6. tbl. 107. árg. 2021

Ritstjórnargrein

Fagfólk til forystu. Steinunn Þórðardóttir

Steinunn Þórðardóttir |sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum |yfirlæknir heilabilunar­einingar Landspítala |formaður Læknaráðs Landspítala

doi 10.17992/lbl.2021.06.638

Íslenskt samfélag býr svo vel að eiga heilbrigðisstarfsfólk í fremstu röð. Margt af því hefur dvalið langdvölum erlendis og hlotið menntun hjá virtustu háskólum og háskólasjúkrahúsum heims, aflað sér víðtækrar reynslu og þekkingar og stundað vísindastörf á heimsmælikvarða. Slíkur mannauður er ómetanlegur og hefur æ ofan í æ skipað íslenska heilbrigðiskerfinu í efstu sætin í alþjóðlegum samanburði. Í heimsfaraldri COVID-19 hafa stjórnendur heilbrigðiskerfisins borið gæfu til að treysta þessum mannauði til að leiða viðbragð okkar við faraldrinum, bæði á landsvísu og innan einstakra stofnana. Heilbrigðisstarfsfólki, sem vant er að vinna framlínustörf í beinum tengslum við sjúklinga, voru falin raunveruleg völd og heimild til að taka mikilvægar ákvarðanir með reynslu og menntun sína að leiðarljósi. Úr þessum jarðvegi spratt meðal annars COVID-19-göngudeildin, en starfið sem unnið er þar hefur hlotið einróma lof fyrir fagmennsku, skilvirkni, frábæra nálgun og stuðning við þá sjúklinga sem deildin sinnir. Á deildinni voru nýjar og snjallar tæknilausnir þróaðar á ógnarhraða og vísindastarf blómstraði.

Því miður er ljóst að þegar faraldrinum lýkur og rykið sest munu gömlu brotalamirnar í rekstri heilbrigðiskerfisins skjóta aftur upp kollinum. Sem lækni er mér hugleikin æ minni aðkoma lækna og fagfélaga þeirra að stjórnun og þeirri ákvarðanatöku sem sannanlega snýr að lækningum. Vissulega er boðað til samráðsfunda og vinnustofa með reglulegu millibili, en raunveruleg áhrif slíks samráðs á stefnumótun eru óljós, stundum engin, og eftirfylgd skortir.

Lækna- og Hjúkrunarráð Landspítala voru þurrkuð út úr lögum og aðkoma fagfólks spítalans að stefnumótun og ráðgjöf innan hans þannig torvelduð enn frekar. Brotthvarf Lækna- og Hjúkrunarráðs úr skipuriti spítalans leggur einnig stein í götu vísindastarfs innan veggja hans, sem alla jafna er talið svo nauðsynlegt. Frábær sjúkraskrárlausn, Heilsugátt, hönnuð af fagfólki í framlínunni af mikilli elju og litlum efnum, hefur ekki hlotið þann stuðning og brautargengi sem hún á svo sannarlega skilið.

Hlutverk Landspítala er illa skilgreint og of umfangsmikið, en það, auk víðtækra gloppa í kerfinu utan spítalans, birtist í útskriftarvanda, erfiðu starfsumhverfi, allt of hárri rúmanýtingu og glundroða á bráðamóttökunni. Fagfólk spítalans býr við þann veruleika að bera ábyrgð án raunverulegs valds, þar sem einstakir starfsmenn eiga á hættu að vera ákærðir fyrir mistök sem verða vegna fjárskorts, ómanneskjulegs vinnuálags og ófullnægjandi starfsumhverfis.

Dvínandi vægi vísindastarfs innan háskólasjúkrahússins með versnandi árangri í alþjóðlegum samanburði er einnig gríðarlegt áhyggjuefni.

Lykillinn að því að tryggja gæði og velsæld heilbrigðisþjónustunnar við landsmenn til framtíðar er að hlúa að mannauðnum sem þjónustuna veitir. Tryggja þarf aðkomu heilbrigðismenntaðs starfsfólks í framlínu að raunverulegri ákvarðanatöku, en hluti af því væri endurreisn Lækna- og Hjúkrunarráðs Landspítala innan ramma laganna þótt það væri einungis lítið skref í langri vegferð. Mikilvægt er að horfa á kerfið í heild, innan og utan spítalans, og tryggja að sjúklingar fái rétta þjónustu á réttum tíma og á réttu þjónustustigi og að auðvelt sé að vísa sjúklingum rétta leið í kerfinu. Enginn er betur til þess fallinn að leiða þá vinnu en fagfólkið sjálft.

Tryggja þarf vænlegt starfsumhverfi og góða öryggismenningu þar sem einstakir starfsmenn eru ekki kallaðir til ábyrgðar fyrir kerfislægar brotalamir. Forgangsraða þarf sameiginlegu sjúkraskrárkerfi á landsvísu sem samtengir alla þjónustuveitendur og er hannað af fagfólki, með þarfir fagfólks og öryggi sjúklinga að leiðarljósi.

Að lokum þarf að tryggja veg og vanda vísindastarfs á eina háskólasjúkrahúsi landsins, en öflugt vísindastarf dregur sannanlega að sér hæft og metnaðarfullt starfsfólk og skilar meira fjármagni í ríkiskassann en það tekur. Bæta mætti umgjörð vísindastarfs umtalsvert með veglegum samkeppnissjóði helguðum heilbrigðisvísindum og mun hærri fjárframlögum til vísindastarfs innan Landspítala sem eyrnamerkt væri þeim verkefnum og ekki skert þegar harðnar í ári í daglegum rekstri. Tryggja þarf vísindafólki á spítalanum verndaðan tíma og nauðsynlega innviði því til stuðnings.

Ég skora á alþingi, heilbrigðisráðherra og stjórnendur í heilbrigðiskerfinu að stórauka samráð við fagfólk í framlínu og nýta menntun þeirra og reynslu í mun ríkari mæli en nú er gert. Ég skora á sömu aðila að styrkja verulega stoðir vísindastarfs á Landspítala, en í því býr fjöregg heilbrigðisþjónustunnar til framtíðar. Við erum öll tilbúin í samtalið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica