9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Fá Ágúst Inga til að leysa leghálssýnavandann

 „Sem betur fer lærir fólk af reynslunni. Við munum ekki segja upp samningum við Danmörku fyrr en allt er farið að rúlla rétt hér heima. Það eru allir sammála um það,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson sem nú hefur tekið við stöðunni sem Kristján Odds­son gegndi hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Þetta leggst vel í mig,“ segir Ágúst Ingi, sem er fyrrum sviðsstjóri Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Spurður hvort hann líti á ráðninguna sem traustyfirlýsingu til fyrri verka svarar hann: „Ég myndi segja ósatt ef ég segist ekki líta svo á. En ég veit líka að það er ekki mörgum til að dreifa sem að hafa reynslu til að stýra verkinu.“

Margt hefur farið úrskeiðis í ferlinu frá því að skimanir og greining voru færð frá Krabbameinsfélaginu um áramót til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Konur hafa beðið mánuðum saman eftir niðurstöðum rannsókna á leghálssýnum sínum frá Danmörku. Stefnt er að því að Landspítali sjái um þær í framtíðinni og undirbúningur þess hafinn. Í tilkynningu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er miðað við áramót.

Ágúst segir konur nú geta vænst styttri biðtíma eftir svörum. „Ég held að við getum sagt að við séum komin yfir versta hjallann,“ segir hann.

„Við gerum nú allt til að koma ferlinu í viðunandi ástand. Heilsugæslan er metnaðarfull fyrir verkefninu og vill að þetta gangi vel,“ segir hann. „Ég geri mér grein fyrir því að verkefnið er feiknarstórt og flókið, þræðirnir eru margir. Þetta verður mikil vinna en það róar mig að ég hef á tilfinningunni að allir leggist á eitt að koma því í réttan farveg.“

Ágúst er ráðinn til verksins í 6 mánuði. „Svo verður framtíðin að leiða í ljós hvað verður.“ Þetta vefsvæði byggir á Eplica