5. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Ótakmarkað læknaleyfi að loknu 6. ári, segir Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, kennslustjóri við læknadeild HÍ

Almennt og ótakmarkað lækningaleyfi er nú veitt að loknu 6 ára læknanámi við Háskóla Íslands. Breytingin var staðfest með reglugerð 9. apríl. „Þetta styrkir stöðu íslenskra lækna þegar kemur að því að sækja um framhaldsnám erlendis,“  Læknanemar fá nú fullt lækningaleyfi að loknu 6. ári í stað þess að útskrifast með takmarkað lækningaleyfi og fá fullt leyfi eftir kandídatsár.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, kennslustjóri við læknadeild Háskóla Íslands, segir breytt fyrirkomulag námsins styrkja stöðu nemenda þegar þeir fara í framhaldsnám. Mynd/gag

„Nú fara útskrifaðir læknar í 12 mánaða sérnámsgrunninn eftir útskrift,“ útskýrir Þórdís Jóna. Enn sem fyrr þreyti útskriftarnemar amerískt læknapróf í lok náms. „Við höfum staðið okkur vel í því og verið á pari við, eða betri en bandaríska nemendur. Það er sá mælikvarði sem sýnir gæði námsins hér á landi,“ segir hún.

„Við munum nú nýta tímann á 6. ári námsins öðruvísi með því að breyta áherslum á valtímabilinu. Við setjum upp hæfniviðmið sem nemendur þurfa að ná. Að auki styrkjum við hermikennslu, til að mynda í bráðaveikindum. Þannig tryggjum við að nemendurnir hafi næga þjálfun í þeim atriðum þegar þau útskrifast með fullt lækningaleyfi.“

Þórdís Jóna segir viðbrögðin við breytingunum jákvæð meðal nemenda. „Þar sem fyrirvarinn á breytingunum er skammur, reynum við að sjálfsögðu að leysa úr málum sem upp koma,“ segir hún.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica