9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Dagur í lífi forseta læknadeildar. Cheerios í morgunmat og fiskispjót um kvöld. Engilbert Sigurðsson

Þriðjudagur 29. júní

7:05

Vakna við fuglasöng rétt áður en vekjaraklukkan hringir. Er með vöðvaverki í baki eftir að hafa spilað 18 holu golf tvo daga í röð í fyrsta sinn í sumar. Líklega aðeins 2-3 starfsdagar eftir þar til ég hef lokið tveimur kjörtímabilum sem forseti læknadeildar og Þórarinn Guðjónsson prófessor tekur við keflinu. Tímabilinu lýkur þó ekki fyrr en niðurstöður inntökuprófsins í læknisfræði og sjúkraþjálfun hafa verið birtar, vonandi næst það fyrir vikulokin.

7:10

Sturta, Cheerios og góður kaffibolli. Fletti Fréttablaðinu á netinu á meðan.

7:30

Les yfir ólesna tölvupósta og skipulegg daginn.

8:30

Mæti á skrifstofu læknadeildar. Unnið er að lokafrágangi inntöku-prófs-ins. Að mörgu þarf að huga í loka-frá-ganginum. Starfsfólk skrifstof-unnar vandar mjög til verka við frágang gagna áður en þau fara til tveggja stærðfræðinga sem annast útreikningana.

9:00-9:30

Tek tvö símtöl og geng frá Medical Student Performance Evaluation bréfi (MSPE, áður kölluð Dean´s Letter) fyrir íslenskan lækni sem er að sækja um sérnám í Bandaríkjunum.

9:30-10:00

Svara tölvupóstum um ýmis mál tengd námi og rannsóknum.

10:00-10:30

Ingibjörg Harðardóttir prófessor sem hefur verið varadeildarforseti deildarinnar síðustu fjögur ár lítur inn til að kveðja. Ingibjörg er einstaklega vandvirkur og traustur samstarfsmaður sem hefur leitt starf Rannsóknarnámsnefndar læknadeildar í nokkur ár. Spjöllum um hvað er framundan og þökkum hvort öðru samstarfið.

10:30-12:00

Svara fleiri tölvupóst-um. Þarf svo að ganga upp á Land-spítala til að kenna þeim Rakel og Fanneyju, sérnámslæknum í heimilis-lækningum sem starfa á bráðamóttöku geðþjónustunnar í sumar, um notk-un þunglyndislyfja, með áherslu á aukaverkanir, milliverkanir, skammta-breytingar, viðbótarlyf og lyfjabreytingar. Alltaf skemmtilegir tímar og mikið spurt. Það átta sig ekki allir á því að að heimilislæknar skrifa út meiri hluta þeirra þunglyndislyfja sem notuð eru á Íslandi.

12:00-12:30

Hádegismatur á Landspítala Hringbraut með þremur góðum kollegum, tveimur krabbameinslæknum og einum meltingarfæralækni. Rætt um siðfræðikennslu fyrr og nú í læknadeild, inntökuprófið í læknisfræði og hvenær von sé á einkunnum úr því. Tvö þeirra tengjast nemum sem þreyttu prófið í ár.

12:30-13:00

Svara tölvupóstum og skilaboðum í Heilsugátt. Hringi í kjölfarið í sjúkling sem ég er með í eftirfylgd og hefur verið að glíma við versnandi þunglyndi. Breyti aðeins lyfjameðferð.

13:00-14:00

Byrja að lesa yfir ritgerð læknanema til BS-gráðu sem er unnin upp úr rannsóknarverkefni þriðja árs. Ritgerðin heitir Samfélagsleg virkni og örorka ungs fólks á Íslandi eftir snemm-íhlutun í geðrof. Vel unnin og áhugaverð.

14:00-14:45

Lokadagur fjórða árs læknanema í sumarskóla geðþjónust-unnar til undirbúnings sumarvinnu þeirra á deildum í júlí og ágúst. Í dag er komið að stuttri könnun á þekkingu þeirra eftir námskeiðið í Kahoot-forritinu. Tíu nemum skipt í 5 lið. Guðrún Dóra Bjarnadóttir kennslustjóri búin að fjárfesta í viðeigandi verðlaunum sem hún afhendir sigurliðinu. Þá er komið að einstaklingskeppni með spurningum sem reyna á almenna þekkingu. Mikil stemmning í hópnum og sigurvegarinn hlýtur útivistar-bók í verðlaun.

14:45-16:00

Tölvupóstar og símtöl.

16:00-17:00

Versla fyrir matarboð. Von á þremur læknanemum, einum sérnámslækni og einum sérfræðilækni í boð heim. Tilefnið er að þakka þeim einstaklega vel unnin aukastörf af margvíslegu tagi fyrir samnemendur og kollega í læknastétt á síðustu árum nú þegar ég er að hætta sem deildarforseti. Kaupi fisk, kjöt og oumph til að þörfum allra sé mætt. Eiginkonan tekur að sér að töfra fram ljúffengan eftir-rétt, hráköku með súkkulaði og jarðaberjum.

17:00-19:00

Meðlæti útbúið og fiskispjótum, lambakonfekti og oumph skellt á grillið. Gleðst yfir sigri Englendinga á Þjóðverjum á EM.

19:00-23:30

Einstaklega skemmtilegt kvöld hjá okkur hjónum með þessu öfluga unga fólki, þeim Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Guðrúnu Dóru Bjarnadóttur, Rögnu Sigurðardóttur, Sólveigu Bjarnadóttur og Teiti Ara Theodórssyni. Örvhentur læknanemi ber sigur úr býtum í púttkeppni með kylfu fyrir rétthenta eftir bráðabana.

 

Engilbert lét af starfi forseta læknadeildar 1. júlí. Þórarinn Guðjónsson prófessor tók þá við. Mynd/Auður Bergþórsdóttir

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica