10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Vantar geðlækna í 10 stöður á Landspítala, segir Nanna Briem

Geðþjónusta Landspítala stendur nú frammi fyrir þeim vanda að geðlæknum hefur fækkað verulega á síðustu árum. Þar sem áður voru mönnuð 30 stöðugildi eru núna 22 geðlæknar í færri en 20 stöðugildum, segir Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu Landspítala.

„Ástæðan er meðal annars sú að innan heilsugæslunnar hefur verið komið á fót geðheilsuteymum og ráðnir þangað fjölmargir geðlæknar á mjög skömmum tíma. Einnig útskrifum við ekki nógu marga sérfræðinga í geðlækningum. Það er því bráður skortur á geðlæknum,“ segir Nanna.

„Búnar hafa verið til nýjar stöður í heilsugæslunni í geðlækningum án þess að kannað hafi verið hvort mannauðurinn sé fyrir hendi. Það hefur bitnað á Landspítala og nú vantar okkur sérfræðinga til starfa,“ segir Nanna Briem. „Það hefur ekki verið horft á heildarmyndina og þetta á við um stöður geðlækna og hjúkrunarfræðinga og annarra fagstétta.“

Spítalinn keppi ekki við heilsugæsluna

Starfsemi geðþjónustu Landspítalans fer nú fram á þremur stöðum í borginni, á Landspítala við Hringbraut, á Kleppi og við Laugarásveg. „Spítalinn sinnir legudeildum, göngudeildum og bráðaþjónustu. Hér eru sérfræðingar á vöktum og hjá okkur eru alvarlegustu og flóknustu vandamálin á þessu sviði og því oft mikið álag í starfinu. Það er sannarlega jákvætt að koma á fót geðheilsuteymum innan heilsugæslunnar og spennandi að taka þátt í nýjum verkefnum og skiljanlegt að sérfræðingar skuli hafa fært sig um set en það hefur bitnað á þjónustu Landspítala. Spítalinn getur ekki keppt við heilsugæsluna þar sem álagið er minna, ekki vaktir og húsnæði og starfsaðstaðan þar betri en hér. Auðvitað getur Landspítali verið betri vinnustaður og við þurfum að bæta úr því til að laða að okkur starfsfólk.“

Nanna segir að á næstu árum muni fáir ljúka sérfræðinámi í geðlækningum, líklega tveir til þrír á næstu tveimur árum, en jákvætt sé að fleiri sýni þessari sérgrein áhuga. Námið fer fram á Landspítala og tekur 5 ár og hún segir ekki marga í sérnámi í geðlækningum ytra.

„En það eru fleiri á fyrsta og öðru ári núna en verið hefur áður. Þetta er öflugur hópur sem lofar góðu en það líða nokkur ár áður en við fáum fleiri sérfræðinga. Ég minni líka á að á næstu árum munu nokkrir sérfræðingar hætta vegna aldurs svo það verður áfram þörf á fleiri læknum og þessi þróun sýnir að verkefnum geðlækna fer stöðugt fjölgandi.“

En hvaða lausn er í sjónmáli? „Hún er kannski ekki augljós en við leituðum fyrir okkur erlendis á þessu ári og auglýstum eftir geðlæknum og erum að bræða með okkur að auglýsa aftur. Tveir læknar voru ráðnir í maí og þeir taka þátt í teymisvinnu hér og nýtast þannig vel. Mikill hluti þjónustunnar er teymisvinna þar sem geðlæknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar og fleiri stéttir koma við sögu og við teljum það hafa gefið góða raun að fá þennan liðsauka frá útlöndum,“ segir hún.

Breytingin ekki hugsuð til enda

„En ljóst er að við þurfum að draga saman þjónustuna og færa verkefni til heilsugæslunnar. Enda eru teymin þar mun betur mönnuð heldur en flest teymi geðþjónustu Landspítala. En til framtíðar þurfum við að eiga samtal við yfirvöld um hvernig við ráðum fram úr þessum skorti á sérfræðingum og öðrum fagstéttum enda má uppbygging á einu sviði ekki verða til þess að vandamál skapist á öðrum sviðum.“

Hún segir að gæta þurfi að því að geðheilbrigðiskerfið verði ekki stærra en takist að manna. „Samdráttur á Landspítala þýðir óhjákvæmilega að þjónustan við þá sem veikastir eru, með alvarlegustu geðsjúkdómana, skerðist og það er einmitt það sem er að gerast. Eflaust hefur það ekki verið ætlun stjórnvalda að málin þróuðust með þessum hætti en því miður hefur þetta ekki verið hugsað til enda.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica