4. tbl. 107. árg. 2021

Fræðigrein

Áhrif lyfsins fampridíns á skerta göngugetu sjúklinga með MS (Multiple Sclerosis)

The effect of fampridine on gait in people with Multiple sclerosis (MS)

 doi 10.17992/lbl.2021.04.630

Ágrip

INNGANGUR
Fampridín er lyf sem virkar sem kalíumgangaloki og er ætlað sjúklingum með skerta göngugetu vegna MS (Multiple Sclerosis). Með því að loka á kalíumgöng dregur lyfið úr jónaleka, sem seinkar endurskautun og hvetur þannig myndun hrifspennu í afmýluðum taugasímum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif fampridíns á skerta göngugetu fólks með MS. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða áhrif lyfsins á göngugetu íslenskra sjúklinga með MS og athuga hve margir þeirra halda lyfjameðferð áfram eftir tveggja vikna reynslulyfjatímabil.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Þátttakendur voru 41 sjúklingur með MS sem reyndu fampridín á fyrstu 16 mánuðum notkunar þess á Íslandi. Unnið var úr sjúkraskrárgögnum Landspítala. Árangur var metinn með mælingum á gönguhraða (timed 25-foot walk, T25FW) og göngugetu (12-item multiple sclerosis walking scale, MSWS-12).

NIÐURSTÖÐUR
Niðurstöður sýndu að marktækur munur var á gönguhraða á T25FW- gönguprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Meðaltalsaukning gönguhraða var 22%. Einnig reyndist marktækur munur á stigagjöf á MSWS-12-göngumatsprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Lækkun stigafjölda á MSWS-12 gönguprófinu var að meðaltali 11,4 stig. Átján sjúklingar (43,9%) héldu lyfjameðferð áfram eftir að reynslulyfjameðferð lauk.

ÁLYKTUN
Lyfið fampridín getur bætt skerta göngugetu hjá hluta sjúklinga með MS og getur verið mikilvæg viðbót í einkennameðferð þeirra.

 Greinin barst til blaðsins 30. október 2020, samþykkt til birtingar 4. mars 2021.

Inngangur

MS-sjúkdómurinn er ein algengasta orsök hreyfiskerðingar fólks á aldrinum 18-50 ára.1,2 Hreyfiskerðing sjúklinga með MS getur leitt til truflunar á daglegum athöfnum, meðal annars vegna skertrar göngugetu og hættu á dettni. Rannsóknir sýna mishátt hlutfall skertrar göngugetu hjá þessum hópi, á bilinu 40-90%.3-5 Í rannsókn Larocca, þar sem 40% þátttakenda með MS voru með göngutruflanir, töldu 70% skerta göngugetu vera það einkenni sjúkdómsins sem væri þeim erfiðast í daglegu lífi.3 Í spurningakönnun6 þar sem sjúklingar með MS voru beðnir um að raða mismunandi líkamlegum þáttum eftir mikilvægi var göngugeta talin mikilvægust; þar á eftir komu sjón og vitræn geta (cognition). Aðspurðir um sjálfstæði í daglegum athöfnum var eitt aðaláhyggjuefnið missir getu til stöðubreytinga og að komast á milli staða. Kerfisbundin yfirlitsrannsókn frá 20107 sýndi að skert göngugeta hefur áhrif á sjúkdómsbyrði, tengist minni lífsgæðum, minni getu í daglegum athöfnum og minni atvinnuþátttöku hjá fólki með MS.7 Margir þættir hafa áhrif á göngugetu, svo sem vöðvastyrkur og vöðvaspenna, stöðuskyn, jafnvægi og samhæfing.8 Rannsóknir hafa sýnt að skert göngufærni sjúklinga með MS getur falist í minni gönguhraða, styttri skreflengd, aukinni skreftíðni, breiðari undirstöðufleti, lengri tíma þar sem báðir fætur eru samtímis í gólfi í einum gönguhring og styttri sveifluþætti miðað við heilbrigða einstaklinga. Þessar breytingar sjást jafnvel hjá fólki með MS sem hefur tiltölulega góða hreyfigetu.9,10

Best væri ef hægt væri að koma í veg fyrir að göngugeta skerðist, sem og hindra önnur einkenni sem MS-sjúkdómurinn getur valdið. Að því miðar fyrirbyggjandi lyfjameðferð sem beitt er með góðum árangri.11 Einkennameðferð sem er annaðhvort lyfjameðferð eða önnur meðferð, til dæmis sjúkraþjálfun, skiptir samt áfram miklu fyrir sjúklinga, svo sem við verkjum, blöðrueinkennum, þreytu og síspennu (spasticity). Þjálfunarprógram sem inniheldur styrk- og þolæfingar, gönguæfingar og jafnvægisæfingar getur einnig haft góð áhrif á göngugetu.12

Sérhæfð einkennameðferð sem sérstaklega er ætluð til að bæta göngugetu og gönguhraða kom til fyrir nokkrum árum þegar niðurstöður rannsóknar á lyfinu fampridín (Fampyra®) lágu fyrir. Fampridín hefur hamlandi áhrif á kalíumtilfærslu með því að loka á kalíumgöng og eykur þannig leiðni taugaboða í afmýldum taugasímum.13

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna samþykkti notkun lyfsins í Bandaríkjunum árið 2010 fyrir fólk með MS með skerta göngugetu.14 Samþykkið byggði á niðurstöðum slembiraðaðra, tvíblindra rannsókna með samanburði við lyfleysu.13,14 Niðurstöður sýndu að eftir tveggja vikna meðferð með fampridíni bættu 35% sjúklinga með skerta göngugetu vegna MS, gönguhraða sinn þegar þeir gengu stutta vegalengd (timed 25-foot walk, T25FW).15 Fjórðungur viðhélt bættum gönguhraða eftir 14 vikur. Expanded Disability Status Scale (EDSS)16 er kvarði til að meta hreyfiskerðingu og mikið notaður við val á fólki í rannsóknir á MS, meðal annars lyfjarannsóknir. Gildið 4 miðar við að sjúklingur geti gengið að minnsta kosti 500 metra án hvíldar eða stuðnings, gildin 4.5-7 taka svo til stigvaxandi gönguskerðingar, gildið 7 segir til um að sjúklingur geti gengið styttra en 5 metra og sé að mestu háður notkun hjólastóls. Þátttakendur í fampridín-rannsóknunum voru með EDSS-gildi á bilinu 2,5-7 og meðaltal 5,8. Sjúklingarnir í fam-pridín-hópnum sem juku gönguhraða sinn (timed walk responders) sýndu einnig meiri framför að meðaltali samkvæmt spurningalista um göngu í daglegu lífi (12-item multiple sclerosis walking scale, MSWS-12)17 en sjúklingar sem juku ekki gönguhraða sinn (timed walk non-responders).18-20 Lyfið er gefið í forðatöfluformi og ráðlagður dagsskammtur er ein 10 mg tafla tvisvar á dag. Lyfið skal ekki nota ef saga er um flog eða skerta nýrnastarfsemi.14,21

Fampridín fékk markaðsleyfi á Norðurlöndunum 2011-2012. Í júlí 2013 samþykktu Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiðsluþátttöku á lyfinu en krafist er lyfjaskírteinis fyrir notanda.22 Skilyrði lyfjaskírteinis frá Sjúkratryggingum Íslands eru að sjúklingur sé með MS óháð sjúkdómsgerð (kastaform eða frumkomin eða síðkomin síversnun), skerta göngugetu sem nemur EDSS 4-7 og að hún hafi verið stöðug undanfarna mánuði og þannig útilokað að göngugeta sé að versna vegna kasts eða sé í bata í kjölfar kasts. Í upphafi er lyfjaskírteini gefið út fyrir tveggja vikna lyfjaskammt. Áður en lyfjataka hefst er reglan sú hér á landi að sjúklingur hittir sjúkraþjálfara sem mælir gönguhraða hans við 7,6 m göngu (T25FW) og svarar síðan spurningalista um göngugetu sína í daglegu lífi (MSWS-12). Undir lok tveggja vikna lyfjatöku er þetta mat svo endurtekið. Ef aukning í gönguhraða er að minnsta kosti 20% á T25FW-gönguprófinu og lækkun er að minnsta kosti 4 stig á MSWS-12-spurningalistanum er greiðsluþátttaka samþykkt. Einnig er tekið tillit til þess ef um umtalsverðan ávinning er að ræða á aðra þætti sem auka lífsgæði sjúklings en þó að því gefnu að hann uppfylli annaðhvort af tveimur fyrrnefndum skilyrðum. Að þessum skilyrðum uppfylltum er lyfjaskírteini gefið út, í byrjun gilti það til eins árs en nú til tveggja. Að þeim tíma liðnum þarf endurtekið mat sjúkraþjálfara þar sem koma þarf fram að sjúklingur hafi haldið bættri getu sinni.22

Hafa þarf í huga að versnun á sjúkdómnum getur haft í för með sér að áhrif lyfsins mælist minni við endurmat, þó svo að virkni þess sé enn til staðar. Ef grunur er um slíkt er stundum gert öfugt mat, það er sjúklingur hættir þá í stuttan tíma á lyfinu og komi í ljós marktæk versnun er það talið sýna áhrif fampridíns og styður því áframhaldandi notkun þess.22

Tilgangur rannsóknar okkar var að skoða áhrif lyfsins á göngugetu sjúklinga með MS sem fyrstir fengu ávísað fampridíni hér á landi til prófunar á tveggja vikna tímabili með þá ábendingu að bæta göngugetu og hraða. Ennfremur að skoða hversu margir þeirra sem uppfylltu skilyrði áframhaldandi notkunar lyfsins héldu áfram töku þess og hversu margir hættu notkun vegna auka-verkana eða annarra ástæðna.

Efniðviður og aðferðir

Hér á landi hefur ávísun á fampridín verið bundin við taugalækna og sjúkraþjálfaramat sem að mestu hefur farið fram á Landspítala.

Rannsóknin var afturskyggn og náði yfir 16 mánaða tímabil, frá september 2013 til janúarloka 2015. Upplýsingar um þátttakendur fengust úr sjúkraskrárkerfi Landspítala. Fjörutíu og einn sjúklingur með MS sem prófað hafði lyfið myndaði rannsóknarþýðið. Þeir höfðu uppfyllt skilyrði SÍ til að hefja tveggja vikna reynslulyfjameðferð með fampridíni. Eftirfarandi breytur úr sjúkraskrá voru skráðar í gagnagrunn: aldur, kyn, flokkun á hreyfigetu samkvæmt EDSS, sjúkdómsgerð MS og niðurstöður úr gönguprófununum tveimur, T25FW og MSWS-12, fyrir og undir lok tveggja vikna reynslulyfjatöku, aukaverkanir fampridíns, hvort lyfjameðferð var hætt áður en tveggja vikna reynslutímabili lauk og hvort sjúklingur hélt áfram á lyfinu eftir tveggja vikna reynslutímabilið.

Sjúkraþjálfarar á taugadeild Landspítala lögðu gönguprófin fyrir alla sjúklinga nema einn sem var prófaður á heilsustofnun utan Reykjavíkur. Í T25FW-prófinu var gönguhraði mældur á 25 feta göngu (7,62 m). Hver sjúklingur gekk vegalengdina tvisvar á mesta hraða og var meðaltal þessara tveggja tilrauna reiknað. Notkun hjálpartækja er leyfileg við framkvæmd prófsins.15 MSWS-12 er spurningalisti þar sem hver sjúklingur svaraði 12 spurningum um göngugetu sína síðustu tvær vikur. Spurt er meðal annars hversu mikið MS-sjúkdómurinn takmarki getu til að standa, ganga, hlaupa, eða fara upp og niður stiga. Einnig er spurt um áhrif sjúkdóms á gönguhraða, gönguvegalengd, göngujafnvægi og erfiði við göngu. Svarmöguleikar eru á raðkvarða frá 1-5 þar sem 1 þýðir að sjúkdómurinn trufli alls ekki og 5 merkir að hann trufli mjög mikið. Þegar búið er að fylla út spurningalistann eru tölurnar tólf lagðar saman og niðurstaða getur í versta falli verið 60. Því hærri sem samtalan er, þeim mun meiri áhrif hefur MS-sjúkdómurinn á göngugetu.17 Sýnt hefur verið fram á góða próffræðilega eiginleika beggja mælitækja.23,24

Tölfræði

Lýsandi tölfræði var notuð til að lýsa hópnum. Þar sem niðurstöður göngumælinganna voru ekki normaldreifðar var notað Wilcoxon-raðsummupróf til að bera saman mælingar við upphaf og lok tveggja vikna lyfjagjafarinnar. Marktektarmörk voru sett 5% og öryggismörk 95%. Hlutfall þeirra sem hættu á lyfinu innan tveggja vikna reynslutímans var reiknað og einnig hlutfall þeirra sem héldu lyfjagjöf ekki áfram eftir prufuskammt.

Rannsóknin var framkvæmd með leyfum frá vísindasiðanefnd Landspítala (númer 47/2014), Persónuvernd (tilvísun 2014121705ÞS/) og framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala (tilv.16, LSH 119-14 ÓB/ei).

Niðurstöður

Þátttakendur voru á aldrinum 25-69 ára, meðalaldur 51 ár. Konur voru 61% af þýðinu. Sjö þátttakendur (17%) luku ekki tveggja vikna meðferð og mættu ekki í seinni göngumælingarnar.

Í töflu I sjást lýðfræðilegar breytur og sjúkdómsgerðir MS-sjúkdóms þátttakenda. Í fyrri dálki eru upplýsingar um allan hópinn í upphafi og í seinni dálki um þá 34 sjúklinga sem luku tveggja vikna lyfjameðferð og prófaðir voru með göngumælingunum fyrir og undir lok meðferðar.

Mynd 1. Flæðirit yfir ferlið sem hópurinn fór í gegnum.

Mynd 1 er flæðirit yfir ferlið hjá hópnum sem uppfyllti skilyrði tveggja vikna lyfjameðferðar. Ástæður fyrir brottfalli 7 þátttakenda (17%) á tveggja vikna reynslutímabilinu voru mismunandi eins og sjá má í flæðiriti.

Mynd 2. Breyting gönguhraða á Timed 25-foot walk.

Á mynd 2 sjást mælingar á T25FW-gönguprófinu fyrir og undir lok reynslutímans hjá þátttakendunum 34 sem luku því. Meðaltalsaukning gönguhraða var 22%. Mesta aukning á gönguhraða hjá stökum þátttakenda var 81%. Alls jókst gönguhraði hjá 30 þátttakendum af 34 (88%), hjá 16 (47%) jókst hann um 20% eða meira. Wilcoxon-raðsummupróf sýndi að marktæk aukning var á gönguhraða á milli fyrri og seinni mælinga (p<0,0001).

Mynd 3. Breyting stigafjölda á 12-item multiple sclerosis walking scale.

Á mynd 3 sjást niðurstöður á MSWS-12 fyrir og undir lok tveggja vikna reynslutímans fyrir þá 34 þátttakendur sem því luku. Lækkun stigafjölda hjá hópnum var að meðaltali 11,4 stig. Mesta framförin (það er lækkun á stigafjölda) var 30 stig. Alls lækkaði 31 þátttakandi (91%) stigafjölda sinn á prófinu, þar af 29 (85%) um 4 stig eða meira. Wilcoxon-raðsummupróf sýndi fram á marktæka lækkun á stigagjöf á MSWS-12 á milli fyrri og seinni prófunar (p<0,0001).

Fimmtán sjúklingar (44%) juku gönguhraðann um 20% eða meira á T25FW-prófinu og lækkuðu sig jafnframt um 4 stig eða meira á MSWS-12-prófinu.

Af heildarúrtakinu héldu 18 þátttakendur (43,9%) lyfjameðferð áfram eftir að mælingum lauk. Sextán (39%) héldu lyfjameðferð ekki áfram. Óvíst er hvort 7 (17,1%) einstaklingar héldu áfram en upplýsingar um það fengust ekki.

Af þeim 15 sjúklingum (36,6%) sem uppfylltu bæði skilyrðin fyrir áframhaldandi fampridín-meðferð, héldu 13 (31,7%) lyfjameðferðinni áfram. Upplýsingar voru ófullnægjandi um tvo (4,9%) og þeir því ekki taldir með.

Umræða

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að marktækur munur var fyrir og undir lok fampridíns-reynslumeðferðartímabilsins á gönguhraða á T25FW annars vegar og göngugetu samkvæmt MSWS-12 spurningalistanum hins vegar hjá þeim 34 af 41 sjúklingum sem luku meðferðartímabilinu. Fyrri rannsóknir hafa aðallega gengið út á að bera saman fampridín og lyfleysu. Þar hefur komið fram aukning á gönguhraða hjá um 35-70% sjúklinga með MS sem voru á lyfinu18-20,25 en í okkar rannsókn voru þeir 88%. Sé miðað við heildartölu uppruna þýðis okkar, eða 41 sjúkling, er hlutfallsniðurstaðan hins vegar 73%. Ekki er útilokað að í okkar rannsókn hafi frekar valist sjúklingar sem líklegir voru taldir til að hafa gagn af lyfinu. Í rannsókn Fragoso25 og fleiri juku 70% gönguhraða sinn en í þá rannsókn voru valdir þátttakendur sem voru líklegir til að svara meðferð og þar var heldur ekki lyfleysuhópur til samanburðar.

Aukning á gönguhraða var breytileg innan hópsins. Fjórir þátttakendur minnkuðu gönguhraða en aðrir juku hann. Mesta aukning á gönguhraða var 81% en sú minnsta 0,3%. Þetta endurspeglar breiddina í hópnum og mismikil áhrif af lyfinu. Á spurningalistanum MSWS-12 um göngugetu í daglegu lífi lýsa fleiri jákvæðum áhrifum af lyfinu heldur en sem nemur aukningu á gönguhraða. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að það er fylgni á milli þessara tveggja mælitækja. Yfir 20% aukning á gönguhraða á T25FW tengist klínískt mikilvægum breytingum sem koma fram á svörum í MSWS-12-spurningalistanum um göngugetu.26 Því er mælt með að nota þessi tvö próf þegar ákvarða á árangur af tveggja vikna prufutímabili og það er gert víða.16 Bent hefur verið á að rétt væri að bæta við fleiri mælingum þegar verið er að rannsaka hvort fampridín geti gagnast sjúklingum. Frammistöðumæling eins og T25FW eða spurningalisti gefa ef til vill ekki nægilega skýra mynd af áhrifum lyfsins á göngugetu í daglegu lífi. Pickering og fleiri27 notuðu meðal annars 6 mínútna göngupróf til að mæla gönguvegalengd. Rannsakendur bentu á að áhrif lyfsins á gönguhraða kæmu fram á tveimur vikum en fyrstu merki um getu til að ganga lengri vegalengdir kæmu fram á 4. viku og næðu hámarki í 8.-12. viku lyfjameðferðar. Þetta eru mikilvægar upplýsingar því ef skoða á áhrif lyfsins á skerta göngugetu benda þær til að það þurfi lengra prófunartímabil en tvær vikur. Ruck og fleiri28 mældu einnig gönguvegalengd og fundu út að hún helst ennþá aukin 9-12 mánuðum eftir upphaf lyfjatöku. Rannsakendur töldu að gengin vegalengd gæti verið betri mæling á daglegri athafnagetu því oft er það vegalengd fremur en hraði sem takmarkar daglega getu. Í nýjum rannsóknum hafa verið notaðar fleiri mælingar á göngu fólks við aðstæður í daglegu lífi. Niðurstöður þeirra voru að gönguvegalengd jókst,28,29 jákvæð breyting varð á göngulagi,30 hreyfing jókst samkvæmt spurningalistum um hreyfigetu29 og hröðunarmælar sýndu meiri göngu þó heildartími líkamlegrar virkni yfir daginn hafi ekki aukist.30 Sjúklingar með MS eru margir í sjúkraþjálfun til lengri og skemmri tíma enda hafa rannsóknir sýnt að margar aðferðir sjúkraþjálfunar hafa jákvæð áhrif á göngu þeirra.12 Það væri áhugavert að athuga hugsanlegan árangur af sjúkraþjálfun samhliða lyfjameðferð með fampridín.

Rannsókn okkar gefur mynd af skammtímaáhrifum fampridíns á göngugetu fólks með MS sem uppfyllti ákveðin skilyrði til að fá að prófa lyfið. Rannsókn Goodman og fleiri31 á langtímaáhrifum lyfsins hefur sýnt að ef notkun þess er hætt tapast fyrri aukning á gönguhraða og göngufærni minnkar. Þar kom einnig í ljós að þrátt fyrir langtímanotkun fampridíns dró almennt smám saman úr gönguhraða. Það er í samræmi við gang MS-sjúkdómsins yfir tíma og þýðir ekki að áhrif lyfsins séu að minnka. Þess má geta að hátt hlutfall þátttakenda var með meiri gönguhraða eftir tveggja ára meðferð en við upphaf meðferðar þrátt fyrir að dregið hafi úr hraðanum yfir tímabilið.31 Fampridín dregur ekki úr sjúkdómsvirkni MS en getur gagnast áfram og minnkað sjúkdómsbyrði þrátt fyrir versnandi sjúkdómseinkenni sem felast meðal annars í hægingu og versnun göngugetu.

Hjá nokkrum þátttakendum í okkar rannsókn urðu litlar breytingar á gönguhraða á gönguprófinu og ekki breyting á göngugetu samkvæmt spurningalistanum en breyting til batnaðar á getu til athafna, svo sem að þátttakendur duttu sjaldnar, geta þeirra var aukin til að flytja sig í og úr rúmi og snúa sér í rúmi. Samkvæmt þessu er mögulegt að fampridín geti bætt fleiri þætti en gönguhraða og göngugetu. Fampridín eykur hraða taugaboða og líklegt að lyfið hafi jákvæð áhrif á aðra þætti, svo sem líkamlega og andlega þreytu, daglegar athafnir og lífsgæði. Í rannsókn Korsen og fleiri32 komu fram marktæk jákvæð áhrif á þreytu, hugarstarf og andlega líðan eftir 12-14 daga töku á lyfinu og voru áhrifin ekki eingöngu bundin við þá sem bættu göngugetuna. Nokkrar nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á aukna líkamlega virkni, betra hugarstarf sem kemur fram sem bætt úrvinnsla upplýsinga (information processing), minni þreytu, betri samhæfingu og aukin lífsgæði hjá þeim sem taka lyfið.33-38 Limone og fleiri sýndu fram á að heilsutengd lífsgæði jukust marktækt við töku á fampridín miðað við samanburðarhóp.39 Hér skortir enn frekari rannsóknir en vonandi geta íslenskir sjúklingar með MS notið góðs af.

Helstu takmarkanir rannsóknar okkar eru að þátttakendur eru fáir og rannsóknin afturskyggn, upplýsingar byggja á skráningu í sjúkraskrám sem ekki voru gerðar í rannsóknarskyni. Vel er þekkt að dagsform sjúklinga með MS getur verið ærið sveiflukennt, sem getur hafa haft áhrif á frammistöðu þeirra í T25FW-gönguprófinu. Einnig voru flestir þessara sjúklinga á fyrirbyggjandi lyfjameðferð sem einnig getur hafa haft áhrif á göngugetu en þeir uppfylltu skilyrði SÍ um lyfjaskírteini, sem er að göngugeta hafi verið stöðug í mánuði fyrir lyfjagjöf.

Til styrkleika má hins vegar telja að mælingar á rannsóknarbreytunum tveimur, það er T25FW og MSWS-12, voru gerðar og færðar í sjúkraskrá af þremur sjúkraþjálfurum taugadeildar Landspítala. Sami sjúkraþjálfari sá um mælingar fyrir og í enda reynslumeðferðartímabils hvers sjúklings. Samræmi mælinga á því að hafa verið vel tryggt.

Lokaorð

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á góðan árangur lyfsins fampridíns á gönguhraða og göngugetu sjúklinga með MS. Í okkar rannsókn á litlu þýði íslenskra sjúklinga með MS með skerta göngugetu, sem tók til fyrstu 16 mánaðanna í notkun lyfsins hér á landi, kom fram sambærilegur góður árangur lyfsins hjá um helmingi sjúklinga. Erlendar rannsóknir gefa vísbendingar um að lyfið geti haft góð áhrif á aðra þætti sem skipta máli í daglegum athöfnum og heilsutengdum lífsgæðum fólks með MS. Sú er einnig reynsla okkar undanfarin ár í klínísku starfi. Svo virðist sem fampridín sé góð viðbót í einkennameðferð sjúklinga með MS.

Þakkir

Höfundar þakka Jóhannesi Má Þórissyni sjúkraþjálfara fyrir upphafsvinnu við rannsóknina.

 

Heimildir

 

1. Khan F, McPhail T, Brand C, et al. Multiple sclerosis: Disability profile and quality of life in an Australian community cohort. Int J Rehabil Res 2006; 29: 87-96.
https://doi.org/10.1097/01.mrr.0000194393.56772.62
PMid:16609318
 
2. Khan F, Pallant JF. Use of the International Classification of Functioning, Disability and Health (ICF) to identify preliminary comprehensive and brief core sets for multiple sclerosis. Disabil Rehabil 2007; 29: 205-13.
https://doi.org/10.1080/09638280600756141
PMid:17364771
 
3. Larocca NG. Impact of walking impairment in multiple sclerosis: perspectives of patients and care partners. Patient 2011;4(3):189-201.
https://doi.org/10.2165/11591150-000000000-00000
PMid:21766914
 
4. Kister I, Chamot E, Salter AR, et al. Disability in multiple sclerosis: a reference for patients and clinicians. Neurology 2013; 80: 1018-24.
https://doi.org/10.1212/WNL.0b013e3182872855
PMid:23427319 PMCid:PMC3653203
 
5. Hemmett L, Holmes J, Barnes M, et al. What drives quality of life in multiple sclerosis? QJM 2004; 97: 671-6.
https://doi.org/10.1093/qjmed/hch105
PMid:15367738
 
6. Heesen C, Bohm J, Reich C, et al. Patient perception of bodily functions in multiple sclerosis: gait and visual function are the most valuable. Mult Scler 2008; 14: 988-91.
https://doi.org/10.1177/1352458508088916
PMid:18505775
 
7. Sutliff MH. Contribution of impaired mobility to patient burden in multiple sclerosis. Curr Med Res Opin 2010; 26: 109-19.
https://doi.org/10.1185/03007990903433528
PMid:19916707
 
8. Pearson OR, Busse ME, van Deursen RW, et al. Quantification of walking mobility in neurological disorders. QJM 2004; 97: 463-75.
https://doi.org/10.1093/qjmed/hch084
PMid:15256604
 
9. Comber L, Galvin R, Coote S. Gait deficits in people with multiple sclerosis: A systematic review and meta-analysis. Gait Posture 2017; 51: 25-35.
https://doi.org/10.1016/j.gaitpost.2016.09.026
PMid:27693958
 
10. Ziemssen T, Phillips G, Shah R, et al. Development of the multiple sclerosis (MS) early mobility impairment questionnaire (EMIQ). J Neurol 2016; 263: 1969-83.
https://doi.org/10.1007/s00415-016-8210-4
PMid:27393117
 
11. Dobson R, Giovannoni G. Multiple sclerosis - a review. Eur J Neurol 2019; 26: 27-40.
https://doi.org/10.1111/ene.13819
PMid:30300457
 
12. Baird JF, Sandroff BM, Motl RW. Therapies for mobility disability in persons with multiple sclerosis. Expert Rev Neurother 2018; 18: 493-502.
https://doi.org/10.1080/14737175.2018.1478289
PMid:29772185 PMCid:PMC6291756
 
13. Lamore R, III, Jacob E, Jacob SC, et al. Dalfampridine (Ampyra): An Aid to Walking in Patients with Multiple Sclerosis. P T 2010; 35: 665-9.
 
14. European Medicine Agency. Fampyra: EPAR - product Information 2019 Desember 16; https://www.ema.europa.eu/en/documents/product-information/fampyra-epar-product-information_is.pdf - október 2020.
 
15. Fischer JS, Rudick RA, Cutter GR, et al. The Multiple Sclerosis Functional Composite Measure (MSFC): An integrated approach to MS clinical outcome assessment. National MS Society Clinical Outcomes Assessment Task Force. Mult Scler 1999; 5: 244-50.
https://doi.org/10.1191/135245899678846168
https://doi.org/10.1177/135245859900500409
PMid:10467383
 
16. Kurtzke JF. Rating neurologic impairment in multiple sclerosis: an expanded disability status scale (EDSS). Neurology 1983; 33: 1444-52.
https://doi.org/10.1212/WNL.33.11.1444
PMid:6685237
 
17. Hobart JC, Riazi A, Lamping DL, et al. Measuring the impact of MS on walking ability: the 12-Item MS Walking Scale (MSWS-12). Neurology 2003; 60: 31-6.
https://doi.org/10.1212/WNL.60.1.31
PMid:12525714
 
18. Goodman AD, Brown TR, Cohen JA, et al. Dose comparison trial of sustained-release fampridine in multiple sclerosis. Neurology 2008; 71: 1134-41.
https://doi.org/10.1212/01.wnl.0000326213.89576.0e
PMid:18672472
 
19. Goodman AD, Brown TR, Edwards KR, et al. A phase 3 trial of extended release oral dalfampridine in multiple sclerosis. Ann Neurol 2010; 68: 494-502.
https://doi.org/10.1002/ana.22240
PMid:20976768
 
20. Goodman AD, Brown TR, Krupp LB, et al. Sustained-release oral fampridine in multiple sclerosis: a randomised, double-blind, controlled trial. Lancet 2009; 373: 732-8.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(09)60442-6
 
21. Þráinsdóttir SG. MS - Hvar stöndum við í dag? Meginstoð 2013; 1: 26-32.
 
22. Sjúkratryggingar Íslands. Lyfjaskírteini - vinnuregla. 2018 -nóvember 1; https://www.sjukra.is/media/frettabref-lyfjadeildar/Fampyra_nov-2018_.pdf - október 2020.
 
23. Hobart J, Blight AR, Goodman A, et al. Timed 25-foot walk: direct evidence that improving 20% or greater is clinically meaningful in MS. Neurology 2013; 80: 1509-17.
https://doi.org/10.1212/WNL.0b013e31828cf7f3
PMid:23535489
 
24. Phan-Ba R, Pace A, Calay P, et al. Comparison of the Timed 25-Foot and the 100-Meter Walk as performance measures in Multiple Sclerosis. Neurorehabil Neural Repair 2011; 25: 672-9.
https://doi.org/10.1177/1545968310397204
PMid:21436388
 
25. Fragoso YD, Adoni T, Alves-Leon SV, et al. Real-life experience with fampridine (Fampyra®) for patients with multiple sclerosis and gait disorders. NeuroRehabilitation 2016; 39: 301-4.
https://doi.org/10.3233/NRE-161361
PMid:27372365
 
26. Hobart JC, Riazi A, Lamping DL, et al. Measuring the impact of MS on walking ability: the 12-Item MS Walking Scale (MSWS-12). Neurology 2003; 60: 31-6.
https://doi.org/10.1212/WNL.60.1.31
PMid:12525714
 
27. Pickering H, Murray J, Lin CSY, et al. Fampridine treatment and walking distance in multiple sclerosis: A randomised controlled trial. Clinical Neurophysiol 2017; 128: 93-9.
https://doi.org/10.1016/j.clinph.2016.10.088
PMid:27871056
 
28. Ruck T, Bittner S, Simon OJ, et al. Long-term effects of dalfampridine in patients with multiple sclerosis. J Neurol Sci 2014; 337: 18-24.
https://doi.org/10.1016/j.jns.2013.11.011
PMid:24290498
 
29. Stellmann JP, Jlussi M, Neuhaus A, et al. Fampridine and real-life walking in multiple sclerosis: Low predictive value of clinical test for habitual short-term changes. J Neurol Sci 2016; 368: 318-25.
https://doi.org/10.1016/j.jns.2016.07.051
PMid:27538657
 
30. Zorner B, Filli L, Reuter K, et al. Prolonged-release fampridine in multiple sclerosis: Improved ambulation effected by changes in walking pattern. Mult Scler 2016; 22: 1463-75.
https://doi.org/10.1177/1352458515622695
PMid:26762672
 
31. Goodman AD, Bethoux F, Brown TR, et al. Long-term safety and efficacy of dalfampridine for walking impairment in patients with multiple sclerosis: Results of open-label extensions of two phase 3 clinical trials. Mult Scler 2015; 21: 1322-31.
https://doi.org/10.1177/1352458514563591
PMid:25583832 PMCid:PMC4561451
 
32. Korsen M, Kunz R, Schminke U, et al. Dalfampridine effects on cognition, fatigue, and dexterity. Brain Behav 2017; 7: e00559.
https://doi.org/10.1002/brb3.559
PMid:28127507 PMCid:PMC5256171
 
33. Bakirtzis C, Konstantinopoulou E, Langdon DW, et al. Long-term effects of prolonged-release fampridine in cognitive function, fatigue, mood and quality of life of MS patients: The IGNITE study. J Neurol Sci 2018; 395: 106-12.
https://doi.org/10.1016/j.jns.2018.10.004
PMid:30308444
 
34. Jensen HB, Ravnborg M, Dalgas U, et al. 4-Aminopyridine for symptomatic treatment of multiple sclerosis: A systematic review. Ther Adv Neurol Disord 2014; 7: 97-113.
https://doi.org/10.1177/1756285613512712
PMid:24587826 PMCid:PMC3932769
 
35. Khan F, Amatya B. Rehabilitation in Multiple Sclerosis: A systematic review of systematic reviews. Arch Phys Med Rehabil 2017; 98: 353-67.
https://doi.org/10.1016/j.apmr.2016.04.016
PMid:27216225
 
36. Morrow SA, Rosehart H, Johnson AM. The effect of Fampridine-SR on cognitive fatigue in a randomized double-blind crossover trial in patients with MS. Mult Scler Relat Disord 2017; 11: 4-9.
https://doi.org/10.1016/j.msard.2016.10.011
PMid:28104253
 
37. Pavsic K, Pelicon K, Ledinek AH, et al. Short-term impact of fampridine on motor and cognitive functions, mood and quality of life among multiple sclerosis patients. Clin Neurol Neurosurg 2015; 139: 35-40.
https://doi.org/10.1016/j.clineuro.2015.08.023
PMid:26363365
 
38. Triche EW, Ruiz JA, Olson KM, et al. Changes in cognitive processing speed, mood, and fatigue in an observational study of persons with Multiple Sclerosis treated with Dalfampridine-ER. Clin Neuropharmacol 2016; 39: 73-80.
https://doi.org/10.1097/WNF.0000000000000130
PMid:26818040
 
39. Limone BL, Sidovar MF, Coleman CI. Estimation of the effect of dalfampridine-ER on health utility by mapping the MSWS-12 to the EQ-5D in multiple sclerosis patients. Health Qual Life Outcomes 2013; 11: 105.
https://doi.org/10.1186/1477-7525-11-105
PMid:23799913 PMCid:PMC3699372


Þetta vefsvæði byggir á Eplica