7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Sundhöllin við Hringbraut og Sundskóli frú Svandísar. Theódór Skúli Sigurðsson

Tragikomísk skopstæling af raunveruleikanum

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Fyrir tæpum fjórum árum var mikil eftirvænting í íslenska sundheiminum og loksins tilefni til bjartsýni. Eftir áratuga þref misviturra sundspekinga um byggingu nýrrar sundhallar var loksins hafist handa við að reisa nýja sundhöll við hlið gömlu Sundhallarinnar við Hringbraut. Sundhöllin við Hringbraut var búin að mígleka í fleiri ár og endalausar endurbætur haft sligandi áhrif á rekstur Sundhreyfingarinnar. Landsmenn höfðu ítrekað krafist þess að áhrifamenn innan Sundhreyfingarinnar legðu meira fjármagn í úrbætur en talað fyrir daufum eyrum.

Núna átti loksins að bretta upp ermar og auka framlög til Sundhallarinnar. Mikil bjartsýni ríkti líka af því að Svandís nokkur hafði komist til metorða innan Sundsambands Íslands og hugðist umbylta sundskóla Sundhallarinnar. Sundstíll nýja sundskólans hafði lengi notið vinsælda í austanverðri Evrópu um miðja síðustu öld en fallið í gleymsku. Forstjóri Sundhallarinnar var himinlifandi, loksins yrði hægt endurskipuleggja reksturinn í anda Sundþríhyrningsins víðfræga. Síðustu misseri hafði forstjórinn varið miklu fjármagni í að fjölga svokölluðum sundverkstjórum við Sundhöllina til að bæta flæði sundgesta. Af óskiljanlegum ástæðum hafði aukning starfsmanna á skrifstofu Sundhallarinnar haft þveröfug áhrif á flæðið, þrátt fyrir hverja skýrsluna á fætur annarri náði biðröðin í miðasölunni alltaf út á götu. Forstjórinn var sannfærður um að með fjölgun sundverkstjóra á kostnað sundkennara yrði virkilega hægt að ráðast að rót vandans með fleiri skýrslum. Lokaniðurstaða síðustu skýrslu hafði verið að stærsta vandamálið væri gamla liðið sem héngi endalaust í heita pottinum og væri ekki einu sinni að synda í sundlauginni. Sundráð sundkennara hafði látið í ljós efasemdir um niðurstöðu skýrslunnar sem leiddi til átaka innan Sundhallarinnar. Frú Svandís hafði ausið úr skálum reiði sinnar yfir Sundráðið á hitafundi og séð til þess á endanum að ráðið var lagt niður. Allir sundkennarar sem aðhylltust sund með frjálsri aðferð voru beðnir um að yfirgefa Sundhöllina, þar sem kennsla þeirra þvældist fyrir markmiðum nýja sundskólans. Allir höfðu þurft að fórna einhverju til að rétta við rekstur Sundhallarinnar síðustu árin. Yfirstjórn Sundhallarinnar hafði meira að segja neyðst til að flytja í glæsilegar skrifstofur, fjarri byggingaskarkala nýju Sundhallarinnar, til að rýmka fyrir aðgengi gangandi sundgesta.

Núna fjórum árum eftir að Sundskóli frú Svandísar var opnaður, sér ekki ennþá fyrir endann á vandræðaganginum innan Sundhreyfingarinnar. Sundaðferð frú Svandísar að synda aðeins með vinstri hluta líkamans til að spara kraftana, hafði ekki haft tilætluð áhrif til að bæta flæðið á sundbrautunum. Á meðan skipanir sundverkstjóranna óma um Sundhöllina alla daga „vinstri, vinstri, snú“ synda sundgestirnir bara í endalausa hringi. Biðtími eftir sundkennslu er núna orðinn tæpt ár þar sem fækka þurfti sundkennurum til að ráða fleiri sundverkstjóra. Biðröðin í miðasölu Sundhallarinnar lengist og lengist því að gleymst hafði að gera ráð fyrir flóðbylgju erlendra sundgesta. Verst af öllu er samt að flæðið í nýju Sundhöllinni verður ekkert betra, þar sem teikningar af henni sýna að þar verða færri sundbrautir en í þeirri gömlu.

Yfirvöld sundmála á Íslandi ættu að hlusta oftar á íslenska afreksmenn í sundi, sem margir hverjir hafa unnið til verðlauna erlendis. Spara mætti mikla fjármuni með því að fækka ósyndum sundverkstjórum Sundhallarinnar. Aukafjármagnið mætti nýta til að fjölga aftur sundkennurum, sundbrautum og jafnvel heitum pottum í nýju Sundhöllinni.

Forystumenn Sundhreyfingarinnar þurfa að taka sig á, opna veskið og tryggja nýtingu skattpeninga betur í þágu sundgesta. Yfirstjórn Sundhallarinnar ætti að hætta óþarfa bruðli í skýrslugerðir og rifja upp upprunalegan tilgang sundiðkunar til að bæta líf og heilsu sundgesta. Loksins styttist í næstu kosningar innan Sundsambands Íslands. Vonandi verður Sundskóli frú Svandísar ekki langlífur því ljóst er að rekstur Sundhreyfingarinnar þolir ekki önnur fjögur ár af því sama.

Gamla fólkið sem byggði upp Ísland á skilið að slappa af í heitu pottunum eins lengi og það vill, án þess að það sé alltaf verið að reyna að reka það uppúr!

 

Teddi

Áhugamaður um sundÞetta vefsvæði byggir á Eplica