4. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Lausn á fráflæðisvandanum að fæðast, rætt við Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur

90 einstaklingar á Landspítala bíða viðeigandi úrræða.
Heilbrigðisráðherra fær áætlanir 9 hópa um tillögur að lausn fráflæðisvandans fyrir páska

Níu vinnuhópar hafa unnið að áætlunum um hvernig mæta á tillögum átakshóps heilbrigðisráðherra um lausn á fráflæðisvanda Landspítala. Spítalinn fjölgaði hópunum um þrjá til að ná utan um verkefnið. Þetta segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, við Læknablaðið. Ýmislegt hafi verið gert til að leysa vandann en ekki dugað til.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala. Mynd/Þorkell Þorkelsson

„Við fórum í annað. Það er ósköp einfaldlega þannig,“ segir Guðlaug Rakel og vísar til heimsfaraldursins. Hún segir stefnt að því að skila niðurstöðunum til heilbrigðisráðherra nú um páska.

Fráflæðisvandi spítalans komst í hámæli í fjölmiðlum í janúar í fyrra eftir viðtal við Má Kristjánsson, yfirlækni á smitsjúkdómadeild Landspítala, hér í Læknablaðinu. Heilbrigðisráðherra skipaði þá átakshópinn sem naut aðstoðar tveggja sænskra sérfræðinga. Þegar tillögurnar voru kynntar lagði ráðherra áherslu á nauðsyn þess að bregðast skjótt við.

Níu hópar hafa unnið að því innan Landspítala að vega og meta tillögur átakshóps um hvernig leysa eigi fráflæðisvanda spítalans. Skila á tillögum að lausn til heilbrigðisráðherra fyrir páska. Mynd/gag

Fráflæðisvandinn leystist um stund í upphafi faraldursins í fyrra við opnun hjúkrunarheimilisins að Sléttuvegi í febrúarlok. Þá komust 60 sjúklingar sem lokið höfðu meðferð á Landspítala í viðeigandi úrræði. Bráðamóttakan stíflaðist hins vegar aftur nú í byrjun mars, þrátt fyrir að hér á landi séu ekki ferðamenn, lítið álag á spítalann vegna COVID-19 og komum á bráðamóttökuna fækki. Landsmenn voru beðnir að snúa sér annað væri þess kostur.

Guðlaug Rakel segir að ekki hafi tekist að útskrifa sjúklinga af spítalanum í viðeigandi úrræði. „90 manns hafa lokið meðferð á Landspítala og bíða eftir að komast annað,“ segir hún. „Það er stóra málið í þessu öllu saman.“ Hún segir að starfsemin hafi nú verið greind, gerð spálíkön og horft á það sem hindri flæðið. En hefur ekkert verið gert síðan ástandið var sem verst?

„Jú. Við höfum tekið fleiri rúm í notkun. Allt frá árslokum 2019 höfum við fjölgað um 30 rúm.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica