7-8. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Alþingiskosningar 2021. Svör stjórnmálaflokkanna um heilbrigðisþjónustuna. 6. spurning
6. SPURNING. Lengi hefur verið vandi að manna læknisstörf í dreifbýli landsins. Í ljósi þeirrar stefnu að hver íbúi landsins hafi rétt á heimilislækni, hver er stefna framboðs ykkar varðandi læknaskort dreifbýlisins? Hver er stefna framboðsins varðandi önnur sjúkrahús en Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri?
Jafnt aðgengi óháð búsetu
Flokkur fólksins vill tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn óháð búsetu. Við viljum efla heilbrigðisstofnanir landsbyggðarinnar og auka nærþjónustu. Við viljum fjölga heimilislæknum á landsbyggðinni og sérfræðingum. Foreldrar eiga ekki að þurfa að flytja til Reykjavíkur ef barn þeirra þarfnast tiltekinnar þjónustu. Við viljum vinda ofan af þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár og koma í veg fyrir að fólk á landsbyggðinni þurfi að óttast svartíma neyðarþjónustu vegna þess hve langt er í næsta sjúkrabíl, slökkvibíl eða lögreglubíl. Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar eru lykilþættir í innviðum héraða landsins. Starfsemi sjúkrahúsa á landsbyggðinni á að vera óskert frá því sem nú er og eflaust mætti efla hana á sumum sérsviðum svo sem í liðskiptiaðgerðum. Við viljum að hjúkrunarheimili á landsbyggðinni verði efld svo að allir fái að dvelja í heimabyggð á sínum efri árum.
Vilja styrkja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni
Miðflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á að styrkja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og snúa þannig við þeirri óheillaþróun sem hefur orðið þar undanfarna áratugi með síversnandi þjónustu og verra aðgengi að henni. Miðflokkurinn leggur áherslu á að sjúkrahúsið á Akureyri verði áfram háskólasjúkrahús og njóti sömu stöðu og Landspítalinn ásamt því að sjúkrahúsin á landsbyggðinni og heilsugæslan verði efld verulega með nútíma tækjabúnaði, læknum og hjúkrunarfólki ásamt því að standa vörð um aðgengi íbúa landsins að fullkominni heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, þar með talið geðheilbrigðisþjónustu. Miðflokkurinn hyggst þannig styrkja á ný heilbrigðisþjónustu á öllum stigum hennar enda óeðlilegt að flytja sjúklinga á milli landshluta þeim til mikils óhagræðis í öllu tilliti. Huga þarf að nýjum tæknilausnum, s.s. fjarlækningum en Miðflokkurinn leggur þó þá áherslu á að ekkert kemur í staðinn fyrir mannlega nánd.
Nýta megi námslán til að fá lækna út á land
Í stefnu Framsóknarflokksins kemur fram að ávallt skuli tryggja landsmönnum bestu heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Efla þarf fjarlækningar og þannig nýta færni sérfræðinga til þess að þjónusta alla landsmenn. Jafna þarf aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu, með því að auka þjónustu sérfræðilækna utan höfuðborgarsvæðisins með samningum við sérhæfðu sjúkrahúsin. Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að sem flestir læknanemar fái tækifæri til þess að kynnast heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni í gegnum námið. Mikilvægt er að búa til aðlaðandi vinnuumhverfi fyrir heilsugæslulækna á landsbyggðinni þannig að þeir geti hugsað sér að setjast að í viðkomandi bæjarfélögum. Nýta má námslánakerfið sem hvata fyrir fólk til þess að setjast að í dreifðum byggðum. Þá bætir Loftbrúin, sem er áherslumál Framsóknar, aðgengi að miðlægri þjónustu í höfuðborginni með 40% afslætti af heildarfarþegagjaldi. Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að heilbrigðisstofnanir landshlutanna geti rekið umdæmissjúkrahús til að sinna almennri sjúkrahúsþjónustu, á göngu- og dagdeildum eftir því sem við á, fæðingarhjálp, endurhæfingu o.fl.
Allir landsmenn fái sama aðgengi
Þeir stjórnmálaflokkar sem eingöngu hugsa um að „minnka báknið“ munu komast að þeirri niðurstöðu að best sé að flytja alla þjónustu til Reykjavíkur. Píratar eru mjög mótfallnir slíkum hugsanagangi, enda eiga allir landsmenn heimtingu á sama aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Erfiðleikar við að sækja þjónustuna á landsbyggðinni eru ekki aðeins slæmir fyrir fólk heldur dýrari fyrir samfélagið þegar upp er staðið. Um leið og við sköpum góð starfsskilyrði á landsbyggðinni fyrir heilbrigðisstarfsfólk, og aukum þannig líkur á að það ílengist þar, vilja Píratar hagnýta öll þau tækifæri sem tæknin hefur upp á að bjóða. Hvers kyns nýsköpun á sviði fjarheilbrigðisþjónustu, samhliða auknum stuðningi við spítala og heilsugæslustöðvar landsbyggðarinnar, er einhver öflugasta og mikilvægasta byggðastefna sem völ er á.
Stefnunni fylgi pólitískt hugrekki og fjármagn
Samfylkingin telur mikilvægt að skilgreina betur stöðu Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri gagnvart öðrum veitendum heilbrigðisþjónustu, sem þó hefur að einhverju leyti verið gert með heilbrigðisstefnu sem samþykkt var á Alþingi. En slíkri stefnu þarf að fylgja pólitískt hugrekki og fjármagn. Samfylkingin vill fela Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri að tryggja jafnt aðgengi landsmanna að sérhæfðri þjónustu með samningum við heilbrigðisstofnanir í öllum landshlutum, bæði með stað- og fjarlækningum. Þá vill Samfylkingin að kannaður verði grundvöllur til frekari menntunar í lækningum við Háskólann á Akureyri í samvinnu við Sjúkrahúsið þar nyrðra. Stjórnvöld ættu einnig að ganga til samninga við sérfræðilækna um að sjá íbúum dreifðari byggða fyrir þjónustu og þá mætti einnig íhuga að skapa hagræna hvata fyrir heilbrigðisstarfsfólk að sinna heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð þannig að ekki væri um uppgripavinnu að ræða heldur stöðuga veitingu þjónustu fyrir alla landsmenn. Nýta þarf framfarir í tæknilausnum og auka fjarlækningar þar sem því verður við komið. Nýta þarf kragasjúkrahúsin mun betur með auknu fjárframlagi og mönnun. Við ákvarðanatöku um niðurskurð til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hafa stjórnvöld neytt rekstraraðila til að loka á einstaka þjónustu sem flyst þá öll yfir á biðlista á Landspítala, notendum og veitendum þjónustunnar til tjóns. Vinda þarf ofan af þessu svo tryggja megi bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu.
Mikilvægt að auka nýsköpun og fjarheilbrigðisþjónustu
Það mikilvægt að það sé ákjósanlegt og spennandi fyrir lækna að starfa í öllum byggðum landsins segir Sjálfstæðisflokkurinn. Starfsumhverfið þarf að vera aðlaðandi og tækifæri til staðar fyrir lækna til að verða frumkvöðlar í að byggja upp öfluga starfsemi á landsbyggðinni, rétt eins og á höfuðborgarsvæðinu.
Í þessu samhengi skiptir miklu að auka enn við nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og þá ekki síst fjarheilbrigðisþjónustu, þannig að færa megi þjónustuna nær notendum óháð búsetu.
Traust heilbrigðisþjónusta víða í forgang
Í fámennu landi er ljóst að sérþekking líkt sú sem liggur innan Landsspítala og eftir atvikum Sjúkrahússins á Akureyri verður ekki byggð upp á sama hátt víðar um landið segir Viðreisn. Að sama skapi er ljóst að dreifbýlið gerir að verkum að við verðum að hafa trausta heilbrigðisþjónustu víða. Sú vinna þarf að njóta forgangs á næsta kjörtímabili.
Skilgreina verður betur lágmarksréttindi almennings varðandi aðgengi að heilbrigðiskerfi og taka mið af fjarlægð frá þjónustu. Það er mikilvægt að við þá vinnu verði leitað í smiðju heilbrigðisstofnana/sjúkrahúsa í landsbyggðunum sem best þekkja til aðstæðna á hverjum stað.
Við höfum mikið svigrúm til að bæta fjarþjónustu í landsbyggðunum. Forsenda þess er að tryggja örugg fjarskipti, ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn um allt land. Forsendan er einnig að tryggja nauðsynlegan tækjabúnað og þekkingu á honum í dreifðari byggðum. Með tölulegum markmiðum um fjarheilbrigðisþjónustu getum við unnið gegn læknaskorti og aukið verulega þjónustu á landsbyggðinni.
Efla nám, tryggja starfskjör og aðstöðu
Á þessu kjörtímabili hefur fjöldi þeirra sem stunda nám í heimilislækningum á Íslandi stóraukist, m.a. vegna markvissra aðgerða stjórnvalda. Vonandi sjáum við fyrir endann á þeim viðvarandi skorti á heimilislæknum sem hefur verið undanfarin ár, á næstu árum. Áfram þarf að efla nám í heimilislækningum á Íslandi og tryggja að starfskjör og aðstaða þeirra sem vinna á þeim vettvangi sé viðunandi segir VG. Stóru sjúkrahúsin tvö verða áfram burðarásar í heilbrigðisþjónustu á Íslandi og minni umdæmissjúkrahús, sem eru oft rekin í tengslum við heilsugæslustöðvar, munu í æ ríkara mæli verða að sinna almennari þáttum heilbrigðisþjónustu auk eftirmeðferðar og endurhæfingar.