2. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Dagur í lífi yfirlæknis HSU á Höfn í Hornafirði og umdæmislæknis sóttvarna á Suðurlandi. Elín Freyja Hauksdóttir

Miðvikudagurinn 13. janúar

7:00 Vakna. Það tekur að minnsta kosti 20 mínútur að koma 7 ára barninu á fætur en sá 13 ára er að vinna heimavinnu, löngu vaknaður. Ótrúlegur munur á þessum bræðrum. Kaffibolli og svo rennt af stað í vinnu um kl. 7:58.

8:00 Mætt í vinnu. Skýrslu- og fundardagur fram að hádegi. Nokkrir fundir á dagskrá, sá fyrsti um rekstur heilsugæslunnar, sá næsti er með sóttvarnateymi HSU, sýnatökuteyminu og bólusetningarteyminu. Þetta hljómar eins og mikill fjöldi af fólki, en þetta er mikið til sama fólkið. Við ræðum smit á Suðurlandi og bólusetningar. Bólusetningar hafa gengið vel og við bíðum bara eftir upplýsingum um hvenær við fáum næsta skammt og hverja má bólusetja. Næstsíðasti fundur dagsins er stuttur stöðufundur með öllum stjórnendum HSU. Við erum að reyna að finna okkur í þessu nýja fjármögnunarlíkani sem tók gildi núna um áramótin.

13:00 Móttaka sjúklinga. Er með nokkra í heilsufarstékki. Nokkrir sem eru að koma 6 til 12 mánuðum of seint, vegna COVID. Ég legg til að fólk fari í ristilspeglun sem fólk er til í, en bara í vor þegar það verður orðið óhætt að hætta sér inn á svona áhættusvæði, stórborgina ...

Ester Þorvaldsdóttir hjúkrunarstjóri tók þessa mynd af lækninum og beinagrindinni.

Nú er ég tekin við vaktinni og hitti nokkra með mjög ólík vandamál. Skrifa upp á nokkra lyfseðla við njálg fyrir leikskólabörn, sýklalyf við þvagfærasýkingu, stilli af vanstilltan sykursýkisjúkling og sauma eitt eyra sem var hálfrifið af eftir bílveltu í morgun.

15:00 Síðasti fundur dagsins, með viðbragðsteymi HSU. Við stofnuðum það til að bregðast hratt við hópsmitum eins og við lentum í á Sólvöllum á Eyrarbakka. Við höfum sem betur fer ekki þurft að kalla teymið út en okkur líður betur að vera undirbúin. Svo hringi ég nokkur símtöl og reyni að vinna niður vinnulistann minn.

17:30 Nú er ég orðin andlega fjarverandi og ákveð að nóg sé komið og held heim. Ég rétt næ inn um dyrnar heima og kasta kveðju á strákana þegar vaktsíminn hringir. Einstaklingur datt í hálku og telur sig handleggsbrotinn. Ég renni jakkanum aftur upp, gríp eiginmanninn með þar sem hann er á sjúkrabílavakt og getur allt eins komið og aðstoðað mig. Eftir skoðun og röntgenrannsókn er ég orðin sammála sjúklingnum, þetta er upphandleggsbrot. Sjúklingurinn fær viðeigandi meðferð og við höldum heim … aftur.

19:00 Mætt í eldhúsið og græja kvöldverð fyrir fjölskylduna. Við reynum að horfa á kvöldfréttir með matnum, en það gengur upp og ofan vegna aukins talþrýstings hjá sumum fjölskyldumeðlimum. Eftir matinn set ég Queen Greatest hits í plötuspilarann og reyni að yfirgnæfa óm bræðrakærleiksins á heimilinu. Eftir tiltekt í eldhúsinu þarf að gera tiltekt í bílskúrnum, þar sem við eigum von á stórri sendingu frá IKEA á morgun. Við byggðum okkur hús á þessu blessaða COVID-ári, fluttum inn í nóvember og erum enn að setja upp innanstokksmuni. Þetta var ekki svo vitlaust, að byggja á þessum tíma, þótt það hafi verið mikið álag í vinnunni, en það var EKKERT
annað að gera.

21:00 Allir í pottinn og svo í rúmið með yngri helminginn. Fullorðnir fá að vaka lengur, hlamma sér í sófann og þá er nú aldeilis upplagt að taka vinnutölvuna fram aftur og klára smá pappírsvinnu.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica