4. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

„Ég er afar þakklátur því að læknar treysti mér“ segir Reynir Arngrímsson

 Traustsyfirlýsing? „Ég get ekki litið á það öðruvísi og er félögum mínum afar þakklátur fyrir þolinmæðina og stuðninginn. Enginn getur sinnt þessu starfi án þess að hafa sterkt bakland. Ég hef reynt að byggja það upp,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins til síðustu fjögurra ára. Hann er sjálfkjörinn til næstu tveggja ára en ljóst varð 16. mars að ekkert mótframboð yrði.


„Mér finnst ég enn í miðju kafi og langaði að leiða ýmis verkefni til lykta,“ segir Reynir, spurður hvers vegna hann hafi sóst eftir því að leiða félagið áfram. „Jafnréttis- og samskiptastefna og kjarasamningur eru í höfn.“ Miðlun upplýsinga til félagsmanna sé mikilvæg og fari vaxandi.

Reynir hefur verið formaður Læknafélagsins í nærri fjögur ár og á aðalfundi í október næstkomandi hefst nýtt tímabil til tveggja ára. Mynd/gag

„Ég vil stilla kúrs félagsins; fyrir hvað það stendur og um hvaða hagsmuni læknar þurfa að standa betur vörð.“ Stefnumörkun félagsins sé í farvegi. „Við skilgreinum nú markmiðin og vinnum að aðgerðaáætlun til að ná því fram sem þarf að endurskoða.“ Eitt markmiðið sé að efla félagið sem fagfélag. Til að mynda með nánari tengslum við sérgreinafélögin og eflingu Fræðslustofnunar og símenntunarmöguleika.

Reynir segir kjör lækna hafa verið helsta forgangsmálið síðustu ár. Samningur lækna á stofnunum er í höfn en enn standa samningar við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna út af borðinu. Hann segir helst hafa komið sér á óvart þessi fjögur ár sem liðin eru hve langan tíma hafi tekið að semja.

„Ég hef miklar áhyggjur af stöðu stofulækna og starfsumhverfi þeirra. Það er eitt af stóru verkefnunum núna að leggja áherslu á fjölbreytni á starfsvettvangi lækna. Tryggja frelsi þeirra til að stunda sína starfsemi og bjóða læknisþjónustu á sínum eigin stofum. Það er ótrúleg sú tregða sem hefur ríkt síðustu tvö ár að ganga ekki til samninga við lækna,“ segir hann.

„Við sjáum að yngri læknar virðast veigra sér við að fara út í eigin starfsemi við núverandi aðstæður og fáar konur sækjast eftir því.“

Hann bendir á að sjálfstætt starfandi læknar séu margir að komast á aldur. „Verulegrar endurnýjunar er þörf í hópnum til að halda uppi sama þjónustustigi. Um 40% þessara lækna hætta á næstu 6 árum og ríkið hefur ekki gert neinar ráðstafanir til að mæta þessari þróun.“ Ekki séu til innviðir innan spítalanna til að taka þjónustuna yfir, hvorki húsnæði né sjáist að fjölga eigi sérfræðilæknum þar eða til að þjónusta landsbyggðina. Því stefni í óefni, verði ekki samið og endurnýjun tryggð.

„Hitt sem hefur komið mér á óvart í starfi er hvað læknar hafa verið jákvæðir og viljugir að starfa fyrir félagið þegar ég hef leitað eftir því og ánægjulegt að kynnast nýjum og öflugum kollegum. Ég hvet lækna til að leggja félaginu lið og nýta kraftana í þágu þess, fremur en að fá útrás með dómhörku í hvatvísum skilaboðum á samfélagsmiðlum. Þannig samskipti eru ekki uppbyggileg. Við þurfum öll hvatningu, líka þeir sem taka að sér forystuverkefni fyrir félagið þó ekkert sé yfir gagnrýni hafið. Síminn er alltaf opinn og ábendingar vel þegnar,“ segir Reynir hress í bragði.

Læknar láti til sín taka

 

Læknafélagið á að vera leiðandi í umræðu um heilbrigðismál á vettvangi þjóðmálanna. Þetta segir Reynir Arngrímsson, nú með endurnýjað tveggja ára umboð til að leiða Læknafélagið. „Til þess eigum við að nota þá miðla sem félagið á,“ segir hann.

„Ég sé tækifæri, nú þegar kemur að kosningum, til að líta yfir farinn veg. Veita stjórnarflokkunum aðhald með hliðsjón af loforðum þeirra fyrir síðustu kosningar og leggja fram gagnrýnar spurningar um hvernig þeir sjái næstu ár,“ segir Reynir.

„Við læknar þurfum að vita hvernig þeir ætla að bregðast við viðvarandi vanda í heilbrigðiskerfinu; vanda stofnana og hjúkrunarheimila. Líka hvaða áætlanir þeir sjái að þurfi að gera vegna breytinga á lýðmælikvörðum. Þjóðin eldist og það þýðir aukin útgjöld til heilbrigðismála.“

Mikilvægt sé að læknar láti til sín taka og leiði umræðuna.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica