5. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Listin í starfi og leik. Theodór Skúlason yfirlæknir. Minning um lækni eftir 50 ár. Ásgeir Theodórs

Oft reikar hugur minn til æskuáranna og skynja ég þá hversu mikil áhrif einstaka atburðir og upplifun hefur á okkur sem einstaklinga og mótar líf okkar og athafnir.

Ungur var ég til dæmis sendur í sveit að Eldjárnsstöðum í Blöndudal, sem var innsti bærinn í dalnum. Þangað var aðeins fært á hestum síðasta spölinn. Íbúðarhúsið var torfbær, byggður að íslenskum sið og ábúendur gengu örna sinna úti í náttúrunni. Í sveitina sótti ég hvert einasta sumar, sjö sumur í röð og undi mér við leik og sveitastörf. Kaldur hafragrautur og súrt slátur í næstum hvert mál. Ég tel að dvöl mín þarna hafi mótað mig sem einstakling og varð jafnvel til þess að ég lagði fyrir mig meltingarlækningar.

Theodór Skúlason fimmtugur.

Mörg sumur naut ég þess að fá að dvelja um tíma með föður mínum, Theodóri Skúlasyni lækni og móður minni Guðlínu, við silungs- og laxveiðar í Selá fyrir botni Steingrímsfjarðar.

Faðir minn skipti um ham þegar hann komst í veiðigallann og var kominn með veiðistöng í hönd til laxveiða. Þegar ég hef staðið í sömu sporum, minnist ég þess að það var hrein unun að sjá hann kasta flugunni, ýmist með Hardy-einhendu eða tvíhendu, nákvæmlega á þann stað þar sem laxinn lá. Mýktin og takturinn í sveiflunni svo og ferli línunnar var aðdáunarvert og öll athöfnin svo listræn.

Í daglegu starfi sínu var hann mjög upptekinn sem læknir og kennari og gerði greinilega miklar kröfur til sín sem slíkur. Meðvitaður um hversu krefjandi starfið var, þá var hann ekki sérlega hrifinn þegar ég tjáði honum að ég ætlaði í læknisfræði.

Örlögin réðu því svo að þegar ég var að lesa um hjartasjúkdóma í læknadeildinni lést hann vegna hjartaáfalls 62 ára gamall, árið 1970.

En sagan endurtekur sig á svo margan hátt. Við kollegarnir sem yngri erum teljum okkur þá einu sem lenda í vandræðum og eiga erfitt með að hasla okkur völl í þessu einstaka landi.

Skipsáhöfn Frekjunnar. Frá vinstri: Gísli Jónsson 1. vélstjóri, Björgvin Fredriksen 2. vélstjóri, Konráð Jónsson háseti, Theodór Skúlason háseti, Lárus Blöndal skipstjóri og Úlfar Þórðarson bryti. Gunnar Guðjónsson tók myndina. Úr bók Gísla Jónssonar: Frekjan. Ævintýralegt ferðalag sjö Íslendinga frá Danmörku um Noreg til Íslands í júlí-ágúst 1940. Ingólfur Ástmarsson gaf út í Reykjavík 1941.

Theodór tilheyrði kynslóð lækna sem höfðu háleit markmið og leituðu til útlanda, á góðar stofnanir, til frekara sérnáms. Þeir sóttu síðan fast að komast aftur heim að námi loknu, flestir án vilyrða um gull og græna skóga. Þeir lögðu ýmislegt á sig til þess að svo gæti orðið og má þar meðal annars nefna sjóferð föður míns með Frekjunni árið 1940 frá Fredrikshavn í Danmörku til Reykjavíkur, sem var mikil hættuför á þessum stríðstíma.

Eftir heimkomuna voru fullgildir sérfræðingar, á þessum tíma, oftast ráðnir í hlutastöður á Landspítala, ýmist sem aðstoðarlæknar eða deildarlæknar. Flestir þeirra störfuðu jafnframt á stofu úti í bæ til að hafa ofan í sig og á. Engin nýlunda þar á ferð.

Því miður er ekki langt síðan ég gerði mér grein fyrir þessu. Jafnframt og ekki síður hinu að Theodór var fyrstur lækna til að kynna sér hjartasjúkdóma sérstaklega á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.1

Hann var jafnframt aðaldriffjöðrin, ásamt Ólafi Geirssyni lækni, í að setja segavarnir af stað á Landspítala árið 1955.

Þá var hann ásamt Sigurði Samúelssyni prófessor og Snorra Páli Snorrasyni lækni hvatamaður að stofnun Hjartaverndar og eftir nokkurn undirbúning var kallað til stofnfundar í turnherbergi á Hótel Borg, miðvikudaginn 15. apríl 1964.2

Þá er það mjög áhugavert að sjá hvaða metnað hann hafði fyrir hjartalækningar og hvernig framtíð greinarinnar yrði best borgið. Þegar ungir vel menntaðir hjartasérfræðingar komu að spítalanum, vék hann til hliðar og einbeitti sér að efnaskipta- og innkirtlafræði. Minnist ég margra ferða hans og langra dvala á Royal Infirmary Hospital í Edinborg til að nema þessa fræðigrein. Samkvæmt umsögn Sigurðar Samúelssonar prófessors, taldi hann Theodór brautryðjanda á því sviði.1

En síðast en ekki síst og það sem honum hefði þótt vænst um að heyra var minningarkveðjan sem hann fékk frá læknanemum, en þar segir meðal annars: „Við fráfall hans sjáum við á bak okkar besta og virtasta kennara í síðasta hluta. Við sjáum á bak þeim manni sem öllum öðrum fremur reyndi að örva okkur til rökréttrar hugsunar við sjúkrabeð, reyndi að gera alla okkar utanbókarþekkingu hagnýta og var okkur um leið ímynd góðs læknis.“3

Læknisfræðin er list. Hér gildir mýktin, takturinn og ferlið. Theodór Skúlason læknir iðkaði þá list, vonandi mörgum okkar til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Heimildir

1. Magnúss GM. Landspítalabókin 1981.

2. Andersen K. Af stórhuga sigurvegurum. Læknablaðið 2008; 94: 519.

3. Morgunblaðið, 5. ágúst 1970.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica