7-8. tbl. 107. árg. 2021

Ritstjórnargrein

Er það töluverð áskorun fyrir ráðherra að standa með Landspítala? Þorbjörn Jónsson

Þorbjörn Jónsson | sérfræðingur í ónæmisfræði og blóðgjafafræði |formaður Læknafélags Íslands 2011-2017 og Læknaráðs Landspítala

doi 10.17992/lbl.2021.0708.642

Á fundi heilbrigðisráðherra með Læknaráði Landspítala í janúar 2020 var meðal annars fjallað um bráðamóttöku spítalans. Þá mæltist ráðherranum svo: „Ég verð að nota tækifærið til að segja hér við Læknaráð að það er töluverð áskorun fyrir ráðherra að standa með Landspítala þegar það koma ályktanir á færibandi sem segja að þessi stofnun sé nánast hættuleg.“1 Greinarhöfundi varð hugsað til þessara orða ráðherrans, nú hálfu öðru ári síðar, þegar vandi bráðamóttökunnar virðist verri en nokkru sinni. Orð heilbrigðisráðherra féllu í grýttan jarðveg hjá læknum enda telja læknar það ávallt skyldu sína að benda á hættur sem ógna lífi og öryggi sjúklinga. Í kjölfar fundarins gerði ráðherra breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og nam úr gildi ákvæði um Læknaráð, sem var einbeitt og alvarleg tilraun ráðherra til að þagga niður í læknastéttinni.

Undanfarnar vikur hefur mikið farið fyrir umfjöllun um starfsemi bráðamóttöku Landspítala og Félag bráðalækna sendi í byrjun júní frá sér harðorða ályktun um óboðlegar vinnuaðstæður. Þeir ályktuðu meðal annars: „Nú þegar og í allt sumar næst ekki skilgreind neyðarmönnun bráðalækna eins og gert er ráð fyrir í verkfalli, þ.e. 7 vaktalínur. Í sumar verða að megninu til 5 vaktalínur, stundum færri. Atvinnurekendur okkar, Landspítali og íslenska ríkið, þvinga okkur og annað heilbrigðisstarfsfólk til vinnu við þessar óviðunandi aðstæður.“ Ennfremur segja bráðalæknarnir: „Það er algjörlega ljóst að á bráðadeild Landspítala er verið að stofna veikum og slösuðum sjúklingum í hættu með grafalvarlegri undirmönnun. Líkur á alvarlegum atvikum og jafnvel mannslátum í sjúklingaþjónustu eru yfirgnæfandi. Öryggi sjúklinga er ekki tryggt. Lífi og heilsu landsmanna er stefnt í hættu.“ Að lokum hnykktu bráðalæknarnir á ábyrgð stjórnenda Landspítalans og stjórnvalda: „Komi til alvarlegra atvika á bráðadeild sem rekja má til manneklu, ófullnægjandi starfsaðstöðu eða annarra tengdra þátta, vísum við allri ábyrgð á þeim atvikum til forstjóra Landspítala, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem æðsta yfirmanns heilbrigðismála, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Alþingis sem fer með fjárveitingarvald ríkisins.“ Þetta eru vissulega stór orð – en læknum ber siðferðisleg skylda til að segja frá því sem stórlega fer aflaga í heilbrigðisþjónustunni. Það er sérstaklega brýnt ef ítrekað hefur verið bent á brotalamirnar árum saman án þess að viðunandi úrbætur hafi fengist.

Á undanförnum árum hafa læknar Landspítala og samtök lækna margoft vakið athygli á málefnum spítalans og bráðamóttökunnar.2 Má meðal annars nefna Læknafélag Íslands, Læknaráð, sjúkrahúslækna og röntgenlækna. Þverfaglegt Fagráð Landspítala lýsti nýlega yfir áhyggjum af mönnun á Landspítala í sumar og ráðið tók sérstaklega undir áhyggjur bráðalækna varðandi öryggi sjúklinga. Stjórnvöld hafa látið gera úttektir og skýrslur um ágalla og úrbætur auk þess sem málið hefur verið tekið til umræðu af þingmönnum.3,4 Þrátt fyrir þetta stendur á viðunandi úrbótum og ástandið á bráðamóttökunni hefur síst batnað í áranna rás.

Aðallega hefur verið fjallað um bráðamóttöku Landspítala hér að framan, en vandinn þar er hluti af stærri vanda spítalans. Sigurbergur Kárason gjörgæslulæknir ritaði grein í Læknablaðið 2018 um veikleika í starfsemi gjörgæsludeilda spítalans.5 Hann benti meðal annars á fjölda gjörgæslurýma sem þá var undir Evrópumeðaltali. Tækjakaupafé hefur verið af skornum skammti og í fyrra sáum við að Landspítali kom vanbúinn til leiks í COVID-faraldrinum varðandi greiningu veirusjúkdóma. Of lítið tækjakaupafé er ógn við öryggi starfseminnar. Á skurðsviði hefur opinberlega verið fjallað um lokanir á skurðstofum, fækkun legurýma og aðhald í innkaupum. Afleiðingarnar litið til lengri tíma eru lengri biðlistar og lakari þjónusta við sjúklinga.

Vandamál Landspítala eru margþætt og vissulega ekki öll auðleyst. Augljóslega þarf að leysa mönnunarvandamál spítalans og gera hann að eftirsóttum vinnustað á ný fyrir lækna og aðrar heilbrigðisstéttir. Sjúklingar sem þurfa ekki lengur á þjónustu sjúkrahússins að halda þurfa að komast á viðeigandi stað, til dæmis hjúkrunarheimili eða heim með viðeigandi heimahjúkrun og aðstoð. Skoða þarf með opnum huga hvort heppilegt sé að semja við einkaaðila um slíka þjónustu. Fleiri atriði mætti tína til sem ekki gefst færi á að sinni.

Heilbrigðisráðherra, sem nú hefur setið í fjögur ár, ber ábyrgð á því að fundin sé farsæl lausn á vandamálum Landspítala. Íslenskur almenningur, sjúklingar og starfsmenn spítalans eiga það skilið. Æðstu stjórnendur heilbrigðiskerfisins eiga að hafa þau meðöl í höndum sér sem duga til úrbóta, meðal annars að fjármagna úrbætur og ráðgast við þá sem best þekkja til. Það þarf að gerast fljótt. Ætlar heilbrigðisráðherra nú að standa með Landspítala og greiða úr áralöngum og viðvarandi vanda hans?

Heimildir

 

1. Gunnarsdóttir GA, Skarphéðinsdóttir V. Heilbrigðisráðherra bað lækna um að hætta að tala spítalann niður. Læknablaðið 2020; 106: 96-7.
 
2. Gunnarsdóttir GA. Stórslys í aðsigi á bráðamóttökunni. Viðtal við Má Kristjánsson yfirlækni. Læknablaðið 2020; 106: 3.
 
3. Castegren M, Permert J. Átakshópur um lausn á löngum biðtíma eftir innlögn á bráðamóttöku Landspítala - Ytri endurskoðun. Skýrsla til heilbrigðisráðherra, dags. 20. febrúar 2020: 1-9.
 
4. Möller AD. Álit landlæknis varðandi alvarlega stöðu á bráðamóttöku Landspítalans. Minnisblað landlæknis til heilbrigðisráðherra, dags. 17. desember 2018: 1-3.
 
5. Kárason S. Tólf gjörgæslurúm á Landspítala - dugar það til? Læknablaðið 2018; 104: 333.
https://doi.org/10.17992/lbl.2018.0708.191
PMid:29972133


Þetta vefsvæði byggir á Eplica