4. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Dagur í lífi umdæmislæknis sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu. Sigríður Dóra Magnúsdóttir

07:00 Vekjaraklukkan vöknuð, ekki ég. Bíð eftir næstu hringingu. Gríp símann, með aðstoð birtunnar frá skjánum opnast augun smám saman. Tek jarðskjálftastöðuna – rólegt í nótt.

07:15 Sturta og morgunverk. Rás 2 í beinni, jarðskjálftafræðingur að sjálfsögðu.

07:40 Þarf að flýta mér, einn espresso, AB-mjólk og múslí, næ í morgunlesninguna, forsíðumyndir af jarðskjálftum. Skelli hádegismatnum í töskuna, skyrdós og appelsína.

07:45 Bursta tennur, kveðja bóndann, í úlpu og út.

07:50 Það er hálka úti, ókei ég keyri hægt.

Kófið hefur ræst fram alls konar leiðir til að halda fundi á netinu: teams, zoom, google-hangout. Heilsugæslan hefur sannarlega þurft að nýta sér það. Mynd/aðsend.

08:00 Fyrsti fundur dagsins. Byrja á teams í símanum og færi mig svo í tölvuna. Bólusetningar, alltaf breytingar á skipulagi, hvað kemur í næstu viku. Hver fær hvaða bóluefni. Starfsfólk.

08:30 Skyrið fer í ísskápinn, næ mér í kaffibolla og inn á næsta fund.

08:30-10:30 Stjórnendafundur HH, í húsi í fyrsta sinn í marga mánuði. Margt að ræða, hvað er í gangi, fjármál, mannauðsmál, leghálsskimanir, COVIDsýnatökur, bólusetningar og fleira og fleira. Flottur hópur, ótrúleg samstaða. Fundurinn teygist á langinn, eftirfundur og kaffifundir gagnlegir til að leysa minni mál.

Gríp kleinu á leiðinni niður.

Nokkrar mínútur í næsta fund, opna Sögu. Ætli hún hafi komist í magaspeglun? Þarf að fylgja eftir. Fríski eldri borgarinn sem fer í sund daglega, allt í einu kvartandi, verkjuð og slöpp, blóðlaus. Eitthvað í gangi.

11:00 Fundur með skrifstofustjórum stöðva – fjarfundur í þetta skipti. Skrifstofustjórar eru lykilmenn í öllu viðmóti og þjónustu stöðva, rætt um PCR-vottorð, þjónusta við hælisleitendur og fleira, þarf allt að vera í lagi.

11:20 Sloppin út af fundinum og sest við tölvuna. Þá er það tölvupósturinn. Fyrst þarf þó að skoða dagbókina og færa móttöku. Nauðsynlegt að halda tengingu við grasrótina með smá móttökuvinnu enda fátt skemmtilegra, en þarf að losa einn dag út af bólusetningum. Móttökudagar eru fáir og því erfitt með allar tilfærslur. Móttökuritararnir í Miðbænum leysa þetta eins og annað og finna tíma sem eru varla til.

12:00 Félagarnir á efri hæð, Elínborg og Jón Steinar, á leið út í matsal, skyrið bíður. Félagslega góð næring að hitta félaga í hádegismat, líkamlega næringin meira vafamál. Kaffi og súkkulaðirúsínur í boði eftir matinn, gagnlegt samtal í kaupbæti.

Nokkrir tölvupóstar í flýti. Mikilvægt mál að afgreiða og koma góðum upplýsingum til allra.

13:05-14:00 Hleyp upp stigann, aðeins of sein. Jóhann Ágúst Sigurðsson fyrrverandi prófessor og nú heimilislæknir með fyrirlestur um sögu heimilislækninga og heilsugæslunnar. Eins og alltaf fróðlegt og skemmtilegt hjá honum. Góðar ábendingar og nóg að vinna með áfram. Endurnærandi að hlusta á faglega umræðu og jákvæða framtíðarsýn.

14:30 Fundur vinnuhóps um endurskoðun á skráningu í sjúkraskrá, góður hópur og mikilvægt mál en verð að sleppa fundinum í dag.

15:00-16:00 Náum fundi með tölvufólki Embættis landlæknis. Það verður að leysa þetta öngþveiti varðandi vottorð ferðalanga á leið úr landi. Mikið álag á stöðvar, allir í tímaþröng og stressaðir. Allir sammála, stefna að einfaldri rafrænni lausn, sett í gang.

16:00-17:30 Tölvupóstur endalaust. Játa mig sigraða að lokum, það kemur ekkert vitrænt frá mér lengur. Best að halda heim á leið.

18:00 Melabúðin að venju, kryddlegin bleikja, kartöflur og salat. Gerist varla betra.

19:00 Kvöldmatur, reyni ekki að útskýra daginn fyrir bóndanum, gott að ræða eitthvað annað.

20:00-22:00 Tek rispu á tölvupóstinum, allt of margir lausir endar, svara og hreinsa. Freistandi að sitja áfram en tekst eftir andlegar fortölur að fara út í göngutúr. Mun hressari á eftir.

23:00 Síminn minnir mig á að fara að sofa. Markmið ársins að sofa meira og lesa meira, er í hægu en öruggu ferli. Kemst í rúmið fyrir miðnætti, legg símann frá mér eftir stutt netráp, sofna þungt.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica