5. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Dótturfélag Heilsuverndar tekur við öldrunarþjónustunni á Akureyri, rætt við Teit Guðmundsson
„Það er einróma álit að við tökum við góðu búi þótt rekstur Öldrunarheimila Akureyrar hafi verið áskorun,“ segir Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar
Heilsuvernd hjúkrunarheimili, sem er dótturfélag Heilsuverndar, sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækis, hefur samið við Akureyrarbæ og Sjúkratryggingar Íslands um að taka við öldrunarheimilum bæjarins frá maíbyrjun. Með samningnum bætast 320 starfsmenn í hópinn. Íbúar eru 173 í hjúkrunarrýmum, 8 í dvalarrýmum auk 35 dagdvalarrýma.
„Öldrunarheimilin eru einn stærsti vinnustaðurinn á Akureyri. Ábyrgðin er því heilmikil. Tækifærið er gríðarlega spennandi og ekkert launungarmál að við horfum til enn frekari rekstrar á heilbrigðissviði,“ segir Teitur.
„Með þessum samningi sjáum við að okkur er treyst, og trúum að svo verði áfram, fyrir hinum ýmsu verkefnum. Við þökkum fyrir það,“ segir Teitur sem var á Akureyri þegar Læknablaðið náði tali af honum.
Samningurinn byggir á þeim rammasamningi ríkisins um öldrunarheimilin sem styr hefur staðið um síðustu misseri. Fjögur sveitarfélög, Akureyrarbær fyrst, sögðu honum upp í vetur. Rekstrarstaða þjónustunnar hefur verið erfið og einkarekin öldrunarþjónustufyrirtæki hafa sagt starfsfólki upp vegna fjárskorts.
„Við þurfum að skoða stöðuna í rólegheitum og trúum að hún vænkist á næstunni,“ segir Teitur. Félagið þekki vel til, það komi nú þegar að læknisþjónustu fyrir 750 rými. „Við sjáum tækifæri til áframhaldandi þróunar í þjónustunni og væntum mikils af framtíðinni, meðal annars í kjölfar svokallaðrar Gylfaskýrslu“ segir Teitur deginum áður en skýrslan um rekstrarvanda hjúkrunarheimila var birt.
„Við erum bjartsýn. Þetta verður áskorun. Við ætlum ekki að skorast undan henni heldur standa okkur með prýði.“