7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Alþingiskosningar 2021. Svör stjórnmálaflokkanna um heilbrigðisþjónustuna. 5. spurning

5. SPURNING. Stjórnvöld senda fólk sem ekki kemst í aðgerðir á ríkisreknum heilbrigðistofnunum í aðgerðir erlendis fremur en á einkareknar læknastöðvar innanlands. Hver er afstaða framboðsins til þessa?

Tala gegn fyrirkomulaginu

Flokkur fólksins hefur ítrekað talað gegn því fyrirkomulagi. Við teljum að þetta auki áhættu sjúklinga, sniðgangi íslenska lækna og auki kostnað ríkissjóðs.

Tryggja verði ramma og nýta þekkinguna

Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að nýta þá þekkingu og menntun sem til staðar er í landinu hverju sinni. Tryggja verður að skýr rammi sé utan um þá þjónustu sem einkareknar læknastöðvar innanlands veita. Það þarf að eiga sér stað samtal við þessar stöðvar þar sem fundin verði út leið til þess að gera samning án þess að kostnaður ríkisins verði fram úr hófi. Ef ríkið er að borga fyrir þessar aðgerðir erlendis þá er að sjálfsögðu mun betra að þær séu gerðar hér heima.

Fullvalda þjóðir haldi þekkingunni í landinu

Slík niðurstaða getur aldrei verið hluti af heilbrigðisstefnu fullvalda þjóðar. Annað gildir um afar sérhæfðar aðgerðir sem ekki er unnt að framkvæma á Íslandi segir Miðflokkurinn. Það er eðlilegt að við leitum liðsinnis færustu sérfræðinga utan landsteinanna. Ef við ætlum að tryggja framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla þá þarf heilbrigðiskerfið að vera hluti af því þekkingarþjóðfélagi sem við viljum reka á Íslandi. Því þarf að gæta þess að hér á landi sé ávallt til staðar eins mikil og ítarleg þekking og unnt er á eðli og meðhöndlun sjúkdóma. Stundum getur verið nauðsynlegt og skynsamlegt að semja um samnýtingu tækja og mannafla um lengri eða skemmri tíma við aðrar þjóðir þegar óvenjulegir og erfiðir sjúkdómar eiga í hlut. Það er hins vegar lýsandi dæmi um uppgjöf kerfisins þegar sjúklingar séu sendir til útlanda í þeim tilgangi að gera til þess að gera einfaldar aðgerðir sem kosta þar þrefalt meira en þær myndu kosta á Íslandi.

Hágæðaþjónusta umfram sparnað

Alla jafna ber ríkisstofnunum að ná sem hagstæðustum samningum í rekstri sínum segja Píratar. Í einhverjum tilvikum þýðir það að senda þarf sjúklinga erlendis. En sparnaður er langt frá því að vera eina takmark ríkisins. Í ljósi þeirrar miklu eftirspurnar sem er eftir læknum um allan heim, má hæglega sjá fyrir sér samning sem myndi ekki eingöngu tryggja sjúklingum aðgengi að hágæða þjónustu hér á landi, heldur einnig tryggja sérfræðilæknum störf hér á landi. Þannig mætti koma í veg fyrir atgervisflótta.

Forgangsröðun til að nýta fjármagnið sem best

Samfylkingin telur að það þurfi átak til að vinna á biðlistum, það átak þarf að verða með samhentu átaki á öllum stigum heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisþjónusta hér á landi hefur því miður verið svo vanfjármögnuð að biðlistar lengjast langt úr hófi. Biðlistamenningin í íslensku heilbrigðiskerfi er því miður orðin að venju frekar en hitt og nauðsynlegar aðgerðir í daglegu tali kallaðar valkvæðar. Það er ekki valkvætt að komast ekki fram úr rúmi vegna biðlista í liðskiptaaðgerðir eða komast ekki til vinnu vegna biðlista í legnám svo dæmi séu tekin. Samfylkingin telur að öflugt heilbrigðiskerfi sem er vel skipulagt, vel fjármagnað og vel mannað sé það sem mestu skiptir. Þar sem slíkt kerfi grundvallast á jöfnu aðgengi verður alltaf að forgangsraða og leita leiða til að nýta fjármuni með sem hagkvæmustum hætti.

Virkja eigi kraftinn í einkaframtakinu

Sjálfstæðisflokkurinn telur bagalegt að senda sjúklinga um langan veg út fyrir landsteinana, ef hægt er að veita sömu þjónustu hér á landi. Í þessum málum eigum við að virkja í auknum mæli kraftinn í einkaframtakinu innanlands þar sem það er mögulegt. Það er engum greiði gerður, hvorki sjúklingum, læknum né ríkissjóði, með því að leita langt yfir skammt þegar kemur að heilbrigðisþjónustu.

Fólk fái að nýta sérfræðilæknana hérlendis

Viðreisn hefur gagnrýnt fyrirkomulagið að sjúklingar séu sendir erlendis í aðgerðir þegar hægt er að framkvæma þær með lægri tilkostnaði og meira öryggi á Íslandi. Viðreisn hefur í þrígang lagt fram frumvarp sem heimilar sjúkratryggðum einstaklingi sem hefur rétt til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru EES-ríki að sækja þjónustuna hér á landi þótt samningur um heilbrigðisþjónustu við viðkomandi læknastofu (eða samsvarandi) sé ekki fyrir hendi. Skilyrði fyrir slíkri heimild er að þjónustan sé veitt af aðila sem uppfyllir allar kröfur sem til slíkrar þjónustu eru gerðar.

Ljóst er að það er mikið rask fyrir sjúklinga að vera sendir úr landi í aðgerðir enda sýna dæmin að margir treysta sér ekki í slíka för þó það sé í boði. Þessi stefna stjórnvalda er óskiljanleg, á sama tíma og hér á landi er vannýtt aðstaða og sérfræðiþekking til staðar til að framkvæma sömu aðgerðir.

Hið opinbera gangi fyrir

Forsenda þess að greitt sé fyrir þjónustu með opinberu fé er sú að fyrir liggi samningar við viðkomandi aðila um þjónustuveitingu. Slíkt hefur ekki legið fyrir innanlands í þeim tilvikum þar sem fólk hefur þegið aðgerðir utan Íslands, þó að innlendir aðilar hafi haft aðstöðu og getu til að framkvæma aðgerðir. Það er mat VG að forgangsraða skuli fjármagni í hina opinberu heilbrigðisþjónustu og að efla skuli getu heilbrigðisstofnana til að sinna ákveðnum aðgerðum áður en samið er við einkaaðila um veitingu þjónustunnar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica