7-8. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Frá öldungadeild LÍ. Verndum geðheilsu háskólanema. Helga Hannesdóttir
Í meira en áratug hafa konur verið um 70% af þeim sem ljúka háskólaprófi á Íslandi. Á þetta rætur að rekja til vanda í grunnskólanámi drengja eða eru þetta samfélagsleg áhrif? Brottfall drengja er um 50% meira en stúlkna í framhaldsskólum, sem eykur líkur á að háskólar verði kvenlægar stofnanir.
Í tannlæknadeild HÍ þarf hver nemandi sem kemst inn í deildina að þreyta samkeppnispróf að minnsta kosti tvisvar til 5 sinnum í heila önn til þess að geta haldið áfram námi í deildinni. Til samanburðar þurfa stúdentar sem hyggja á nám í læknadeild HÍ að þreyta inntökupróf að stúdentsprófi loknu áður en þeir hefja nám við deildina og aðeins 60 efstu nemendur eru teknir inn. Nemandi þarf að greiða próftökugjald kr. 20.000
Síðastliðna haustönn árið 2020 voru um 100 nemendur skráðir í tannlæknadeild HÍ en aðeins 8 þeirra fengu að halda áfram. Kynjahlutfall var yfir 90% konur og komust 7 konur og 1 karl áfram, svipað og fyrri ár. Samkvæmt athugun árið 2007-2008 voru 25 af 36 nemendum í tannlæknadeild konur, eða um 70%. Þetta hlutfall hefur hækkað þeim í vil síðustu ár. Svipað er að segja um aðrar deildir háskólans. Kynjahlutfall í læknadeild er í dag 203 konur og 119 karlar. Ójafnvægið í kynjahlutfalli nemenda skólans er umhugsunarvert fyrir deildir HÍ á sama tíma og aðgerðir eru hvarvetna í þjóðfélaginu til að jafna kynjahlutfall og jafnvel setja kynjakvóta í fyrirtækjum og ríkisreknum stofnunum. Kynjaskipting meðal prófessora innan HÍ árið 2019 var 35% konur og 65% karlar. Jafnrétti kynja innan fyrirtækja og í opinberri stjórnsýslu eykur á fjölbreytileika og gæði þjónustu.
Vilmundur Jónsson landlæknir og alþingismaður var aðalhvata-maður að stofnun tannlæknadeildar árið 1941. Í upphafi voru þrír til fjórir tannlæknanemar á ári en árið 1959 voru útskrifaðir að meðaltali 6 tannlæknar á ári. Eftir árið 2007 var samþykkt að hækka þá tölu upp í 7 á ári. Þrátt fyrir að tannlæknar hér séu fleiri en annars staðar á Norðurlöndunum virðist atvinnuleysi þeirra vera lítið. Eldra fólki fjölgar og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda mun fara ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Jafnframt hefur fjöldi ferðamanna aukist verulega og árið 2018 kom til landsins á þriðju milljón ferðamanna sem oft þurftu á tannlæknaþjónustu að halda.
Forðast ber að sóa mannauði háskólanema sem reyna að komast inn í deildir HÍ með skaðlegum samkeppnisprófum. Lítið virðist vera hugsað um líðan og geðheilsu þeirra háskólanema sem komast ekki inn í námið eða deildina og um tilfinningalegar afleiðingar þess að ná ekki þeim áfanga og árangri sem stefnt er að ár eftir ár. Nefna má til dæmis áfall sem getur varað í lengri eða skemmri tíma. Lítið er vitað um hvort prófkvíði í tannlækna- og læknadeild sé meiri en í öðrum deildum HÍ vegna álags við inntökuprófin.
Háskólaneminn sem kemst ekki inn í deildina en innritast á nýjan leik næsta haust fer óhjákvæmilega aftur á byrjunarreit í námi sínu. Tannlæknanemar sem reyna við samkeppnispróf allt að fjórum til fimm sinnum á jafnmörgum árum en komast ekki inn í deildina fá enga viðurkenningu fyrir erfitt nám í heila önn. Þeir upplifa eftir á að þeir séu í lausu lofti og þurfi að endurskoða háskólanám sitt og eigin framtíð enn á nýjan leik. Ætla má að hluti nemenda sem nær ekki inn í deildina upplifi álitshnekki og sé miður sín eftir á og það hafi áhrif á sjálfsmynd þeirra. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá HÍ fá um 1100 nemendur af 14.000 lengdan próftíma.
Nemendur sem fara í samkeppnispróf í tannlæknadeild HÍ þurfa að greiða 75.000 krónur, sem er fullt skólagjald í HÍ á ári. Ef reynt er þrisvar til fjórum sinnum við prófin greiða nemendur því um 225.000-300.000 krónur einungis í skólagjöld fyrir endurtekningar á fyrstu önn námsins. Við brottfall úr deildinni fá háskólanemar enga endurgreiðslu á skólagjaldinu. Er auðræði háskólans sett ofar en inntaka nýnema og verndun geðheilsu þeirra?
Útgjöld ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2021 er aðeins 140.490 kr. á mann til háskóla í landinu. Frá upphafi HÍ hefur skólinn fjármagnað nám nemenda úr ríkissjóði, með skólagjöldum og tekjum frá Happdrætti Háskóla Íslands. Síðastliðinn desember árið 2020 hafa þeir tannlæknanemar sem náðu ekki inn í deildina lagt fé til hennar sem nemur tæpum 7 milljónum króna.
Fyllilega tímabært er að breyta þessu inntökufyrirkomulagi í tannlæknadeild sem hefur nú verið starfrækt í 61 ár, eða frá 1959, með óverulegum breytingum.
Við inntöku í tannlæknadeild HÍ er um að ræða þrjú þriggja klukkustunda krossapróf í líffræði, efnafræði og formfræði tanna ásamt verklegum hluta – tálgun og greiningu tanna.
Óhætt er að fullyrða að það eru ekki endilega hæfustu nemendur sem komast inn í deildina í gegnum samkeppnispróf. Hugsanlega er um ómarktækan mun að ræða á milli þeirra nemenda sem komast inn og þeirra sem ekki ná inn. Dæmi er um að nemandi í 9. sæti hafi verið með sömu einkunn og nemandi í 8. sæti upp á 6 aukastafi.
Hvað getur HÍ gert til að koma betur til móts við nemendur sem ná ekki í gegnum samkeppnispróf, til þess að vernda geð-heilsu þeirra, stytta námstímabil og lækka námskostnað þeirra? Það er ekki æskilegt að lengja nám tannlæknanema upp í 9 til 11 ár til að mennta tannlækna en þá er miðað við að nýnemi þurfi að fara þrisvar til 5 sinnum í samkeppnispróf til að komast inn í deildina. Eðlilegt væri að samræma inntökuskilyrði í tannlækna- og læknadeildir á öllum Norðurlöndum, en þar er Ísland eina landið með 6 ára nám í tannlækningum í stað 5 ára, ásamt því að huga betur að geðheilsu þeirra nemenda sem fara í samkeppnispróf.
Heimildir
1. Thoroddsen B, Richter S, Elíasson SE. Fjöldi tannlækna á Íslandi - spá um fjölda tannlækna fram til ársins 2040. Tannlæknablaðið 2019; 37: 16-26.
2. Thoroddsen B, Richter S, Elíasson SE. Fjöldi tannlækna á Íslandi - spá um fjölda tannlækna fram til 2030”. Tannlæknablaðið 2008; 26: 33-8.
3. Halldórsson V, Zoëga G. Erum við tilbúin að fórna einni kynslóð drengja? Morgunblaðið, 21.2.2021.
4. Háskóli Íslands. Lykiltölur. 2020.