7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Alþingiskosningar 2021. Svör stjórnmálaflokkanna um heilbrigðisþjónustuna. 4. spurning

4. Enginn flokkur leggst gegn einkarekinni heilbrigðisþjónustu

Allir stjórnmálaflokkarnir eru fylgjandi einkarekstri en þó með ólíkum forsendum. Hann getur samrýmst markmiðum stjórnvalda um aðgengi að þjónustu, ef hann er ekki í hagnaðarskyni, er afstaða Vinstri grænna.

Sjálfstæðisflokkurinn segir að það sé skýr afstaða sín að virkja eigi kraftinn í einkaframtakinu í auknum mæli á öllum sviðum. Viðreisn segir að ekki eigi að skipta máli hver veitir þjónustuna heldur að þjónustan sé fagleg og góð fyrir sjúkl­inginn.

Miðflokkurinn telur að óhætt að ætla að með því að auka valmöguleika í rekstri verði auðveldara að fá heimilislækna til starfa og Framsóknarflokkurinn segir blandaða leið skynsamleg leið. Flokkur fólksins er fylgjandi bæði einkareknum og opinberum heilsugæslustöðvum.

Píratar telja að enginn eigi að græða óeðlilega á heilsutapi fólks og því ein leið að banna arðgreiðslur úr rekstri heilbrigðisþjónustu. Samfylkingin vill að kjölfesta og meginþungi heilbrigðisþjónustunnar sé í opinberum rekstri.

5. Stjórnarflokkarnir ósamstiga um hvort nýta eigi einkarekna þjónustu til að vinna á biðlistum

Sjálfstæðisflokkurinn telur bagalegt að senda sjúklinga um langan veg út fyrir landsteinana, ef hægt er að veita sömu þjónustu hér á landi. Vinstri græn segja hins vegar að efla skuli getu heilbrigðisstofnana til að sinna ákveðnum aðgerðum áður en samið sé við einkaaðila um veitingu þjónustunnar. Ljóst er að stjórnar-flokkarnir eru ósamstiga.

Framsóknarflokkurinn segir að mun
betra sé að aðgerðirnar séu gerðar hér heima greiði ríkið fyrir þær erlendis en skýran ramma þurfi um þjónustuna. Flokkur fólksins segir að hann hafi ítrekað talað gegn því fyrirkomulagi. Viðreisn bendir á að flokkurinn hafi í þrígang lagt fram frumvarp sem heimili sjúkratryggðum einstaklingi sem hafi rétt til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru EES-ríki að sækja þjónustuna hér á landi. Miðflokkurinn segir ástandið nú lýsandi dæmi um uppgjöf kerfisins.

Samfylkingin telur að átak þurfi til að vinna á biðlistum á öllum stigum heilbrigðiskerfisins og Píratar telja að alla jafna beri ríkisstofnunum að ná sem hagstæðustu samningum í rekstri sínum.

6. Góð starfsskilyrði og nýsköpun talin stuðla að sterkari landsbyggð

Samfylkingin telur mikilvægt að skilgreina betur stöðu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri gagnvart öðrum veitendum heilbrigðisþjónustu. Nýta þurfi kragasjúkrahúsin betur. Píratar segja að skapa þurfi góð starfsskilyrði á landsbyggðinni fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Miðflokkurinn hyggst styrkja á ný heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni á öllum stigum hennar. Framsóknarflokkurinn bendir á að í stefnu sinni komi fram að ávallt skuli tryggja landsmönnum bestu heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.

Flokkur fólksins segir að starfsemi sjúkrahúsa á landsbyggðinni eigi að vera óskert frá því sem nú er. Sjálfstæðisflokkurinn bendir á að auka þurfi nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og þá ekki síst fjarheilbrigðisþjónustu, þannig að færa megi þjónustuna nær notendum óháð búsetu. Viðreisn telur að skilgreina verði betur lágmarksréttindi almennings varðandi aðgengi að heilbrigðiskerfi og taka mið af fjarlægð frá þjónustu.

Vinstri græn segja stóru sjúkrahúsin tvö verða áfram burðarása í heilbrigðis-þjónustunni. Áfram þurfi að efla nám í heimilislækningum og tryggja að starfskjör og aðstaða þeirra sem vinna á þeim vettvangi sé viðunandi.

 

4. SPURNING: Hver er afstaða framboðs ykkar til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu; þar á meðal einkarekinna heilsugæslustöðva?

Vilja bæði einkareknar og opinberar heilsugæslustöðvar

Flokkur fólksins er fylgjandi því að á landinu starfi bæði einkareknar og opinberar heilsugæslustöðvar.

Blandaður rekstur er leið til bættrar þjónustu

Framsóknarflokkurinn leggur fyrst og fremst áherslu á að allir geti sótt sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Framsóknarflokkurinn telur að blönduð rekstrarleið sem samanstendur af ríkisrekinni og einkarekinni þjónustu geti átt rétt á sér og geti stuðlað að bættri þjónustu. Blönduð leið er skynsamleg leið og til þess fallin að stuðla að skilvirkni og hagkvæmni. Erfitt hefur verið að fá lækna til þess að fara í sérnám í heimilislækningum. Meðal annars vegna þess að þeir hafa bara eitt form til að fara inn í, það er að starfa á ríkisreknum heilsugæslum á meðan aðrir sérgreinalæknar hafa farið í rekstur með ólíkum hætti. Framsóknarflokkurinn telur það vera skynsamlega þróun að hafa einkareknar heilsugæslustöðvar samhliða ríkisreknum. Með því má tryggja að fleiri læknar sæki sér menntun sem heilsugæslulæknar og aukin þjónusta verður í boði. Tryggja verður heilsugæslu fyrir alla, enda er heilsugæslunni ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn samkvæmt lögum.

Einkarekstur er góð viðbót

Einkareknar heilsugæslustöðvar hafa reynst góð viðbót við heilbrigðiskerfið og sannað sig með því að veita góða og vandaða þjónustu segir Miðflokkurinn. Þær hafa eflt nýliðun meðal heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu og veitt læknum val um hvort þeir starfa hjá opinberum aðilum eða reka eigin þjónustu eins og aðrir sérfræðilæknar hafa átt kost á. Óhætt er að ætla að með því að auka valmöguleika hvað varðar rekstrarform, verði auðveldara að fá heimilislækna til starfa. Það hefur verið góð reynsla af rekstri einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og sú reynsla sýnir að einkarekstur við hlið opinbers rekstrar er góð viðbót í heilbrigðisrekstri. Brýnt er að þetta fyrirkomulag nýtist einnig landsbyggðinni. Mikilvægt er að tryggja að greiðslufyrirkomulagið mismuni ekki sjúklingum og auki gegnsæi í nýtingu fjármuna óháð því hvort einkaaðili eða opinber aðili sér um reksturinn.

Einkarekstur án hagnaðar getur samrýmst markmiðum

Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er og hefur verið umtalsverður hluti af íslensku heilbrigðiskerfi segja VinstriGræn. Slíkur rekstur, ekki í hagnaðarskyni, getur samrýmst markmiðum stjórnvalda um aðgengi að þjónustu.

Einkarekstur ekki á kostnað opinbera kerfisins

Einkarekstur getur verið ágætis leið til að straumlínulaga einstaka rekstrareiningar, svo sem heilsugæslustöðvar. Það má þó aldrei verða á kostnað opinbera kerfisins, að nota fjársvelti til að réttlæta aukna einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu. Píratar telja að enginn eigi að græða óeðlilega á heilsutapi fólks eða tilraunum þess til að halda heilsu. Ein leið að því marki er að takmarka eða banna arðgreiðslur úr rekstri heilbrigðisþjónustu sem færður er til einkaaðila en telst engu að síður til grundvallarmannréttinda allra sem hér búa.

Meginþunginn í opinberum rekstri

Samfylkingin vill að kjölfesta og meginþungi heilbrigðisþjónustunnar sé í opinberum rekstri. Óhagnaðardrifinn rekstur heilsugæslustöðva getur verið valkostur en á ekki að koma í staðinn fyrir almennar opinberar heilsugæslustöðvar heldur sem viðbót þar sem slíkt getur verið valkostur. Hið opinbera verður fyrst og fremst að tryggja aðgengi allra að þessari nauðsynlegu 1. stigs heilbrigðisþjónustu en hætta er á að ef um of verður einblínt á einkarekstur í þessum málum þá muni dreifðari og fámennari byggðir fá verri þjónustu. Því miður er það raunin víða um land og er óásættanlegt. Að mati Samfylkingarinnar getur einkarekstur ekki tekið alfarið yfir þá grunnþjónustu sem hið opinbera á að veita.

Góð þjónusta óháð rekstrarformi

Það er skýr afstaða Sjálfstæðisflokksins að virkja eigi kraftinn í einkaframtakinu í auknum mæli á öllum sviðum. Þetta á ekki síst við í heilbrigðiskerfinu, þar sem oftar en ekki má veita betri þjónustu fyrir færri krónur. Það sem mestu máli skiptir í þessu eins og öðru er að góð þjónusta sé til staðar, en ekki hver veitir hana. Það á sannarlega ekki að vera keppikefli að allir þættir þjónustunnar séu beinlínis á hendi ríkisins.

Mikil ánægja hefur mælst hjá notendum einkarekinna heilsugæslustöðva í könnunum og teljum við í Sjálfstæðisflokknum ekki ástæðu til annars en að nýta áfram krafta einkaframtaksins á þessu sviði, líkt og öðrum. Við eigum að halda áfram að bjóða út starfsemi heilsugæslunnar til að auka aðgengi, hagkvæmni og skilvirkni og gera veitendum heilbrigðisþjónustu í auknum mæli kleift að starfa sjálfstætt.

Framúrskarandi þjónusta lykilatriði

Viðreisn fagnar fjölbreyttu rekstrarformi. Lykilatriðið er að almenningur njóti framúrskarandi þjónustu og að sú þjónusta falli undir greiðsluþátttökukerfi og gæðaeftirlit ríkisins. Tryggja verður jafnræði þjónustuveitenda óháð rekstrarformi.

Sjálfstætt starfandi fagaðilar (þar á meðal heilsugæslur) eru mikilvægur hluti af opinbera heilbrigðiskerfinu. Viðreisn vill nýta krafta þeirra til að styðja við ríkisrekna hluta opinbera kerfisins. Þannig getum við veitt fjölbreytta notendamiðaða þjónustu. Markmiðið verður að vera að nýta þá fjármuni sem í boði eru á sem hagkvæmastan máta til að tryggja gæðaþjónustu og almennt og jafnt aðgengi að þjónustunni.

Það á ekki að skipta máli hver veitir þjónustuna heldur að þjónustan sé fagleg og góð fyrir sjúklinginn. Við eigum að nýta alla krafta sem við höfum, við einfaldlega höfum ekki efni á því að gera það ekki.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica