7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

„Við ætlum að fullmanna liðið og vinna leiki“ - markmið Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

„Okkur vantar 15 lækna og 15 hjúkrunarfræðinga, fyrir utan aðrar stéttir og stoðþjónustu,“ segir Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem opnar brátt þrefalt stærri bráðamóttöku og nýja dagdeild. Hann hefur tekið verkferla og gæðamál föstum tökum til að bæta þjónustuna og orðsporið

Um 15 lækna vantar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þetta er niðurstaða forsvarsmanna stofnunarinnar að undangenginni þarfagreiningu. Greiningin er unnin samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðuneytisins sem kveður á um að stofnanir heilbrigðisumdæma geri árlega áætlun um mönnunarþörf sem taki mið af þessari greiningu.

„Í þessu mati er ekki tekið tillit til vinnutímastyttingar. Hún mun aðeins auka á skortinn,“ segir Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri stofnunarinnar. Hann bendir á að stofnuninni sé ætlað að sinna nærri 30.000 manns, eða um 8% þjóðarinnar. Þar sé rekin bráðamóttaka í tæplega 100 fermetra húsnæði sem fái í eðlilegu árferði allt að 15.000 heimsóknir yfir árið. Árið 2019 hafi heildarafköst stofnunarinnar aukist um 13% og 20% í fyrra en þó hafi starfsemin verið rekin á sama mannafla.

Bættur spítali

„Við keppum við heilbrigðisstofnanir höfuðborgarsvæðisins um læknana og stöndum höllum fæti. Ekki aðeins vegna þess að þeir búa á höfuðborgarsvæðinu, þar sem tekjumöguleikar eru miklir, heldur ekki síður þar sem engar endurbætur hafa orðið á stofnuninni í um tvo áratugi. Þá er orðstír stofnunarinnar ekki síður fráhrindandi,“ segir Markús sem lýsir ástandinu eins og að mæta alltaf með hálft knattspyrnulið í leik, tapa og fá gagnrýni fyrir frammistöðuna rétt eins og liðið væri fullmannað.

Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, fyrir framan aðkomu sjúkrabíla á svæðinu sem leiðir inn í litla forstofu og á 100 fermetra bráðamóttöku. Unnið er að betri vinnuaðstæðum. Mynd/gag

„Við þurfum í það minnsta 5 lækna strax inn í heilsugæsluna til að bæta ástandið,“ segir hann og hefur látið hendur standa fram úr ermum frá því að hann tók við fyrir rétt um tveimur árum. Uppbygging er nú í fullum gangi. „Við ætlum að fullmanna liðið og vinna leiki,“ segir hann.

Sjúkrabíll stóð í innkeyrslunni þegar Læknablaðið heimsótti sjúkrahúsið. Bíllinn hærri en inngangurinn, en menn vanir að vinna við bágar aðstæður sem nú hillir undir að breytist. „Aðgengi fyrir sjúkrabíla er algerlega óviðunandi,“ segir Markús þegar hann sýnir aðstæðurnar. Búist er við að ný 300 fermetra bráðamóttaka og aðkoma sjúkrabíla að henni verði tilbúin í desember.

„Hér hafa stórslasaðir mætt nágranna sínum í anddyrinu. Það er ekki boðlegt,“ segir hann. En ástandið síðustu ár hefur verið trist. Á meðan bráðamóttakan er rekin í þessum 100 fermetrum á fyrstu hæðinni standa 1500 fermetrar ónotaðir í húsnæðinu. Þar á meðal skurðstofurnar tvær á þriðju hæðinni sem lokað var í bankahruninu. Húsnæðið hefur staðið ónotað í þessi 13 ár.

11 ný klínísk rými

„Hér á annarri hæðinni verður nú dagdeildarþjónusta; heilsugæslumóttaka, geðteymi og rannsóknir. Ellefu klínísk rými sem okkur munar um,“ segir Markús. En hvað skýrir að hæðin stóð auð svo lengi? Þögn. „Ég get ekki svarað af hverju hlutirnir voru ekki gerðir áður en ég kom en ég sá að það þurfti að taka til hendinni. Áfram gakk.“ En gleymdu yfirvöld Suðurnesjum?

Kennsla í lífsbjörg stóð yfir í einu herbergjanna sem nýtt verður á nýju dagdeildinni þegar Læknablaðið kom í heimsókn. Mynd/gag

„Við höfum fengið 400 milljóna króna fjárveitingu til að taka húsnæðið í gegn. Þá höfum við einnig fengið fjárveitingu til að byggja nýja heilsugæslustöð sem verður að öllum líkindum í Innri-Njarðvík. Það má því segja að við höfum fengið stuðning núna. Frumkvæðið þarf að koma frá stofnuninni sjálfri. Ef hún sýnir það ekki gerist ekki neitt.“ Hann fagni því að þau hafi verið tilbúin með allar áætlanir um breytingar þegar yfirvöld voru tilbúin að veita fé nú í heimsfaraldrinum; samtals yfir einum milljarði króna.

Markús, sem er með doktorspróf í endurskoðun og stjórnarháttum og framhaldsmenntun í framleiðsluverkfræði, kom frá Ríkisendurskoðun til HSS. „Það nýtist vel hér í dag.“ Spurður hvernig það hafi verið að sjá aðstæðurnar á spítalanum, eins og á bráðamóttökunni, svarar hann: „Sjokk.“ Spítalinn sjálfur hafi verið barn síns tíma og mörg rými ekki nýst síðustu ár. Markús röltir með blaðinu um stofnunina og opnar hurð að rými með sundlaug.

„Hún hefur staðið ónotuð, ónýt, í um 15 ár,“ segir hann. Hún á að víkja fyrir annarri starfsemi. „Við vinnum nú að því að gera breytingar sem lúta fyrst og fremst að því að efla þessa stofnun.“ Eitt sé að bæta aðstæðurnar. Annað að byggja upp orðspor. „Við hér á HSS erum mjög meðvituð um það.“ Mikil fjölmiðlaumfjöllun fyrr á árinu um ótímabær andlát sjúklinga og starfslok læknis hafi verið bakslag. Markús segir unnið að málinu með yfirvöldum og ekki tímabært að tjá sig um það.

Nýr gæðastjóri

„Við réðum gæðastjóra sem hóf störf í febrúar síðastliðnum. Hann heyrir beint undir forstjóra og starfar þvert á stofnunina. Við höfum endurskipulagt marga ferla á öllum sviðum og munum tryggja að fólk sem hingað sækir fái úrlausn sinna mála.“

Alls vantar 15 hjúkrunarfræðinga á HSS en hér er núverandi aðstaða þeirra og kaffivél við bráðamóttöku stofnunarinnar. Frá vinstri: Elísa Rut Gunnlaugsdóttir, Magnea Guðríður Frandsen, Sigríður Sigmarsdóttir, María Bára Arnarsdóttir, Eva Rós Guðmundsdóttir og Íris Kristjánsdóttir. Mynd/gag

Markús segir góða þjónustu til lengri tíma undirstöðu trausts stofnunarinnar. „Þá fylgir traustið með. Það tekur tíma og heyrir ekki til skyndilausna. Mikið verk hefur verið unnið og margt fyrir höndum. Við sjáum að við erum á réttri leið með auknum afköstum og betra aðgengi að þjónustunni. Við höldum sjó og stefnum framávið fyrir íbúa Suðurnesja.“

Sagt hefur verið frá því í fjölmiðlum að Suðurnesjamenn leiti til borgarinnar eftir þjónustunni. Markús bendir á að nærri 24.000 skráningar á stofnunina segi ekki alla söguna. Könnun Maskínu frá því í nóvember um þjónustu heilsugæsla á landsbyggðinni sýni að aðgengi að þjónustu HSS sé svipað og á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Eins hafi ekki færri skjólstæðingar á Akureyri sótt þjónustu annað en gerðu á Suðurnesjum.

„Margir sem skráðir eru á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu sækja engu að síður þjónustu til HSS. Fjöldi þeirra er talsvert meiri en þeirra sem skráðir eru á HSS og sækja þjónustu til Læknavaktarinnar eða heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Það er jákvætt að fólk sækir þjónustu til okkar, en miðað við hvernig kerfið er uppbyggt, væri æskilegast að það væri líka skráð hjá okkur. Fjárveitingar til heilsugæslustöðva í dag ráðast að miklu leyti af skráningunum.“

Fjölgar hægt og bítandi

Harðkjarni lækna hefur starfað á stofnuninni, sem leitar nú allra leiða til að fjölga læknum í hópnum. Blaðið hitti Snorra Björnsson, yfirlækni heilsugæslunar, sem kom fyrst á stofnunina á kandídatsári sínu árið 1999 og hefur starfað þar frá árinu 2007.

„Þetta hefur verið rússíbanareið,“ segir hann og vísar í fólksfjölgunina. „Aðstaðan hefur ekki verið sú besta en nú er bætt úr því og það góða er að læknum fjölgar hægt og bítandi.“ En hvers vegna kaus hann að vera á stofnun sem lokar skurðstofum og heldur rýminu tómu?

„Ég hef alltaf verið talsmaður þess að sinna öllum en ekki sérhagsmunahópum. Ég var því ekki talsmaður skurðstofanna. Ég hef barist fyrir öflugri heilsugæslu. Hún er það sem skiptir höfuðmáli, sem og slysa- og bráðaþjónustan sem við vinnum nú að því að bæta,“ segir hann. Markús tekur við.

„Við ætlum að bjóða upp á góðar starfsaðstæður. Við förum frá því að vera með verstu starfsaðstæðurnar á landinu í að vera með mjög góðar,“ segir hann. „Við erum með góðan starfsanda, öflugt fagfólk hvert sem litið er og leiðin fram á við er að byggja á því.“

En af hverju þróaðist ekki þjónustan? Þögn og svo svar: „Stofnunin hefur ekki vaxið í takti við samfélagið. Það sem við gerum nú hefði átt að gerast fyrir mörgum árum. En það hefur ekki verið fundin upp tímavél svo við getum ekki annað en horft framávið og fetað leiðina að betri framtíð,“ segir Markús.


Fá námslækna og halda í þá

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur byggt upp góð tengsl við læknadeildirnar í Ungverjalandi og Slóvakíu og sérsniðið kennsluna að náminu þar ytra. Kristinn Logi Hallgrímsson og Gunnar Þór Geirsson eru kennslustjórar í sérnáminu í heimilislækningum á stofnuninni. Kristinn hefur verið í 7 ár en Gunnar með hléum frá 2009 og óslitið frá 2018. Þeir telja HSS góðan valkost við Landspítala.

Markús Ingólfur Eiríksson forstjóri, Gunnar Þór, Kristinn Logi Hallgrímsson kennslustjóri og Snorri Björnsson, yfirlæknir heilsugæslu HSS. Mynd/gag

„Hér eru sóknartækifæri,“ segir Kristinn. Gunnar segir sérnámslæknana verða 5-6 á næsta ári. „Við höfum séð að unglæknar vilja koma aftur því við náum að sinna þeim vel og það er ein árangursríkasta leiðin til að fá lækna á svæðið. Þeir sem koma hingað ílengjast.“

En flytja þeir á svæðið? Þeir segja að allir læknar stofnunarinnar keyri af höfuðborgarsvæðinu í vinnuna. Aðeins einn er búsettur á svæðinu. „Við keyrum á móti umferð,“ segir Kristinn: „Ég hélt að aksturinn yrði fyrirstaða en svo er ekki.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica