1. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Urtagarðurinn í Nesi í 10 ár. Lilja Sigrún Jónsdóttir

Urtagarðurinn í Nesi var opnaður árið 2010 í minningu þriggja manna sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi. Þeir voru Bjarni Pálsson (1719-1779) landlæknir, Björn Jónsson (1738-1798) lyfjafræðingur og lyfsali og Hans Georg Schierbeck (1847-1911) landlæknir.

Áhugafólk um sögu lyfja- og læknisfræði hafði lengi haft áhuga á að skapa vettvang til kynningar á sögu ræktunar í Nesi. Tímamót í sögu tveggja landlækna árið 2010 skapaði tækifæri til slíks samstarfs. Þá voru liðin 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í nýstofnað embætti landlæknis (1760) og 125 ár frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands (1885). Fyrsti formaður þess var Hans Georg Schierbeck landlæknir. Vilhjálmur Lúðvíksson, þáverandi formaður Garðyrkjufélags Íslands, hafði veg og vanda af að leiða samstarf um stofnun Urtagarðsins í Nesi með fulltrúum Seltjarnarnesbæjar, Embættis landlæknis, Læknafélags Íslands og Lyfjafræðingafélags Íslands auk Lyfjafræðisafns Íslands og Lækningaminjasafns Íslands sem þá voru starfandi í Nesi.

Lilja Sigrún tók þessa mynd úr Urtagarðinum. Nesstofan ber uppruna sínum fagurt vitni og rís upp einsog danskur herragarður.

Bjarni Pálsson var skipaður fyrsti landlæknir Íslands árið 1760 og hafði aðsetur á Bessastöðum. Árið 1763 flutti landlæknir í reisulegt hús í Nesi við Seltjörn sem byggt var fyrir embættið og stendur þar enn. Þetta var upphaf opinberrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Bjarni sýndi fljótt vilja til að bæta næringarástand þjóðarinnar með fræðslu og nytjarækt. Mataræði landsmanna var einhæft og skortsjúkdómar algengir. Bjarni fékk öflugan liðsauka þegar Björn Jónsson var ráðinn aðstoðarmaður hans árið 1968 en á þeim tíma var rekstur lyfjabúðar hluti af starfi landlæknis. Björn hafði lært lyfjafræði í Vajsenhus-apóteki í Kaupmannahöfn í 6 ár og starfað sem aðstoðarlyfjafræðingur áður en hann fluttist til Íslands. Björn byggði upp matjurta- og lækningajurtagarð í Nesi frá 1768. Samkvæmt heimildum hefur hann verið um 200 fm, með hlöðnum vegg umhverfis og lýsa heimildir áhuga Björns á ræktun, tilraunum á því sviði og hvaða jurtir hafi verið að finna í garði hans.

Björn var skipaður fyrsti lyfsali á Íslandi 1772. Þá var sett tilskipun um rekstur apóteka og sama ár kom fyrsta lyfjaskráin út í Danmörku, Pharmacopoea Danica. Hún gilti fyrir öll apótek í ríki Danakonungs og innihélt 640 uppskriftir að lyfjum sem apótekurum bar að fylgja við blöndun lyfja. Á þessum tíma var það skylda lyfjafræðinga að hafa sinn eigin lækningajurtagarð og rækta plöntur til lyfjagerðar.

Urtagarðurinn í Nesi 2010 – tilgátugarður

Urtagarðurinn var settur niður austan við Nesstofu þar sem í seinni tíð var matjurtagarður ábúenda í Nesi. Garðurinn hefur útlit sem minnir á klausturstíl, með hlöðnum veggjum úr torfi. Plöntur voru valdar í fyrstu miðað við árin 1763 til 1834 út frá skriflegum heimildum um ræktun hér á landi og hvað mætti reyna að rækta af því sem tiltekið er í Pharmacopoea Danica 1772. Sú yfirferð var unnin af Kristínu Einarsdóttur lyfjafræðingi, Ingólfi Guðnasyni garðyrkjufræðingi og Erni Bjarnasyni lækni.

Garðurinn var vígður í ágúst 2010 og síðar um haustið kom út Plöntuvísir. Þar er gerð grein fyrir þeim tæplega 130 jurtum sem í garðinum voru, alþýðulækningajurtum, lækningajurtum og matjurtum sem talið er líklegt að hafi verið nýttar í Nesi á árunum 1763-1834.

Stjórn Urtagarðsins fékk styrk úr Þjóðhátíðarsjóði til að styðja við sagnfræðirannsóknir á sögu ræktunar í Nesi. Fyrirliggjandi heimildir á þessum tíma höfðu sýnt bréfasamskipti vegna kaupa Björns Jónssonar á dýrum fræjum frá Kaupmannahöfn. Sú spurning hafði vaknað hvort Björn hafi mögulega verið fyrstur til að rækta rabarbara hér á landi. Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir sagnfræðingur leitaði að heimildum, meðal annars um innkaupin, en þau gögn reyndust ekki vera tæmandi. Síðari tíma rannsóknir hafa sýnt bréfaskipti milli Björns Jónssonar og Hannesar Finnssonar biskups 1769, þar sem Björn segir frá sigrum og ósigrum í ræktunartilraunum sínum. Þannig kom það til að óskað var eftir stuðningi við að stækka plöntusýninguna svo að hún endurspeglaði betur þekkingu dagsins í dag. Nú hefur garðurinn því verið stækkaður og það hafa bæst við eplatré af ýmsum yrkjum, berjarunnar og sérstakt hvanna- og laukabeð.

Lifandi safn

Frá opnun urtagarðsins 2010 hafa verið skipulagðar árlegar leiðsagnir og málstofur í tengslum við garðinn. Grunnsýningin er óbreytt en sýning á klausturjurtum var samþættuð við hana árið 2015, eftir að fundust leifar af þekktum lækningajurtum við fornleifarannsóknir á klausturstæðum hér á landi frá miðöldum. Sumarið 2018 var safnað fjölbreyttum yrkjum af kartöflum, bæði sögulegum sem lengi hafa verið hér á landi og nýrri frækartöflum. Afurðirnar voru sýndar á fræðsludegi. Stjórn heldur úti síðu á Facebook fyrir garðinn.

Urtagarðurinn í Nesi hefur nýst almenningi og skólum. Gestir geta leitað á söfnin í Nesi um leiðsögn og fræðslu. Eftir lokun Lækningaminjasafns Íslands gekk Þjóðminjasafn Íslands inn í samkomulagið um garðinn. Frá upphafi hefur stuðningur Lyfjafræðisafnsins á vettvangi verið mikilvægt bakland fyrir starfsemi garðsins. Markmiðið með starfinu er að Urtagarðurinn í Nesi sé sjálfstæður áfangastaður þar sem má fræðast um sögu, ræktun og þróun þekkingar.


Heimildir

  • Bjarnason ÁH. Íslensk flóra með litmyndum. Iðunn, Reykjavík 1983.
  • Guðmundsdóttir JÞ. Garðrækt í Nesi við Seltjörn á síðari hluta 18. aldar. Garðyrkjuritið 2010: 28-35.
  • Guðnason I. munnlegar heimildir.
  • Jónsdóttir LS. Urtagarður í Nesi: Plöntuvísir. Ritstj. Seltjarnarnesi 2010.
  • Kennsluefni í útikennslu: utigrottu.com/copy-of-fjaran-1
  • Kolbeins ÞE. Urtagarðurinn í Nesi. Lækningajurtir þá og nú. Ritgerð. Landbúnaðarháskóli Íslands, Reykjum í Ölfusi 2010.
  • Þórólfsdóttir H. Náttúra og saga í Nesi við Seltjörn. Verkefnasafn. Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2011.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica