbúa að vakningar næsta dags verði miklu skemmtilegri með smölun þeirra sem þurfa í háttinn. Tekur að vanda svipaðan tíma og að leysa úr langvinnum milliríkjadeilum. Er svolítið að klára pappír inn á milli í fjartengingunni líka.

23:55 

Ótrúlega margt sem mér finnst ég þurfa að klára núna. Þvo meiri þvott, horfa á eitthvað og þar fram eftir götum. Enda prófaði ég í gær að fara snemma að sofa og það virkaði hvort eð er ekkert sérstaklega. Prófa kannski aftur eftir önnur 42 ár! Stilli til öryggis 9 klukkur fyrir morgundaginn.

 

Sigurveig Margrét Stefánsdóttir er sérfræðingur í heimilislækningum á Heilsugæslunni Höfða.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica