6. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Alþingiskosningar 2021. 2. spurning. Enginn flokkanna leggst gegn sjálfstæðum rekstri sérgreinalækna

Miðflokkurinn telur að starfsemi sérgreinalækna sé ein af grunnstoðum heilbrigðiskerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn segir mikilvægt að þeim gefist færi á að stunda sjálfstæða starfsemi og verða frumkvöðlar en séu ekki dæmdir til þess að vinna eingöngu innan ríkisrekstrarformsins.

Enginn flokkanna leggst gegn samningum við sérfræðilækna. Píratar stefna að samningum við alla sérgreinalækna. Samfylkingin segir að koma verði til samstarf við sérgreinalækna til að tryggja góða heilbrigðisþjónustu. Flokkur fólksins telur að mikilvægt sé að nýta þá sérþekkingu sem íslenskir sérgreinalæknar búa yfir en um leið gera þær kröfur að sérgreinalæknar starfi ekki samhliða fyrir hið opinbera.

Framsókn segir að sú þjónusta sem nauðsynlegt sé að kaupa og veita sé í fullu samræmi við áætlanir stjórnvalda. Vinstri græn tala á svipuðum nótum og segja mikilvægt að við samningsgerð sé tryggður jafn aðgangur allra að þjónustu.

2. SPURNING

Stoðir opinbera heilbrigðiskerfisins eru þrjár: spítalar, heilsugæslan og stofur sérgreinalækna. Ríkið ver innan við 5% útgjalda til heilbrigðismála til þeirra síðastnefndu. Hver er afstaða framboðs ykkar til stofureksturs sérgreinalækna? Er að ykkar mati æskilegt að samningur sé í gildi við sérgreinalækna?

Flokkur fólksins: Mikilvægt að nýta sérþekkingu sérgreinalækna

Flokkur fólksins telur að mikilvægt sé að nýta þá sérþekkingu sem íslenskir sérgreinalæknar búa yfir. Það er fásinna að senda fólk í aðgerðir erlendis í stað þess að leyfa því að fara í sömu aðgerð niðri í bæ. Hins vegar þarf að gæta þess að hagsmunaárekstrar séu ekki til staðar. Vegna þess vill Flokkur fólksins að ríkið gangi frá samningum við sérgreinalækna en geri þær kröfur að sérgreinalæknar starfi ekki samhliða fyrir hið opinbera. Þá vill Flokkur fólksins leggja áherslu á að kostnaðargreina þá þjónustu sem sérgreinalæknar veita og auka eftirlit með útseldri þjónustu.

Framsókn: Meta þarf þjónustuþörf og bjóða um land allt

Mikilvægt er að skilgreina hvaða þjónustu ríkið ætlar sér að kaupa af sérgreinalæknum og hvaða þjónustu skuli veita inni á háskólasjúkrahúsi. Þá er mikilvægt að samningar við sérgreinalækna tryggi að þeir veiti þjónustu um land allt, án þess að heilbrigðisstofnanir landshlutanna beri aukakostnað af því. Skilgreina þarf þörfina með tilliti til eftirspurnar. Framsóknarflokkurinn telur afar mikilvægt að ávallt liggi fyrir samningar við sérgreinalækna. Þá er mikilvægt að nýta þekkingu og færni til hins ýtrasta með sem lægstum tilkostnaði og að sú þjónusta sem nauðsynlegt er að kaupa og veita sé í fullu samræmi við áætlanir stjórnvalda. Alþingi hefur samþykkt Heilbrigðisstefnu fram til ársins 2030, þar er komið inn á mikilvægi þess að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað. Meginmarkmið Heilbrigðisstefnunnar er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita á hverjum tíma til að vernda andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks.

Miðflokkurinn: Skilgreina þarf hvaða þjónustu sérgreinalæknar veita

Miðflokkurinn telur að starfsemi sérgreinalækna sé ein af grunnstoðum heilbrigðiskerfisins. Mikilvægt er að ná sátt um hvernig þessari þjónustu verður háttað. Skilgreina þarf hvaða þjónustu sérgreinalæknar veita og hvaða þjónustu eigi eingöngu að veita á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar. Skilgreina þarf hvaða þjónusta sérgreinalækna skuli veita inni á háskólasjúkrahúsi. Skipuleggja þarf sérfræðiþjónustu hvers heilbrigðisumdæmis út frá þörfum íbúanna. Í því sambandi þarf að skilgreina hvaða þjónustu sérgreinalækna er enn hægt að veita á þeim sjúkrahúsum sem í dag eiga í vök að verjast vegna erfiðleika við að manna stöður sérgreinalækna og annars heilbrigðisstarfsfólks. Ein leið til að tryggja aðgengi landsbyggðarinnar að sérfræðiþjónustu er að hlutverk spítala landsins verði skilgreint þannig að þeim beri að sjá heilbrigðisstofnunum landsins fyrir þjónustu sérgreinalækna og vinna gegn biðlistamenningu sem því miður er vaxandi í þjóðfélaginu.

Píratar: Stefna að samningum við alla sérgreinalækna

Píratar stefna að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls fyrir almenning. Aðgengi að sérgreinalæknum er þar ekki undanskilið. Því er ljóst að Píratar stefna að samningum við alla sérgreinalækna. Hlutfallsleg skipting milli heilsugæslu, sjúkrahúsa og sérgreinalækna ræðst af þörf almennings fyrir þjónustuna, ekki af Excel-skjölum heilbrigðisráðuneytisins. Píratar eru ekki á þeirri skoðun að allt heilbrigðisstarfsfólk verði að vera opinberir starfsmenn.

Samfylkingin: Samstarf við sérgreinalækna tryggi góða þjónustu

Samfylkingin vill að hér á landi sé rekið stöndugt og gjaldfrjálst opinbert heilbrigðiskerfi sem tryggir jafnari aðgang allra að nauðsynlegri og góðri heilbrigðisþjónustu. Spítalar og heilsugæsla munu ekki sinna öllum þeim verkefnum sem inna þarf af hendi í þágu heilbrigðis þjóðar og því verður einnig að koma til samstarf við sérgreinalækna til að tryggja góða heilbrigðisþjónustu, auk þess sem eingöngu þeir og aðrir sjálfstæðir rekstraraðilar sinna ákveðnum þáttum heilbrigðisþjónustu.

Stjórnvöld þurfa að axla ábyrgð á almannahagsmunum með því að vera upplýstur og gagnrýninn kaupandi þjónustunnar. Því vill Samfylkingin tryggja virkt gæðaeftirlit, hvort tveggja með einkarekinni sem og opinberri heilbrigðisþjónustu og því þarf að efla eftirlitshlutverk Embættis landlæknis til muna. Sjúkratryggingar Íslands verða að auki að sinna því lögbundna hlutverki sínu að kostnaðargreina þau verk sem keypt eru enda leiðir vanfjármögnun eingöngu til þess að þjónustuveitendur verða að minnka gæði þjónustu sem veitt er. Það þarf að tryggja jafnt aðgengi landsmanna að sérhæfðri þjónustu með samningum við heilbrigðisstofnanir í öllum landshlutum, bæði með stað- og fjarlækningum.

Sjálfstæðisflokkurinn: Sérfræðilæknum gefist færi á sjálfstæði

Þjónusta sjálfstætt starfandi sérgreinalækna byggist á gömlum grunni, allt frá upphafsárum síðustu aldar. Mikilvægt er að sérgreinalæknar sem sækja langt og kostnaðarsamt nám erlendis sjái ástæðu til að snúa aftur heim að námi loknu, þannig að nauðsynleg þekking og þjónusta verði áfram til staðar hér á landi. Í því skyni er mikilvægt að þeim gefist færi á að stunda sjálfstæða starfsemi og verða frumkvöðlar, en séu ekki dæmdir til þess að vinna eingöngu innan ríkisrekstrarformsins

Sjálfstæðisflokkurinn telur mjög mikilvægt að samningar náist við sérgreinalækna. Það er ekki síst ein af forsendum þess að allir geti sótt niðurgreidda þjónustu óháð rekstrarformi og að hér verði ekki til það sem kalla má tvöfalt heilbrigðiskerfi.

Viðreisn: Sjálfstætt starfandi fagfólk mikilvægur hluti af kerfinu

Sjálfstætt starfandi fagaðilar eru mikilvægur hluti af opinbera heilbrigðiskerfinu. Viðreisn vill nýta krafta þeirra til að styðja við ríkisrekna hluta opinbera kerfisins. Þannig getum við veitt fjölbreytta notendamiðaða þjónustu og unnið með markvissum hætti á þeim margþætta biðlistavanda sem hrjáir íslenskt heilbrigðiskerfi. Markmiðið verður að vera að nýta þá fjármuni sem í boði eru á sem hagkvæmastan máta til að tryggja gæðaþjónustu og almennt og jafnt aðgengi að þjónustunni. Þess vegna styður Viðreisn að samningar séu í gildi við sérgreinalækna.

Viðreisn leggur einnig áherslu á að aðgengi almennings að þjónustu sjálfstæðra sálfræðinga verði aukið. Þess vegna lagði Viðreisn til, og fékk samþykkt, að Sjúkratryggingar taki til nauðsynlegrar sálfræðimeðferðar og annarrar gagnreyndrar samtalsmeðferðar heilbrigðisstarfsmanna. Sú heimild hefur ekki verið nýtt eða fjármögnuð af núverandi ríkisstjórn.

Vinstri græn: Gildandi samningar um magn, tegund og gæði

Mikilvægt er að í gildi séu samningar um heilbrigðisþjónustu við allar heilbrigðisstéttir sem falla undir greiðsluþátttökukerfi ríkisins, þ.m.t. sérfræðilækna. Í slíkum samningum þarf að kveða á um magn, tegund og gæði þjónustunnar, í takti við þarfir sjúkratryggðra. Einnig er mikilvægt að við samningsgerð sé tryggður jafn aðgangur allra að þjónustu, óháð félagslegri stöðu og búsetu eða öðrum þáttum, og að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað í heilbrigðiskerfinu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica