5. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Verðlaunasjóður Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarsonar


Verðlaunasjóður Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarsonar veitir veglegustu vísindaverðlaun hérlendis, 6 milljónir króna. Fyrri verðlaunahafar skipa fullverðugt landslið lífvísindamanna. Þeir eru Ingileif Jónsdóttir, Eiríkur Steingrímsson, Magnús Karl Magnússon, Magnús Gottfreðsson, Hilma Hólm, Sigurður Yngvi Kristinsson, Unnur Anna Valdimarsdóttir, Davíð O. Arnar og Runólfur Pálsson. Í stjórn sjóðsins sitja Árni Kristinsson, Steinunn Þórðardóttir og Þórður Harðarson formaður.

Verðlaunahafinn í ár er Hans Tómas Björnsson. Hann er yfirlæknir á deild erfða- og sameindalæknisfræði við Landspítala og prófessor í færsluvísindum og barnalæknisfræði við Háskóla Íslands auk kennarastöðu og yfirlæknisstöðu við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum.*

Hans Tómas hefur náð framúrskarandi árangri í rannsóknum sínum bæði í Bandaríkjunum og hérlendis. Þær hafa einkum beinst að tengslum erfða og svipgerðar ýmissa sjúkdóma. Meðal þeirra má nefna heilkenni sem við hann er kennt, Pilarowski-Bjornsson syndrome og Kabuki-heilkenni. Í doktorsnámi sýndi Hans Tómas fram á í fyrsta sinn að utangenamerki breytast með aldri. Í vísindagrein hans og samstarfsmanna um þetta efni hefur verið vitnað oftar en 700 sinnum í virtum ritum.

Hans Tómas hefur verið leiðbeinandi 9 doktorsnema og setið í 12 doktornefndum. Hann hefur hlotið mjög veglega alþjóðlega vísindastyrki og fjölmörg vísindaverðlaun.

*Sjá viðtal: Gunnarsdóttir GA. Ísland getur verið í fararbroddi við að tryggja betri heilsu fólks og erfðafræði mun gjörbylta læknisfræðinni, segir Hans Tómas Björnsson. Læknablaðið 2021; 107: 42-4.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica