5. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Verðið afmáð úr samningi Heilsugæslunnar við Hvidovre

Heilsugæslan afhenti Læknablaðinu samninginn – án aðalatriðanna. Samningur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við danska Amager og Hvidovre-sjúkrahúsið um greiningu leghálssýna var undirritaður af Óskari Reykdalssyni þann 19. febrúar síðastliðinn. Læknablaðið hefur samninginn undir höndum.

Verð og nöfn þjónustuaðila Hvidovre eru afmáð úr samningnum þar sem upplýsingarnar „eru taldar varða mikilvæga virka fjárhags- og viðskiptalega hagsmuni Hvidovre.“ Þó má sjá að Heilsugæslan greiðir fyrir hvert sýni.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í skoðun hvort leghálsskimanir verði færðar heim frá Danmörku. Mynd/gag

Sjá má að samningurinn er gerður til ársloka 2023 og má framlengja hann um ár. Honum má segja upp með þriggja mánaða fyrirvara. Samkvæmt honum er búist við að sýnin verði 20-25.000 á ári og ber Heilsugæslan ábyrgð á flutningi sýnanna til Danmerkur.

Auk samningsins óskaði Læknablaðið eftir að fá að vita hvort Heilsugæslan hefði tekið ákvörðun um að færa greiningu sýnanna til Landspítala eða annað? „Ákvörðun um það hvar rannsóknir verði gerðar er í skoðun,“ segir Óskar Reykdalsson við blaðið í tölvupósti.

Samkvæmt fréttum Ríkissjónvarpsins frá 15. apríl er þrefalt dýrara að rannsaka leghálssýni á Landspítala en í Danmörku. Heilbrigðisráðherra hafi því ekki ákveðið hvort greining leghálssýnanna verði færð en reynt verði að stytta bið eftir niðurstöðunum. Hún sé nú 8-10 vikur. Forsvarsmenn Heilsugæslunnar segja í fréttinni að biðin verði mánuður, jafnvel strax í þessum mánuði.

Læknablaðið vísar ákvörðun Heilsugæslunnar að gefa verðið ekki upp til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, eins og Heilsugæslan bendir á sem möguleika.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica