10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Lögfræði 42. pistill. Launaseðillinn. Dögg Pálsdóttir

Samkvæmt kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélags Íslands (LÍ) eru mánaðarlaun lækna greidd eftirá fyrsta virkan dag hvers mánaðar næst á eftir vinnumánuði (grein 2.3.2). Þá eru einnig inntar af hendi aðrar greiðslur er byggjast á kjarasamningnum fyrir tímabilið frá 16. degi mánaðar til 15. dags mánaðar næst á undan greiðsludegi. Frá þessu er þó sú undantekning að þeir læknar, og raunar allir aðrir opinberir starfsmenn í sömu stöðu, sem nutu fyrirframgreiðslu mánaðarlauna 1. nóvember 1997 halda henni á meðan þeir eru óslitið í starfi og taka laun samkvæmt kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og LÍ (grein 2.3.3).

Læknar teljast dagvinnumenn með vaktskyldu. Í því felst að vinnuskylda þeirra er 40 klukkustundir í viku hverri á dagvinnutíma (grein 4.1.2), sem skilgreindur er frá kl. 8-17 á virkum dögum (grein 4.2.1). Til viðbótar hvílir á læknum yfirvinnu- og vaktskylda (grein 4.1.3). Læknum er þannig skylt að vinna yfirvinnu og taka vaktir þar sem þess er þörf. Þeir mega þó segja sig frá vaktaskyldunni þegar þeir ná 55 ára aldri. Læknar sem náð hafa 55 ára aldri og halda áfram að taka vaktir fá fyrir það sérstaka umbun, sem yngri læknar fá ekki (grein 3.3.4).

Mörg stéttarfélög hafa á síðustu misserum í samningum sínum við ríkið náð fram styttingu vinnuvikunnar niður í 36 klukkustundir á viku hjá dagvinnufólki og niður í allt að 32 klukkustundir hjá vaktavinnufólki. Ómögulegt reyndist að ná slíkri styttingu fram fyrir lækna í síðustu samningalotu og bíður sú kjarabót næstu samninga, þegar gildandi kjarasamningur aðila rennur út 31. mars 2023.

Launaseðill er kvittun launagreiðanda til launamanns fyrir greiðslu launa og launatengdra gjalda. Þess vegna ber launagreiðanda að gefa út launaseðil við hverja launaútborgun.

Launaseðill læknis á þannig að sýna sundurliðun launa á því tímabili sem launagreiðslan nær til. Launaliðirnir á launaseðlinum eru að minnsta kosti dagvinnulaunin, samkvæmt þeim launaflokki og því launaþrepi sem læknir hefur samið um við ráðningu. Hann á einnig að sýna launagreiðslur fyrir allar vaktir læknisins á launatímabilinu: staðarvaktir, gæsluvaktir, gæsluvaktir með bundinni viðveru, vinnu vegna útkalla á gæsluvakt, og svo framvegis.

Þar eiga einnig allir frádráttarliðir að koma fram, svo sem staðgreiðsla skatta og önnur opinber gjöld, lífeyrissjóðsiðgjöld, iðgjald til stéttarfélags og fleira eftir atvikum. Þá eiga upplýsingar um frítökurétt sem skapast vegna skerðingar á lágmarkshvíld á viðmiðunarsólarhring að koma fram á launaseðli (grein 4.6.3). Launaseðillinn sýnir einnig stöðu uppsafnaðs orlofs fyrir komandi orlofsár og hversu mikið er ótekið af áunnu orlofi yfirstandandi orlofsárs.

Það skiptir miklu að hver og einn læknir skoði vandlega launaseðilinn sinn um hver mánaðamót. Launaseðlar eru oftast sendir í heimabanka læknis og þar aðgengilegir.

Vandleg yfirferð launaseðils og samanburður við vinnu samkvæmt vaktaplani er eina örugga leiðin til að ganga úr skugga um að laun séu réttilega greidd samkvæmt kjarasamningi.

Flest ef ekki öll mál sem LÍ hefur farið með til dómstóla vegna túlkunar kjarasamningsins eiga rætur að rekja til þess að læknar hafa talið laun sín samkvæmt launaseðli ekki í samræmi við kjarasamning.

Eitt slíkt mál er nú til meðferðar hjá Félagsdómi og snýr að túlkun á því hvenær skal greiða fjögurra klukkustunda umbun fyrir breytingu á staðarvakt sem gerð er með minni fyrirvara en 24 klukkustundum. Í ljós kom að Landspítalinn hafði án tilkynningar til LÍ breytt framkvæmd sem LÍ taldi að gilda ætti og gilt hafði í að minnsta kosti 15 ár.

Í öðru máli sem upp kom með sama hætti var nýlega gerð dómsátt í Félagsdómi. Þar voru málavextir þeir að nokkrir læknar tóku eftir því að uppsöfnun þeirra á frítökurétti vegna hvíldartímabrota hafði breyst og dregist skýringalaust saman frá því sem áður var. Samkvæmt kjarasamningi lækna verður frítökuréttur vegna hvíldartímabrota til með þrennum hætti: a) Þegar læknir nær ekki samfelldri 11 klukkustunda hvíld á viðmiðunarsólarhring; b) fyrir hverja klukkustund sem unnin er umfram 16 klukkustundir á viðmiðunarsólarhring og c) vegna samfelldrar vinnu sem unnin er umfram 24 klukkustundir. Svo löng vinnutörn gefur raunar sérstakt aukaálag á frítökuréttinn. Þessar þrjár mismunandi tegundir hvíldartímabrota leggjast saman þannig að frítökuréttur þegar ekki næst samfellt 11 klukkustunda hvíld bætist við þann frítökurétt sem ávinnst ef einnig er unnið umfram 16 klukkustundir og umfram 24 klukkustundir.

Það sem læknarnir tóku eftir var að uppsöfnun vegna þessara hvíldartímabrota hætti að vinna saman. Leiðrétting náðist ekki fram í samskiptum við viðkomandi stofnanir svo mál var höfðað fyrir Félagsdómi. Þá fyrst virðist ríkið hafa uppgötvað að gerð hafði verið breyting á vinnuskráningarkerfinu Vinnustund, líklega árið 2019, með þeim afleiðingum að kerfið hætti að leggja saman hvert og eitt hvíldartímabrot. Af því leiddi að uppsafnaður réttur var ranglega færður sem minni en hann á að vera. Ríkið bauð dómsátt í málinu og greiddi málskostnað til LÍ vegna málarekstursins. Þess er að vænta að þeir læknar sem fyrir skerðingu urðu vegna þessa fái leiðréttingu á uppsöfnuðum hvíldartíma á næstunni. LÍ fylgist með að leiðréttingin verði og mun gera félagsmönnum sínum aðvart, svo þeir sem í þessu lentu geti gætt þess að leiðréttingar skili sér til þeirra í réttum uppsöfnuðum frítökurétti.

Síðastgreinda dæmið og fjölmörg önnur endurspegla hversu mikilvægt það er að læknar fari vandlega yfir launaseðla sína, ekki bara stundum, heldur í hverjum mánuði og láti LÍ tafarlaust vita ef þeir telja að launagreiðslur þeirra standist ekki kjarasamninginn. LÍ þekkir dæmi þess að vangoldin laun vegna mistaka við framkvæmd kjarasamnings hafa numið talsverðum fjárhæðum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica